Lofsvert framtak

beer.gifFyrir Alþingi liggur nú tillaga um að áfengiskaupaaldur verði lækkaður niður í 18 ár á bjór og léttvín. Þetta er lofsvert framtak til skynsamari áfengisstefnu sem hlutaðeigandi þingmenn mega vera stoltir af.

Það eru þau Jóhanna Sigurðardóttir, Ágúst Ólafur Ágústson og Birkir J. Jónsson sem eru mæla fyrir frumvarpinu en meðflutningsmenn eru 13 og koma úr öllum flokkum.

Það hefur lengi verið bent á hvílíkt ósamræmi það er að menn geti gifst og skilið, keyrt bíl, stofnað fyrirtæki og sett þau á hausinn, orðið hreppstjórar og sótt um leyfi til að hafa hund en að þetta sama fólk megi ekki neyta áfengis öðruvísi en að ljúga sér til um aldur.

Hinn hái áfengiskaupaaldur er án efa eitt mesta hitamál meðal íslenskra menntaskólanema, enda litast allt félagslíf menntaskólanna beint eða óbeint af þeim hömlum sem lögin setja. Það er auðvitað algjörlega óviðunandi að 19 ára krakkar þurfi að pukrast með einhverjar dósir inn í sölum málarafélaga eins um eitthvað gríðarlega syndsamlegt athæfi væri að ræða.

Það er nú auðvitað þannig að þegar tvítugsafmælinu er lokið og menn geta hætt að mála sig eða klæða sig í asnaleg jakkaföt til að blekkja ríkisstarfsmenn, þá fer oft hitinn úr mönnum og önnur mál verða mikilvægari. Sumir skipta jafnvel um skoðun og sannfærast um ágæti laga sem þeir eitt sinn hötuðu og brutu.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem frumvarp um lækkkun áfengiskaupaaldurs er lagt fyrir þingið. Seinast var það líka Jóhanna Sigurðardótti sem flutti tillöguna en hún komst þá aðeins í gegnum eina umræðu áður en málið dó. Þá voru flutningsmenn aðeins fjórir en einnig voru áberandi færri ungir þingmenn þá en nú.

Frumvarpið nú er ólíkt að því leyti að lækkunin nær einungis til bjórs og léttvíns. Þrátt fyrir að gagnrýna megi þá takmörkun og beita sömu rökum á þau og á núverandi aldursmörk má ekki gleyma því að stjórnmál eru list hins mögulega og aukið skref til frjálsræðis er gott skref, sama hve stórt eða lítið það sé. Hafi þessi breyting verið það sem þurfti til að fá einhverja þingmenn til að breyta afstöðu sinni þá hafa flutningsmenn tillögunnar í versta falli gerst sekir um að vera góðir stjórnmálamenn sem beita málamiðlunum til að þoka málum í rétta átt.

Segjast verður að tillagan eigi ágæta möguleika á að vera samþykkt. Fyrir utan flutningsmennina 16 hafa þrír þingmenn áður Flutt svipaða tillögu (Geir H. Haarde, Siv Friðleifsdóttir og Lúðvík Bergvinsson). Einnig má binda vonir við að ungu Sjálfstæðismennirnir úr Reykjavík (Guðlaugur Þór , Birgir Ármannsson og Sigurður Kári) sjái sér fært að styðja þetta mikla frjálslyndismál.

Þá hefur Pétur Blöndal löngum talað fyrir aukinni skynsemi í áfengismálum og mælt fyrir frumvörpum sem að því lúta. Þá verður það að teljast ólíklegt að Ágúst Einarsson leggist af alefli gegn fyrsta þingmáli sonar síns.

Hafa þá verið taldir 24 þingmenn sem telja megi líklegt að styðji frumvarpið sem verður að teljast a.m.k. ágætis byrjun.

Það er einlæg von þess sem þetta skrifar að umrætt frumvarp fljúgi gegnum haustþingið. Takist það mun það vera tákn um ferskara og frjálslyndara þing sem mun vonandi auka trú ungs fólks á löggjöf landsins.

Leave a Reply

Your email address will not be published.