Hámörkum hamingjuna!

skokk“Peningar eru ekki allt! Mér finnst ekki mikilvægt að verða ríkur!” Hve oft þarf maður ekki að heyra þessar eða svipaðar setningar á lífsleiðinni? Hve oft rekst maður ekki á fólk sem minnir mann á að “það skiptir nú ekki öllu máli hve mikið maður hefur milli handanna, aðalmálið að maður sé hamingjusamur” og að “maður eigi bara að gera það sem manni finnst skemmtilegast”?

Heimurinn er stútfullur af svona litlum Díogenesum sem virðast tilbúnir að segja efnishyggjunni stríð á hendur og flytja inn í tunnu. Aðalmálið er, jú, að maður sé hamingjusamur. “Peningar eru ekki allt!” er hrópað og miðstéttin á Vesturlöndum bergmálar með.

Miðstéttin á Vesturlöndum hefur tekið fáhyggjuna í sátt. Hún hentar því vel í kaffihléum og matarboðum. Það er samræðulega hlutlaust að halda því fram að ríkidæmi sé aukaatriði. Efnishyggjan, aftur á móti, þykir ekki jafnfögur eða sjálfsögð þótt mun fleiri hagi lífi sínu eftir hennar lögmálum. Ef einhver héldi því fram á kennarafundi að æðsta takmark hans í lífinu væri að verða ríkari en meðalmanneskja þætti öðrum sú hugsjón eflaust ekki sveipuð miklum ljóma. Öðru máli mundi gegna um einhvern sem ætlaði að taka sér árs frí frá vinnu til að ferðast einn um heiminn og taka myndir af ruslutunnum. Að láta draumana rætast. Að bjóða efnishyggjunni byrginn. Það finnst okkur flott.

Af viðmóti fólks til fáhyggjunnar mætti halda að hér væri eitthvað álíka sjálfsagt og að vera á móti mannáti og barnaníðslu. Sem er fyndið því Díógenes boðaði einmitt hvort tveggja við takmarkaða hrifningu þeirra Aþeninga. En fáhyggjan er auðvitað ekki sjálfsögð enda fáir sem tileinka sér hana í verki, þótt í orði sé vinsæl og göfugt þykir að halda henni fram.

En þótt inntak setningarinnar “Peningar eru ekki allt” sé leiðinlega marxsískt og költað, er hún sjálf augljóslega sönn. Jafnvel ríkustu menn í heimi, menn sem virðast stjórnast af peningagræðginni einni hvata, selja ekki hiklaust allar eignir sínar til að auka lausaféð. Hlutirnir sem þeir eiga virðast þrátt fyrir allt hafa meira gildi en því sem nemur markaðsvirði þeirra. Ríkt fólk virðist þar að auki oft vera haldið ýmsum fáranlegum söfnunaráráttum. Þótt í slíkri söfnun felist oft ákveðin fjárfesting skilar hún sér sjaldan til baka. Enda kannski ekki hugmyndin.

Stundum hefur mér fundist að fólk sem haldi því fram að “peningar skipti það engu máli” sé einfaldlega að segja að það hafi nóg af þeim og þurfi ekki meira. Enda væri það fáranlegt að halda því fram við rúmenskan móðurleysingja að peningar séu ekki allt, hann eigi bara að “láta drauma sína rætast”. Þegar allt kemur til alls eru peningar nefnilega lykill að ótal mismunandi hamingjum. Brauðsneið með osti, ferðalag til fjarlægs lands og fornbílasafn; allt þetta þarfnast peninga. Vissulega er ekki hægt að setja samansemmerki á milli peninga og hamingju en það er ekki vegna algers samhengisleysis þar á milli heldur vegna þess að menn hafa misháan auðæfaþröskuld. Sumir þurfa að eiga matvörukeðju, öðrum nægir hlýtt rúm til að sofa í. Þegar þröskuldinum er náð geta menn svo byrjað að bulla.

Það er síðan ekkert því til fyrirstöðu að beitt sé stærðfræðilegum aðferðum við hámörkun hamingju hvers og eins. Til að byrja með þarf að skilgreina hamingjueiningu. Peningar eru eins og áður sagði ekki góð eining enda verða menn misglaðir við að finna hundraðkall. Best væri að hafa einhverja hlutlausa einingu, segjum til dæmis að 1 Proppé sé sú hamingja sem vetnisfrumeind öðlast við að fylla upp í rafeindahvolf sitt. Við getum nú fundið til hve mikla hamingju ákveðin athöfn veitir okkur á tímaeiningu. Segjum til dæmis að kynlíf veiti okkur 100 kiloProppé/klst með en þó ekki meira en í 45 mín á dag, eftir það verður ánægjan 70 kiloProppé/klst. Nú má setja fram líkiningu með öllum hugsanlegum athöfnum og Proppé-stuðlum þeirra og beita síðan aðferðum úr ólínulegri bestun til að finna þá skiptingu á deginum sem hámarkar ánægjufallið.

Því miður eru þau líkön sem lýst var hér að ofan en mjög ófullkomin og töluvert vantar upp á til að tölvur geti ráðið við allan þann fjölda af athöfnum sem okkur standa til boða á degi hverjum. Þangað til að úr þessu rætist verður hvert og eitt okkar að reiða sig á eðlisávísunina í leit sinni að hamingju. Sjálfur ætla ég að fá mér nokkra bjóra í kvöld og spjalla um stjórnmál í góðra vina hópi. Ef vel úr rætist verð ég nokkrum kiloProppéum ríkari að kvöldi loknu.

Leave a Reply

Your email address will not be published.