Lofsvert framtak

beer.gifFyrir Alþingi liggur nú tillaga um að áfengiskaupaaldur verði lækkaður niður í 18 ár á bjór og léttvín. Þetta er lofsvert framtak til skynsamari áfengisstefnu sem hlutaðeigandi þingmenn mega vera stoltir af.

Það eru þau Jóhanna Sigurðardóttir, Ágúst Ólafur Ágústson og Birkir J. Jónsson sem eru mæla fyrir frumvarpinu en meðflutningsmenn eru 13 og koma úr öllum flokkum.

Það hefur lengi verið bent á hvílíkt ósamræmi það er að menn geti gifst og skilið, keyrt bíl, stofnað fyrirtæki og sett þau á hausinn, orðið hreppstjórar og sótt um leyfi til að hafa hund en að þetta sama fólk megi ekki neyta áfengis öðruvísi en að ljúga sér til um aldur.

Hinn hái áfengiskaupaaldur er án efa eitt mesta hitamál meðal íslenskra menntaskólanema, enda litast allt félagslíf menntaskólanna beint eða óbeint af þeim hömlum sem lögin setja. Það er auðvitað algjörlega óviðunandi að 19 ára krakkar þurfi að pukrast með einhverjar dósir inn í sölum málarafélaga eins um eitthvað gríðarlega syndsamlegt athæfi væri að ræða.

Það er nú auðvitað þannig að þegar tvítugsafmælinu er lokið og menn geta hætt að mála sig eða klæða sig í asnaleg jakkaföt til að blekkja ríkisstarfsmenn, þá fer oft hitinn úr mönnum og önnur mál verða mikilvægari. Sumir skipta jafnvel um skoðun og sannfærast um ágæti laga sem þeir eitt sinn hötuðu og brutu.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem frumvarp um lækkkun áfengiskaupaaldurs er lagt fyrir þingið. Seinast var það líka Jóhanna Sigurðardótti sem flutti tillöguna en hún komst þá aðeins í gegnum eina umræðu áður en málið dó. Þá voru flutningsmenn aðeins fjórir en einnig voru áberandi færri ungir þingmenn þá en nú.

Frumvarpið nú er ólíkt að því leyti að lækkunin nær einungis til bjórs og léttvíns. Þrátt fyrir að gagnrýna megi þá takmörkun og beita sömu rökum á þau og á núverandi aldursmörk má ekki gleyma því að stjórnmál eru list hins mögulega og aukið skref til frjálsræðis er gott skref, sama hve stórt eða lítið það sé. Hafi þessi breyting verið það sem þurfti til að fá einhverja þingmenn til að breyta afstöðu sinni þá hafa flutningsmenn tillögunnar í versta falli gerst sekir um að vera góðir stjórnmálamenn sem beita málamiðlunum til að þoka málum í rétta átt.

Segjast verður að tillagan eigi ágæta möguleika á að vera samþykkt. Fyrir utan flutningsmennina 16 hafa þrír þingmenn áður Flutt svipaða tillögu (Geir H. Haarde, Siv Friðleifsdóttir og Lúðvík Bergvinsson). Einnig má binda vonir við að ungu Sjálfstæðismennirnir úr Reykjavík (Guðlaugur Þór , Birgir Ármannsson og Sigurður Kári) sjái sér fært að styðja þetta mikla frjálslyndismál.

Þá hefur Pétur Blöndal löngum talað fyrir aukinni skynsemi í áfengismálum og mælt fyrir frumvörpum sem að því lúta. Þá verður það að teljast ólíklegt að Ágúst Einarsson leggist af alefli gegn fyrsta þingmáli sonar síns.

Hafa þá verið taldir 24 þingmenn sem telja megi líklegt að styðji frumvarpið sem verður að teljast a.m.k. ágætis byrjun.

Það er einlæg von þess sem þetta skrifar að umrætt frumvarp fljúgi gegnum haustþingið. Takist það mun það vera tákn um ferskara og frjálslyndara þing sem mun vonandi auka trú ungs fólks á löggjöf landsins.

Í frjálsu falli

sunsetdivers.jpgÞrátt fyrir að flug sé öruggur ferðamáti verður því ekki neitað að manni finnst maður tæpast voða öruggur þegar ljósin slökkna í klefanum rétt fyrir flugtak og veggirnir fara að ískra. Því þrátt fyrir alla tölfræðina þá er eitthvað sem segir okkur að þegar eitthvað kemur upp á í 10 þús. metra hæð munu öll heimsins belti, súrefnisgrímur, ælupokar og upprétt sætisbök vera einskis verð.

En ímyndum okkur nú að vélin okkar hafi sprungið í tætlur yfir skóglendum Tékklands og við svífum nú á ógnarhraða niður niður í átt að jörðinni. Er eitthvað sem við getum gert? Í fyrsta lagi þá er líklegt að við munum missa meðvitund fljótlega enda súrefnismagn lítið í þeirri hæð sem farþegaþotur fljúga í. Hins vegar fáum við hana fljótlega aftur þegar neðar er komið.

Ljóst er að staðan er ekki voða björt. Við erum að drullast niður á ógnarhraða fallhlífarlausir í átt að Austur-Evrópuríki. Það er hins vegar nauðsynlegt að líta dálítið á björtu hliðarnar. Meðalmaður nær lokahraða eftir u.þ.b. 14 sek. fall. Þetta þýðir að eftir þessar 14 sekúndur hafa þyngaraflið og núningsmótstaðan náð jafnvægi og hraði okkar eykst ekki meir. Því skiptir litlu máli hvort fallið sem um ræðir sé 1000 eða 10.000 metrar. Ef eitthvað þá er hærra fallið nú skárra því það gefur okkur tíma til að hugsa eitthvað sniðugt.

Er laus fallhlíf einhvers staðar fljúgandi í kringum okkur? Nei, það væri kannski fullbjartsýnt. Hins vegar allt sem dregur úr hraða okkar er af hinu góða. Mun fleiri hafa lifað af föll innan í flugfari en utan þess. Jafnvel bútur úr væng er skárri en ekki neitt.

Þegar kemur að því að velja lendingarstað er gott að hafa reynslu fyrirrennara okkar í huga. Vatn virðist ekki vera heppilegur miðill til að enda ferðina í. Tökum eftir að við munum líklegast rotast og brjóta fjölmörg bein í lendingunni. Því er ólíklegt að okkur muni takast að synda aftur upp á yfirborðið jafnvel þótt við lifum af sjálft fallið. Þeir sem lifað hafa af frjáls föll hafa oftast lent í háum trjám eða í þykkum snjósköflum.

Þegar lent er skal minnast þess að heilinn í okkur er það verðmætasta sem við eigum. Án hans er restin til lítils. Reynum að vernda hausinn með öllum tiltækum ráðum og lendum með fætur á undan. Það mun kosta alvarleg fótbrot og líklegast mænuskaða en vonandi verður lukkan með okkur og við munum lifa þetta af.

Bjartsýnispunktur í lokin: Júgóslavneska flugfreyjan Vesna Vulovic var sú eina sem lifði af þegar flugvél hennar sprakk yfir Tékkóslóvakíu í janúar 1972. Hún lamaðist fyrir neðan mitti en náði sér síðan og getur gengið á eigin fótum í dag. Talið er að króatískir hryðjuverkamenn hafi staðið fyrir sprengingunni.

Í hvaða flokki er Heimdallur?

heimdallur.gifSíðastliðinn mánudag birtist á frelsi.is auglýsing um myndbandakvöld Frjálshyggjufélagsins. Eflaust er þetta ekki í fyrsta skipti sem einn stjórnmálaflokkur auglýsir atburð annars. Hins vegar voru auglýsingarnar orðaðar á þann hátt að lesendur gátu fengið á tilfinninguna á Frjálshyggjufélagið væri einhver undirdeild í Heimdalli. Eða að minnsta kosti sérstakt vinafélag fyrir „lengra komna“ í frjálshyggjudraumnum.

Undirritaður varð fyrst var við auglýsinguna á mánudaginn. Þá hljóðaði hún svo:

Fyrsta myndbandakvöld Frjálshyggjufélagsins verður haldið í hliðarsal Kringlukrárinnar mánudaginn 13. október kl. 20:00. Fyrsti þátturinn í þáttaröðinni Free to Choose eftir Milton Friedman verður sýndur á sýningartjaldi.

Við hvetjum þig til að mæta og endilega taka sem flesta með sem vilja koma.

Milton Friedman er bandarískur hagfræðingur […].

Í þættinum eru einnig rökræður milli Friedmans og annara hagfræðinga sem eiga sér stað í sjónvarpssal. Meira verður ekki sagt að sinni heldur hvetjum við ykkur til að koma og sjá hvað fleira Friedman hefur fram að færa.

Þetta er samhljóða auglýsingu sem birtist á heimasíðu Frjálshyggjufélagsins. Ritstjórn frelsis.is hafði ekki fyrir að breyta textanum eða setja einhverjar skýringar eða fyrirvara á hann. Textinn leit því út eins og hann kæmi frá Heimdalli sjálfum. „Við hvetjum þig til að mæta…“ o.s.frv.

Seinna um kvöldið þegar myndbandakvöldinu var lokið var fréttinni kippt út. Hún birtist svo aftur næsta dag örlítið breytt. Nú hófst hún svo:

Fyrsta myndbandakvöld Frjálshyggjufélagsins verður haldið í hliðarsal Kringlukrárinnar mánudaginn 13. október kl. 20:00. Fyrsti þátturinn í þáttaröðinni Free to Choose eftir Milton Friedman verður sýndur á sýningartjaldi. Hér er um gott framtak að ræða hjá þessum geðþekku piltum.
Milton Friedman er bandarískur hagfræðingur.[…]

Einnig var seinustu efnisgreininni kippt út enda ekki mikill tilgangur að hvetja fólk til að mæta á eitthvað sem er löngu búið.

Það er áreiðanlega ekki einsdæmi að stjórmálahreyfingar kynni atburði hver annarrar. Það skiptir hins vegar auðvitað máli undir hvaða formerkjum það sé gert. Af auglýsingunni ekki að skilja sem að ungir sjálfstæðismenn eigi að mæta á myndbandakvöldið til að láta sín andstæðu sjónarmið heyrast við forkólfa Frjálshyggjufélagsins. Það er þvert á móti gefið í skyn að fólkið í Frjálshyggjufélaginu séu einkar „geðþekkir piltar“ sem Heimdellingar eigi samleið með.

Það má ekki gleyma að Frjálshyggjufélagið er ekki bara venjulegt félag. Frjálshyggjufélagið er félag manna sem á sínum tíma klufu sig með látum út úr Heimdalli til að geta gengið lengra í frjálshyggjunni. Frjálshyggjufélagið stefnir að eigin framboði til Alþingiskosninga. Frjálshyggjufélagið er því ekki bara einhver áhugamannahópur, heldur flokkur sem er að berjast við Sjálfstæðisflokkinn um ákveðinn kjósendahóp. Það er því ekki hægt að halda því fram að eðlilegt sé að kynna skemmtidagskrá þeirra með þeim hætti sem gert hefur verið – án nokkurra fyrirvara um að félagsatburð annars stjórnmálaflokks sé að ræða.

Ef Frjálshyggjufélagið léti af áformum sínum um framboð til Alþingis og breyttist í áhugamannaklúbb um stjórnmál væri í sjálfu sér réttlætanlegt fyrir Heimdall að eiga við það samstarf um myndbandasýningar, málfundi, pókerkvöld eða aðra atburði. Það er hins vegar ekki raunin. Ég mundi þar að auki telja að 4 þús. manna félag ætti að geta skipulagt sína eigin skemmtidagskrá í stað þess að þurfa að reiða sig á félagsatburði öfgahópa.

Ímynd Heimdallar er orðin slæm meðal ungs fólks og því þarf að breyta. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki lengur fyrsti valkostur ungs fólks. Það er auðvitað fáranlegt að við slíkar aðstæður skuli stjórn Heimdallar veita fámennum klofningshópi svona mikla athygli á meðan 1000 ungmenni sem fengu ekki að skrá sig í Heimdall fyrir aðalfund bíða enn á biðlista eftir inngöngu í félagið.

Jákvætt framlag til húmors í íslenskum stjórnmálum

LogoUJ2.jpgÍ dag birtir vefrit Ungra jafnaðarmanna www.politik.is opið bréf til þeirra 1152 ungra manna og kvenna sem fengu ekki að skrá sig í Heimdall í aðdraganda aðalfundar Félagsins. Andrés Jónsson formaður UJ er skrifaður fyrir bréfinu og segir hann meðal annars:

[…]Við höfum því ákveðið að bjóða ykkur að ganga til liðs við Unga jafnaðarmenn (ungliðahreyfingu Samfylkingarinnar), enda teljum við líklegt að Samfylkingin eigi betur við ykkur en Sjálfstæðisflokkurinn. Ekki bara vegna þess að Samfylkingin er opinn og lýðræðislegur flokkur heldur líka vegna þess að okkur virðist sem að þið eigið flest meiri samleið með Samfylkingunni en Sjálfstæðisflokknum hvað varðar hugsjónir og skoðanir. Þetta þykjumst við ráða af skrifum sumra ykkar á vefritinu Deiglunni.

Um daginn gerði Múrinn það að umfjöllunarefni sínu hvernig þeim fyndist sem Samfylkingin hefði það að einu markmiði sínu að verða stór, helst stærri en Sjálfstæðisflokkurinn. Eflaust hlægja menn nú hátt þar á bæ þegar hátt í 1200 tilvonandi ungir Sjálfstæðismenn eru boðnir velkomnir í Samfylkinguna. En þrátt fyrir að þetta opna bréf UJ sé eflaust fyrst og fremst skrifað með gamansemi í huga má ekki gleyma að hugsanlega hafa Ungir Jafnaðarmenn sitt hvað til síns máls.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn hrindir frá sér þeim frjálslyndu ungu kjósendum sem innan hans vilja starfa mun það fólk leita annað. Þegar í dag er orðinn til verulegur hópur ungs fólks sem getur ekki hugsað sér að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Þá er ég ekki að tala um jaðarkomma og samsæriskenningalið. Ég er að tala um tiltölulega frjálslynt fólk sem sér flokkinn sem spillta valdaklíku með fráhrindandi öfgafullan ungliðaarm. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki efni á því að missa hina stóru frjálslyndu miðju íslenskra stjórnmála. Muni það gerast getur flokkurinn kvatt hið hefðbundna 40% fylgi sitt.

Skýtur það annars ekki skökku við að Ungir Jafnaðarmenn hafa nú boðið þetta fólk velkomið en að slík kveðja hefur enn ekki borist frá Heimdalli sjálfum, félaginu sem fólkið var jú að ganga í? Það var gefið út fyrir kosningar að það mundi verða „fyrsta verk“ nýrrar stjórnar að hringja í þá sem sóttu um að skrá sig og taka þá inn í flokkinn. Nú þegar meira en vika er liðin frá kosningum hefur ný ritstjórn frelsis.is verið skipuð og vinna við gagnrýni fjárlagafrumvarps ráðherra Sjálfstæðisflokksins er komin á fullt skrið hefur en ekki verið hringt í þessa 1152 einstaklinga sem sóttu um inngöngu í flokkinn (að mér vitandi a.m.k.) Enda segir mér svo hugur um að það muni ekki vera gert. Fólkið verður einfaldlega skráð inn í Heimdall án nokkurra spurninga líkt og alltaf hefur verið gert hingað til. Aðalfundi er lokið – tilganginum er náð – fólkið fékk ekki að kjósa.

Ég þakka Ungum Jafnaðarmönnum indælt boð. Það er gaman að vita að fólk í stjórnmálum hafi enn þá húmor. En fyrir mína hönd ætla ég að afþakka. Ég held að farsælast sé að hafa hægrimenn í hægriflokkum og vinstrimenn í vinstriflokkum. Og ég er frjálslyndur hægrimaður. Ég ætla að láta á það reyna hvort þau viðhorf eigi ekki heima innan Sjálfstæðisflokksins.