Baksviðs á Deiglunni

backstage.jpgNú eru liðin meira en fimm ár síðan að deiglan.com hóf göngu sína á veraldarvefnum. Í fyrstu var það aðeins einn pólitískur einbúi sem hélt vefritinu uppi en síðan fóru fleiri að bætast við og nú er svo komið að yfir 40 manns skrifa á deigluna, mismikið þó.

Lengi vel var það nauðsynlegt skilyrði fyrir skrifum á Deiglunni að viðkomandi hafi einhvern tímann drukkið áfengi í grennd við ritstjórn blaðsins. Í seinni tíð virðist sem það skilyrði sé einnig orðið nægjanlegt og skýrir það hina miklu fjölgun penna að undanförnu.

Ólíkt vefritum á borð við frelsi og maddömuna er ekki treyst á að hvatvísi penna tryggi stöðugar uppfærslur. Menn fá úthlutað dögum sem þeir eiga að birta á ellegar fá einhvern til að gera það fyrir sig. Sumir nýta sér hégómagirnd ákveðinna afkastamikla og athyglissjúkra lúða sem alltaf eru til í að hlaupa í skarðið. Þetta er ástæðan fyrir þeirri sorglegu staðreynd að í dag birtast tveir pistlar eftir sama einstakling.

Skoðanir Deiglupenna eru æði fjölbreyttar sem og efnistök þeirra. Sumir þeirra kjósa að sigla lygnan sjó á meðan að aðrir meta gæði pistla eftir fjölda hatursbréfa sem í kjölfar hans koma.

Þannig hefur undirritaður gert það að íþrótt að skipulega grafa undan framtíð sinni á hægrivæng íslenskra stjórnmála með endalausu Evrópudaðri, „hérumbilandstöðu“ við hvalveiðar, ósanngjarnri gagnrýni á Björn Bjarnason og lágkúrulegum árásum á Heimdall, mekku íslenskrar nútímahugsunar. Til fullkomna svo verkið birtist í morgun pistill sem gagnrýndi LÍÚ. Nagli í líkkistuna.

Þetta hefur verið gert með hljóðlátu samþykki ritstjórnar enda kjörið tækifæri til að sýna fram á meinta „fjölbreytni“ og „óháðleika“ blaðsins og öðlast þannig traust framámanna í öllum flokkum og geta þarmeð stjórnað Íslandi án þess þó að þurfa nokkurn tímann að taka þátt í kosningum eða öðru eins veseni.

Félagslíf Deiglunnar skipar glæstan sess í starfi vefritsins. Þar erum við svo heppin að nokkrir pennanna eru einhleypir en vel hýstir sem er heppilegt þegar að hátíðarhöldum kemur. Undirritaður er einmitt nú um helgina á leiðinni í Septemberfest Deiglunnar og hlakkar til enda fjarri góðu gamni þegar Ágústfestið var haldið fyrir rúmum mánuði síðan.

Ég vona að lesendur hafi orðið einhvers vísari af þessum skrifum og taki þann létta og tilgerðarlega anda þeirra með sér út á lífið í kvöld og annað kvöld. Góða helgi!

Hinir miklu hagsmunir

togari.jpgÍ Fréttablaðinu á þriðjudag birtist frétt þess efnis að á vegum viðskiptaráðuneytis væri verið að útfæra tillögur um að afnema hömlur á fjárfestingar útlendinga í sjávarútvegi. Haft var samband við Kristinn H. Gunnarsson fyrrverandi þingmann Alþýðubandalagsins og núverandi þingmann Framsóknarflokksins sem lýsti endalausum áhyggjum sínum af þessum máli. Ástæðan fyrir þessum áhyggjum Kristins var sú að „miklir hagsmunir væru í húfi“.

Kristni tókst þar með að sameina einkenni þeirra tveggja stjórnmálahreyfinga sem hann hefur starfað fyrir: almenna óbeit róttækra vinstri manna á hvers kyns fjárfestingum og almenna hræðslu framsóknarmanna við hið óþekkta.

En hverra hagsmunir eru það sem eru „í húfi“?

Hagsmunirnir eru auðvitað hagsmunir þeirra sem í dag eiga fyrirtæki í sjávarútvegi en mundu ekki eiga þau áfram eftir breytinguna. Hvaða fólk er það? Það eru þeir einstaklingar sem reka fyrirtæki sín ekki með nógu hagkvæmum hætti. Venjuleg markaðsrök hljóta að eiga við um sjávarútveg, sem aðrar greinar atvinnulífsins!

Hömlur á fjárfestingar eru eins og hverjar aðrar hömlur. Þær eru aðferð sem þjóðir nota til að gera sjálfar sig fátækari. Tollar eru leið til að fá neytendur til að sætta sig við verri og dýrari innlenda framleiðslu á kostnað erlendrar. Hömlur á uppsögnum starfsmanna eru leið til að neyða vinnuveitendur til að halda í vondan starfsmann fremur en að reka hann og ráða góðan.

Hvers vegna ætti þá ekki líka að banna útlendingum að reka verslanir, skóla eða kvikmyndahús? Ja, eða álver? Væri það ekki mikilvægt til að vernda þá miklu „hagsmuni“ sem „í húfi eru“?

Í dag birtist svo önnur grein um málið í Fréttablaðinu. Þar var rætt við einn „hagsmunaaðilanna“, framkvæmdarstjóra LÍU. Hann segir m.a.:

„Ef útlendingar ná yfirráðum færist arðurinn út. Erlendis er hugsunarhátturinn víðast hvar annar en gerist meðal íslenskra og sjómanna og útgerðarmanna og birtist okkur í ofveiði og slæmri umgengni um lögsöguna.“

Lengi vel hefur Ögmundur Jónasson sungið vísu um hina illkvittnu auðmenn sem fara inn í fyrirtæki til að „hafa út úr þeim arð“. Flestum markaðssinnum hefur þessi vísa þótt fremur kjánaleg. Nú er hins vegar svo komið að Ögmundarlygin virðist hafa náð eyrum forsvarsmanna stærstu útflutningsgreinar landsins. Hinir vondu útlensku auðjöfrar ætla nú að fara inn í íslensk fyrirtæki og „taka út úr þeim arð“ og skilja þau síðan eftir í sárum sínum.

Þótt að útlendingar ættu íslensk sjávarútvegsfyrirtæki þyrftu þeir auðvitað að fara að lögum við nýtingu auðlindarinnar. Rökin um ofveiði eru því fremur kjánaleg. Það er síðan auðvitað ekki þannig að íslendingar reki fyrirtæki sín af einhverri göfugri hugsjón. Þau fyrirtæki sem eru vel rekin eru rekin í gróðaskyni. Vissulega eru alltaf til menn sem setja skammtímagróða ofar langtímaáætlunum en slíkt á við um allar greinar atvinnulífsins og takmarkast alls ekki við útlendinga.

Nú væri kjörið fyrir frjálshyggjufólk að láta í sér heyra um þetta mál. Sérstaklega þar sem þeir tilheyra flestir þeim flokki sem oft hefur verið sakaður um að vera málpípa útvegsmanna. Ég fagna því skriði sem komið er á umræðuna og voni að hún skili sér í sem mestu frjálsræði þegar fram líða stundir.

Sannleikurinn um nöfn fellibylja!

hurricane2.jpgAllf frá miðöldum hefur það tíðkast að gefa veðurfyrirbrigðum nöfn. Fram á seinustu öld var algengast að skíra fellibylji eftir dýrlingum. Þannig lenti hin heilaga Anna til dæmis á Púerto Riko sumarið 1826 með tilheyrandi mannfalli og leiðindum og hinn heilagi Filippus bætti um betur rúmri hálfri öld síðar.

Það var síðan árið 1952 sem Alþjóða veðurfræðistofnunin (WMO) tók upp staðlað nafnakerfi til notkunar í samskiptum manna á milli. Mannanöfn falla, nefnilega, óneitanlega betur að töluðu máli en upprunahnit og -dagsetning, hin stöðluðu auðkenni þessara veðurfyrirbrigða. Fram til 1979 var fylgt þeirri hæðnislegu venju að notast einungis við kvenmannsnöfn en á það ár var karlmannsnöfnum bætt við.

En hver ræður því hvaða fellibylur muni heita hvað? Er hlutað til um nöfn í starfsmannapartýum WMO? Er það fyrsti veðurfræðingurinn sem kemur auga á gerpið sem fær að skíra það eftir ófæddri dóttur hálfsvila síns?

Nei, svo ljómisveipað er það ekki. WMO notast við fyrirfram ákveðna lista. Fyrir hvert ár er tekið frá 21 nafn – eitt fyrir hvern bókstaf í latneska stafrófinu, að undanskildum stöfunum Q, U (óheppinn, Unnar), X, Y og Z . T.d. var löngu á ákveðið að fellibyljir ársins 2003 myndu heita (listi fyrir Atlantshafið):

Ana, Bill, Claudette, Danny, Erika, Fabian, Grace, Henri, Isabel, Juan, Kate, Larry, Mindy, Nicholas, Odette, Peter, Rose, Sam, Teresa, Victor og Wanda.

Eins og sést eru nöfnin karlkyns og kvenkyns til skiptis. Áralistarnir í heild sinni eru síðan endurnýttir á 6 ára fresti þannig að við getum átt von á því að fá bylinn Bill aftur árið 2009. Á þessu er þó ein undantekning. Fellibyljir sem valda miklu mann- eða eignatjóni eru látnir setjast í helgan stein og nöfn þeirra eru ekki notuð aftur. Þannig munum við aldrei aftur fá Bob, Mitch eða Lily, sem var sett á eftirlaun á seinasta ári.

Þegar listinn skoðaður hlýtur maður, sem Íslendingur, að fyllast reiði og undrun yfir því hve fá alíslensk nöfn eru listanum. Hvernig stendur á því að væskilsleg nöfn á borð við Tammy, Tony og Teddy eru tekin fram yfir Thor, þrumuguðinn sjálfan? Eða hvernig datt einhverjum í hug að skíra fellibyl „Fabian“. Fabian er kannski ágætis nafn á tískulöggu en ekki á kröftugan, banvænan og tortímandi fellibyl, tákn alls hins karlmannlega!

Í stað þess að heyja rándýra og tilganslausa baráttu fyrir nokkurra vikna dvöl í Öryggisráði SÞ ætti Ríkisstjórn Íslands að krefjast þess við WMO að fellibylurinn sem kemur í staðinn fyrir Lily árið 2008 verði skírður fögru íslensku kvenmannsnafni.

Af nógu er að taka þegar íslensk kvenmannsnöfn sem byrja á L eru annars vegar. Nafnið Laufey mundi sæma hverjum stormi vel. „Fellibylurinn Laufey gekk yfir NA-fylki Bandaríkjanna í nótt.“ Og hvaða Floridabúi gæti lagt sig til hvílu á kvöldin, vitandi að fellibylurinn Ljótunn væri á leiðinni? Nafnið Laugheiður fær blóðið til að frjósa í æðum þótt eflaust mundu fæstir kanar leggja út í framburð þess. Sniðugast væri auðvitað að kalla bylinn Loftveigu, þótt einnig er óljóst hvort að sá orðabrandari mundi komast til skila yfir tungumálamúrinn.

Ef rétt er þekkt til íslenskra fjölmiðla mundi grannt vera fylgst með ferðum „hins íslenska fellibyljar“ um Atlantshafið og fréttir færðar af því hvernig honum hafi verið tekið hér og þar. Þjóðin mundi fylgjast spennt með framgöngu hans og íslensk stjórnvöld mundu senda samúðarkveðjur og biðjast afsökunar á skemmdum af völdum hans.

Einhver mundi kalla hann andfúlasta Íslending allra tíma og einhverjum öðrum mundi þykja það sniðugt.

Evrukosningar í Svíþjóð

eu-stars.jpgSvíar ganga að kjörborðinu í dag til að kjósa um EMU-aðild. Kosningarnar fara fram í skugga morðsins á Önnu Lindh, utanríkisráðherra og mikils stuðningsmanns evrunnar. Var réttlætanlegt að halda atkvægreiðslunni til streitu þrátt fyrir hinn skelfilega atburð?

Fyrr í vikunni leit út fyrir öruggan sigur andstæðinga Evrunnar en skoðanakannanir seinustu daga benda til að dregið hafi saman með fylkingunum og sumar þeirra gáfu jafnvel til kynna naumt forskot fylgismanna evrunnar. Fari svo að evran verði samþykkt mun það vera sannkallað kraftaverk miðað við stöðuna fyrir viku síðan.

Af þessu ástæðum hafa ýmsir evrópuskeptískari stjórnmálaáhugamenn gagnrýnt þá ákvörðun að fresta ekki kosningunni. Væri ekki rétt að veita þjóðinni svigrúm til að komast yfir sorgina og reiðina og koma í veg fyrir að hún tæki ákvörðun í hita augnablikins?

Sá sem þetta skrifar er á öðru máli. Væri það réttlátt að fórna gríðarlegum fjármunum ríkisins vegna glæps sem einn vitfirringur hefur framið? Mundi það þjóna betur lýðræðinu, sér í lagi þegar útlitið er fyrir meiri kjörsókn í kjölfar atburðanna?

Við megum ekki gleyma því að fyrir nokkrum dögum síðan hafði nei-fylkingin rúmlega 10% forskot. Væri það sanngjarnt að svipta þá þeim góðu sigurmöguleikum sem slíku forskoti fylgja? Hver yrðu viðbrögð andstæðinganna ef sænska stjórnin hefði blásið af kosningar í ljósi yfirvofandi taps og já-ið hefði síðan haft betur þegar kosið yrði t.d. eftir tvo mánuði? Hefðu andstæðingar EMU-aðildar ekki getað haldið fram að þeir hafi verið rændir sigrinum?

Ég hef satt að segja ekki mikla trú á að já-ið hafi sigur.Flestir höfðu þegar tekið sína ákvörðun og þrátt fyrir að reiði fólks geti birtst í skoðanakönnunum mun menn ekki leika sér að atkvæði sínu til að koma á framfæri skoðun sinni á einhverju öðru máli. Fari hins vegar svo að stór hluti fólks skipti um skoðun í kjölfar fáranlegs morðs á tveggja barna móður má spyrja sig: Á hvaða hátt var skoðun þeirra betur ígrunduð fyrir viku síðan en einmitt nú? Var skoðun þeirra í skoðanakönnun fyrir viku síðan það „réttari“ að réttlátt sé að blása af kosningarnar þótt fylgið skipti um stað?

Fólk tekur ákvarðanir sínar á ólíkum forsendum. Sumir eru andvígir Evrunni af efnahagslegum aðstæðum, sumir af þjóðernislegum, einhverjum finnst evran ljót og enn öðrum er almennt illa við breytingar. Eflaust má kalla sumar þessara ástæðna eðlilegar en aðrar ekki, en lýðræðið byggir á því að fólk sé í aðalatriðum skynsamt og við verðum að treysta því fyrir atkvæði sínu.

En það er kosið á fleiri stöðum í dag. Eistar kjósa í dag um hvort þeir vilja að landið gangi í Evrópusambandið. Flestir telja að aðild verði samþykkt þótt á vef Heimssýnar sé vitnað í talsmann hinna virðulegu samtaka Research Center Free Europe sem vonar enn hið gagnstæða. Þeir sem vilja fræðast frekar um samtökin geta gert það á glæsilegum enskumælandi vef samtakanna.

Sannleikurinn um Tsjernobyl

chernobyl.jpgEflaust geta fáir staðir í heiminum státað sig af jafnt gildishlöðnu og táknrænu heiti og Tsjernobyl. En þótt allir kannist við nafnið og söguna sem býr að baki frægð þess, geta fæstir fundið staðinn á landakorti. Margir vita ekki einu sinni í hvaða landi hann er, nema kannski „einhvers staðar í Sovétríkjunum“. Það er því ágætt að byrja þennan pistil á því að rifja upp nokkrar staðreyndir.

Tsjernobyl kjarnorkuverið er í Norður-Úkraínu, skammt frá landamærum við Hvíta-Rússland. Það er eitt margra kjarnorkuvera í fyrrverandi lýðveldum Sovétríkjanna. Þann 26. apríl 1986 varð sprenging í kjarnofni nr 4. sem olli því að geislavirk efni láku út í andrúmsloftið með tilheyrandi umhversisspjöllum, fólksflutingum og veseni.

Andstæðingar kjarnorku eru duglegir að benda á Tsjernobyl-slysið máli sínu til stuðnings. Ekki er því að neita að það dæmi er sterkt og þótt sagt sé að öryggisbúnaður í kjarnorkuverum á Vesturlöndum sé þannig úr garði gerður að sambærileg slys gætu ekki átt sér stað má réttilega benda á að sovéskir verkfræðingar hafi á sínum tíma auðvitað haldið svipuðu fram.

Því benda andstæðingar kjarnorku á að sama hverjar líkur á slysum séu, þegar þau eiga sér stað hafa þau í för með sér óafturkræf spjöll á náttúru og heilsu manna. Þess vegna er ekki réttlátt að kjarnorku til að framleiða rafmagn – við erum að fórna meiri hagsmunum fyrir minni.

Staðhæfingin um að geislunin af völdum Tsjernobyl-slyssins hafi haft í för með sér stórkostlega aukningu í tíðni krabbameins á svæðinu, með tilheyrandi þúsundum mannsláta, er af flestum álitin algildur sannleikur. Því eru til mörg hjálparsamtök sem aðstoða fólk við að rétta íbúum svæðisins hjálparhönd – t.d. með því að senda jólagjafir o.s.frv.

Í þessu ljósi er vert að skoða nokkrar skýrslur sem gerðar hafa verið um áhrif slyssins á heilsu almennings á svæðinu. Hér verður stuðst við skýrslur frá NAE, kjarnorkustofnunar OECD og UNSCEAR sem er nefnd á vegum SÞ sem rannsakar áhrif kjarnageislunar.

Með beinum hætti má til slyssins rekja dauða 31 einstaklings, starfsmanna versins sem létust í sprengingunni og slökkviliðsmanna sem unnu við að slökkva eldinn og létust af völdum ofgeislunnar.

Þá hefur tíðni krabbameins í blöðruhálskirtli meðal barna aukist á svæðinu og verður sú aukning ekki skýrð með öðru en áhrifum geislunnar. Þar er einkum átt við börn sem voru á aldrinum 0-5 ára á þeim tíma sem slysið varð.

Hins vegar hafa ekki fundist neinar vísindalegar sannanir fyrir almennri aukningu á tíðni annarra tegunda krabbameins eða annarra sjúkdóma af völdum geislunar. Í skýrslu NEA segir:

„[…] the scientific and medical observation of the affected population has not to date revealed any significant increase in other cancers, leukaemia, congenital abnormalities, adverse pregnancy outcomes or any other radiation induced disease that could be attributed to the Chernobyl accident.“

Oft er varpað fram gröfum þar sem sýnd er auking aukning ýmissa sjúdóma eftir slysið. Í því þessu samhengi gleymist oft að taka með í reikninginn almennt versnandi heilsufar í fyrrv. Sovétríkjunum. Þannig er tíðni hvítblæðis á mengaða svæðinu sú sama og annars staðar í landinu og hún var reyndar byrjuð að aukast fyrir slysið.

Stærsti hluti heilsuvandans á Tsjernobyl svæðinu á sér félagslegar skýringar. Sjálfsmorðstíðni hefur aukist. Konur vildu lengi ekki eignast börn af ótta við að ala af sér skrímsli. Margir sjúkdómar á svæðinu eru dæmigerðir streitusjúkdómar sem stafa af því að fólk þurfti að flytja milli staða og lifa í sífelldum ótta við e-ð sem það þekkti ekki.

Tsjernobyl-slysið hefur kostað íbúa Úkraínu og Hvíta-Rússlands miklar þjáningar. Hins vegar voru heilsufarslegar afleiðingar slyssins ekki jafn geigvanlegar og sumir vilja af láta. Stærsti vandinn felst líklegast í röskunininni sem slysið hafði á líf fólks, frekar en geisluninni sjálfri. En í dag þiggja mörg hundruð þúsund manns bætur fyrir að hafa búið á menguðu svæði, sem eykur vitanlega en á þjóðfélagslegan og efnahagslegan vanda svæðisins.