Í hvaða flokki er Heimdallur?

heimdallur.gifSíðastliðinn mánudag birtist á frelsi.is auglýsing um myndbandakvöld Frjálshyggjufélagsins. Eflaust er þetta ekki í fyrsta skipti sem einn stjórnmálaflokkur auglýsir atburð annars. Hins vegar voru auglýsingarnar orðaðar á þann hátt að lesendur gátu fengið á tilfinninguna á Frjálshyggjufélagið væri einhver undirdeild í Heimdalli. Eða að minnsta kosti sérstakt vinafélag fyrir “lengra komna” í frjálshyggjudraumnum.

Undirritaður varð fyrst var við auglýsinguna á mánudaginn. Þá hljóðaði hún svo:

Fyrsta myndbandakvöld Frjálshyggjufélagsins verður haldið í hliðarsal Kringlukrárinnar mánudaginn 13. október kl. 20:00. Fyrsti þátturinn í þáttaröðinni Free to Choose eftir Milton Friedman verður sýndur á sýningartjaldi.

Við hvetjum þig til að mæta og endilega taka sem flesta með sem vilja koma.

Milton Friedman er bandarískur hagfræðingur […].

Í þættinum eru einnig rökræður milli Friedmans og annara hagfræðinga sem eiga sér stað í sjónvarpssal. Meira verður ekki sagt að sinni heldur hvetjum við ykkur til að koma og sjá hvað fleira Friedman hefur fram að færa.

Þetta er samhljóða auglýsingu sem birtist á heimasíðu Frjálshyggjufélagsins. Ritstjórn frelsis.is hafði ekki fyrir að breyta textanum eða setja einhverjar skýringar eða fyrirvara á hann. Textinn leit því út eins og hann kæmi frá Heimdalli sjálfum. “Við hvetjum þig til að mæta…” o.s.frv.

Seinna um kvöldið þegar myndbandakvöldinu var lokið var fréttinni kippt út. Hún birtist svo aftur næsta dag örlítið breytt. Nú hófst hún svo:

Fyrsta myndbandakvöld Frjálshyggjufélagsins verður haldið í hliðarsal Kringlukrárinnar mánudaginn 13. október kl. 20:00. Fyrsti þátturinn í þáttaröðinni Free to Choose eftir Milton Friedman verður sýndur á sýningartjaldi. Hér er um gott framtak að ræða hjá þessum geðþekku piltum.
Milton Friedman er bandarískur hagfræðingur.[…]

Einnig var seinustu efnisgreininni kippt út enda ekki mikill tilgangur að hvetja fólk til að mæta á eitthvað sem er löngu búið.

Það er áreiðanlega ekki einsdæmi að stjórmálahreyfingar kynni atburði hver annarrar. Það skiptir hins vegar auðvitað máli undir hvaða formerkjum það sé gert. Af auglýsingunni ekki að skilja sem að ungir sjálfstæðismenn eigi að mæta á myndbandakvöldið til að láta sín andstæðu sjónarmið heyrast við forkólfa Frjálshyggjufélagsins. Það er þvert á móti gefið í skyn að fólkið í Frjálshyggjufélaginu séu einkar “geðþekkir piltar” sem Heimdellingar eigi samleið með.

Það má ekki gleyma að Frjálshyggjufélagið er ekki bara venjulegt félag. Frjálshyggjufélagið er félag manna sem á sínum tíma klufu sig með látum út úr Heimdalli til að geta gengið lengra í frjálshyggjunni. Frjálshyggjufélagið stefnir að eigin framboði til Alþingiskosninga. Frjálshyggjufélagið er því ekki bara einhver áhugamannahópur, heldur flokkur sem er að berjast við Sjálfstæðisflokkinn um ákveðinn kjósendahóp. Það er því ekki hægt að halda því fram að eðlilegt sé að kynna skemmtidagskrá þeirra með þeim hætti sem gert hefur verið – án nokkurra fyrirvara um að félagsatburð annars stjórnmálaflokks sé að ræða.

Ef Frjálshyggjufélagið léti af áformum sínum um framboð til Alþingis og breyttist í áhugamannaklúbb um stjórnmál væri í sjálfu sér réttlætanlegt fyrir Heimdall að eiga við það samstarf um myndbandasýningar, málfundi, pókerkvöld eða aðra atburði. Það er hins vegar ekki raunin. Ég mundi þar að auki telja að 4 þús. manna félag ætti að geta skipulagt sína eigin skemmtidagskrá í stað þess að þurfa að reiða sig á félagsatburði öfgahópa.

Ímynd Heimdallar er orðin slæm meðal ungs fólks og því þarf að breyta. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki lengur fyrsti valkostur ungs fólks. Það er auðvitað fáranlegt að við slíkar aðstæður skuli stjórn Heimdallar veita fámennum klofningshópi svona mikla athygli á meðan 1000 ungmenni sem fengu ekki að skrá sig í Heimdall fyrir aðalfund bíða enn á biðlista eftir inngöngu í félagið.

Leave a Reply

Your email address will not be published.