Þetta fólk

Lítill krúttlegur hvalur sem engum vill illt!Fréttamaður: „Og þjáðist hrefnan nokkuð þegar skotið lenti á henni?“

Skipstjóri: „Nei, nei hún dó alveg um leið! Þetta tók enga stund.“

Fréttamaður: „En flúðu hinar hrefnurnar þá af svæðinu?“

Skipstjóri: „Nei, alls ekki! Það kom nú ein hérna bara meðfram skipinu rétt eftir þetta.“

Við Íslendingar höfum fengið vænan skerf af þjóðernislegum fréttaflutningi í kringum nýjasta stríðið okkar og líkt og í öðrum stríðum er óvinurinn sjaldnast vingjarnlegur lýðurinn heldur einstaka vondir öfgamenn. Á sama hátt og Bandaríkjaher er ekki að berjast við almenna Íraka heldur við „eftirlifandi liðsmenn Baas-flokksins“ þá eru óvinir Íslands ekki almenningur beggja vegna Atlantshafsins heldur umhverfisöfgamenn sem vilja landinu illt og stórgræða þar að auki á starfsemi sinni.

Þetta er því miður mikil einföldun. Þrátt fyrir að fæstir Evrópubúar mundu leggja land undir fót til að sökkva hvalveiðiskipum þá er almenningsálitið þar jafnandstætt hvalveiðum og t.d. hundaáti. Ástæðan fyrir því hve öflug mörg dýraverndunnarsamtök eru er að mjög margt fólk er sammála því sem þau hafa fram færa. Þess vegna er það tilbúið að styrkja þau og leggja þeim lið.

Uppruni dýraverndunnarstefnu á sér auðvitað sjálfsagðar og eðlilegar skýringar. Við viljum ekki að börn okkar gangi um götur brjótandi trjágreinar og hendandi grjóti í ketti. Við viljum ekki að þau bíti höfuð af hænum og flái hvolpa lifandi.

Ætli það sé ekki eitthvað inni í okkur sem lætur okkur hafa tilfinningar í garð annarra lífvera, sérstaklega þegar um er að ræða afkvæmi annarra spendýra. Við lítum svo á að ef einhver getur ekki komið fram af virðingu við önnur dýr þá geti hann heldur ekki sýnt samborgurum sýnum þá kurteisi sem þeir eigi skilið. Þar að auki eru dýr og plöntur oft eign einhvers annars, eign sem viðkomandi ann og liggur miklar tilfinningar í. Það þykir því sjálfsagt að slíkri eign sé sýnd virðing og hún ekki skemmd eða drepin.

Til að ná athygli barnanna eru því búnar til ýmsar sögur. Þeim er sagt að trén finni til þegar greinar þeirra eru brotnar og laufblöðin rifin af. Dýr eru gædd persónueinkennum, þau eru sögð glöð, döpur, einmana eða gáfuð. Allt þetta er hluti af siðferðislegu uppeldi barnanna.

Að þessu leyti er umhverfisvernd svipuð kristni eða öðrum trúarbrögðum. Byggt er á fallegum sögum sem eiga að höfða til siðferðiskenndar fólks. Þeir sem ná inntaki sagnanna og lifa eftir honum verða oft góðir einstaklingar. Þeir sem einblína um of á sögurnar sjálfar og einstök smáatriði hallast oft í átt til öfgatrúar.

Þrátt fyrir að rök hvalfriðunarsinna eru oft á tíðum barnaleg verður ekki sagt að inntak þeirra sé „mannfjandsamlegt“ eða á einhvern hátt andstætt góðu siðferði. Því væri heppilegt að leyfa þeim að koma skoðunum sínum á framfæri án þess að að þeim sé hæðst. Það er gott mál að vera þessu fólki ósammála, en einfeldnislegar umræður hafa sjaldnast skilað miklu í lýðræðislegum þjóðfélögum. Sér í lagi ef þær eru háðar á þjóðernislegum nótum.

Hljómsveit Íslands

sinfóÞað reynist mörgum þrautin léttari að tæta í sig tilverurétt Sinfóníuhljómsveitar Íslands með hefðbundnum frjálshyggjurökum. Allar hefðbundnu frumsetningarnar um óhagkvæmni ríkisreksturs falla fullkomlega að líkaninu og ekki skemmir fyrir að Hljómsveitin er dýr í rekstri og stór hluti fólks annaðhvort skilur ekki tónlistina sem hún flytur eða finnst hún leiðinleg.

Það er því vinsæl og tíð iðja á hægri vængnum að minna ítrekað á hve mikla fjármuni rekstur sveitarinnar kostar og komast síðan að þeirri niðurstöðu að þeir peningar séu betur geymdir í vasa skattgreiðenda heldur en í vösum starfsmanna Sinfóníunnar.

Ekki er neitt út á þá röksemdarfærslu að setja. Enda hárrétt að miðar á tónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar ná aðeins yfir brot af kostnaðinum við rekstur hennar. Þar að auki fæst ekki vel séð að starfsemin sé þjóðfélaginu svo lífsnauðsynleg að hið opinbera þurfi að grípa í taumana með stórkostlegum fjárútlátum. Það er því eðlilegt að menn með hærri réttlætiskennd á notkun skattpeninga geri kröfur um að stuðningi ríkisins við Hljómsveitina verði hætt.

Menn verða hins vegar stundum að líta aðeins í kringum sig. Sjálfur er ég til dæmis að læra stærðfræði í ríkisreknum háskóla. Mig mundi eflaust í framtíðinni langa til að vinna við stærðfræði, hugsanlega einmitt líka í ríkisreknum háskóla. Það er mér hvatning að vita af þessum atvinnumöguleika. Á sama hátt veit ég að marga unga tónlistarmenn dreymir um að geta dag einn spilað með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Það er þeirra hvatning, þeirra framtíðarmöguleiki. Auðvitað gerir þetta heimtufrekju mína, eða þeirra ekki minni, en fólk ætti stundum að líta sér nær áður en það gagnrýnir stuðning við annarra manna ástríður.

Hins vegar verður ekki litið framhjá því að viðvarandi hallarekstur Sinfóníuhljómsveitarinnar er algjörlega óþolandi. Sinfónían þarf að gera það sem fyrirtæki í fjárhagsvandræðum mundi gera. Hún þarf að hækka miðaverð og stórauka tekjur sínar. Hún þarf að lækka laun tónlistarmanna og taka mið af því að margir þeirra afla sér tekna með öðrum hætti. Hún þarf að leita í auknum mæli eftir stuðningi einkaaðila. Hún þarf hætta að halda ókeypis tónleika fyrir grunnskólabörn, bara út af því að það er svo gaman.

Ef tilfinning mín fyrir þjóðfélaginu er rétt er tónlist mun algengari gleðiuppspretta meðal fólks en stærðfræði. Ég tel mig því ekki vera í aðstöðu til að krefjast þess að stuðningi við Sinfóníuhljómsveit Íslands verði hætt tafarlaust. Miðað við allt sem ríkið er að gera er það kannski ekki fáranlegt að ríkið styðji Sinfóníuhljómsveit. Ég geri hins vegar þá kröfu um að sveitin skaffi stærstan hluta tekna sína sjálf en sé ekki rekin með halla ár eftir ár og láti skattgreiðendur um að borga mismuninn.

Einnig er tímabært að forsvarsmenn og velunnarar sveitarinnar sýni skattborgurum smá þakklæti og viðurkenni að það sé ekkert sjálfsagt að ríkið reki Sinfóníuhljómsveit. Það getur kannski verið gaman, en það er ekki sjálfsagt.

Hámörkum hamingjuna!

skokk„Peningar eru ekki allt! Mér finnst ekki mikilvægt að verða ríkur!“ Hve oft þarf maður ekki að heyra þessar eða svipaðar setningar á lífsleiðinni? Hve oft rekst maður ekki á fólk sem minnir mann á að „það skiptir nú ekki öllu máli hve mikið maður hefur milli handanna, aðalmálið að maður sé hamingjusamur“ og að „maður eigi bara að gera það sem manni finnst skemmtilegast“?

Heimurinn er stútfullur af svona litlum Díogenesum sem virðast tilbúnir að segja efnishyggjunni stríð á hendur og flytja inn í tunnu. Aðalmálið er, jú, að maður sé hamingjusamur. „Peningar eru ekki allt!“ er hrópað og miðstéttin á Vesturlöndum bergmálar með.

Miðstéttin á Vesturlöndum hefur tekið fáhyggjuna í sátt. Hún hentar því vel í kaffihléum og matarboðum. Það er samræðulega hlutlaust að halda því fram að ríkidæmi sé aukaatriði. Efnishyggjan, aftur á móti, þykir ekki jafnfögur eða sjálfsögð þótt mun fleiri hagi lífi sínu eftir hennar lögmálum. Ef einhver héldi því fram á kennarafundi að æðsta takmark hans í lífinu væri að verða ríkari en meðalmanneskja þætti öðrum sú hugsjón eflaust ekki sveipuð miklum ljóma. Öðru máli mundi gegna um einhvern sem ætlaði að taka sér árs frí frá vinnu til að ferðast einn um heiminn og taka myndir af ruslutunnum. Að láta draumana rætast. Að bjóða efnishyggjunni byrginn. Það finnst okkur flott.

Af viðmóti fólks til fáhyggjunnar mætti halda að hér væri eitthvað álíka sjálfsagt og að vera á móti mannáti og barnaníðslu. Sem er fyndið því Díógenes boðaði einmitt hvort tveggja við takmarkaða hrifningu þeirra Aþeninga. En fáhyggjan er auðvitað ekki sjálfsögð enda fáir sem tileinka sér hana í verki, þótt í orði sé vinsæl og göfugt þykir að halda henni fram.

En þótt inntak setningarinnar „Peningar eru ekki allt“ sé leiðinlega marxsískt og költað, er hún sjálf augljóslega sönn. Jafnvel ríkustu menn í heimi, menn sem virðast stjórnast af peningagræðginni einni hvata, selja ekki hiklaust allar eignir sínar til að auka lausaféð. Hlutirnir sem þeir eiga virðast þrátt fyrir allt hafa meira gildi en því sem nemur markaðsvirði þeirra. Ríkt fólk virðist þar að auki oft vera haldið ýmsum fáranlegum söfnunaráráttum. Þótt í slíkri söfnun felist oft ákveðin fjárfesting skilar hún sér sjaldan til baka. Enda kannski ekki hugmyndin.

Stundum hefur mér fundist að fólk sem haldi því fram að „peningar skipti það engu máli“ sé einfaldlega að segja að það hafi nóg af þeim og þurfi ekki meira. Enda væri það fáranlegt að halda því fram við rúmenskan móðurleysingja að peningar séu ekki allt, hann eigi bara að „láta drauma sína rætast“. Þegar allt kemur til alls eru peningar nefnilega lykill að ótal mismunandi hamingjum. Brauðsneið með osti, ferðalag til fjarlægs lands og fornbílasafn; allt þetta þarfnast peninga. Vissulega er ekki hægt að setja samansemmerki á milli peninga og hamingju en það er ekki vegna algers samhengisleysis þar á milli heldur vegna þess að menn hafa misháan auðæfaþröskuld. Sumir þurfa að eiga matvörukeðju, öðrum nægir hlýtt rúm til að sofa í. Þegar þröskuldinum er náð geta menn svo byrjað að bulla.

Það er síðan ekkert því til fyrirstöðu að beitt sé stærðfræðilegum aðferðum við hámörkun hamingju hvers og eins. Til að byrja með þarf að skilgreina hamingjueiningu. Peningar eru eins og áður sagði ekki góð eining enda verða menn misglaðir við að finna hundraðkall. Best væri að hafa einhverja hlutlausa einingu, segjum til dæmis að 1 Proppé sé sú hamingja sem vetnisfrumeind öðlast við að fylla upp í rafeindahvolf sitt. Við getum nú fundið til hve mikla hamingju ákveðin athöfn veitir okkur á tímaeiningu. Segjum til dæmis að kynlíf veiti okkur 100 kiloProppé/klst með en þó ekki meira en í 45 mín á dag, eftir það verður ánægjan 70 kiloProppé/klst. Nú má setja fram líkiningu með öllum hugsanlegum athöfnum og Proppé-stuðlum þeirra og beita síðan aðferðum úr ólínulegri bestun til að finna þá skiptingu á deginum sem hámarkar ánægjufallið.

Því miður eru þau líkön sem lýst var hér að ofan en mjög ófullkomin og töluvert vantar upp á til að tölvur geti ráðið við allan þann fjölda af athöfnum sem okkur standa til boða á degi hverjum. Þangað til að úr þessu rætist verður hvert og eitt okkar að reiða sig á eðlisávísunina í leit sinni að hamingju. Sjálfur ætla ég að fá mér nokkra bjóra í kvöld og spjalla um stjórnmál í góðra vina hópi. Ef vel úr rætist verð ég nokkrum kiloProppéum ríkari að kvöldi loknu.

Á hlaupum

skokkNú eru einungis tvær vikur í Reykjavíkurmaraþonið. Þó að hlaupið sé ekki stór viðburður á heimsvísu hefur það engu að síður markað sér sterka stöðu í dagatali Reykjavíkurborgar, sérstaklega nú seinustu árin þegar ákveðið var að tengja það við menningarnóttina. Höfundur ætlar að spara sér háfleygar yfirlýsingar um tengsl hins andlega við hið líkamlega en það er alveg örugglega skemmtileg lífsreynsla fyrir fólk sem hefur komið hingað frá útlöndum til að þreyta maraþonhlaup á norðlægum slóðum að mæta síðan fjölbreyttri menningardagskrá um kvöldið. Hugsanlega geta þá einhverjir ekki-hlaupandi fjölskyldumeðlimir fundið eitthvað sér til dundurs um helgina.

Það er orðið að einhverju óformlegu viðmiði að borg verði að hafa glæsilegt maraþonhlaup til að geta talist heimsborg. Það er engin tilviljun að New York-maraþonið er eitt vinsælasta maraþon í heimi en árlega taka 40.000 manns þátt í því hlaupi og, takið eftir, komast færri að en vilja. Til að gera sér grein fyrir hvílíkur fjöldi það er og hvers vegna fleirum sé ekki hleypt að, má til dæmis benda á að ef allir keppendurnir væru látnir haldast í hendur myndi sú halaröð auðveldlega ná frá rásmarkinu að endamarkinu, eða þá 42 km. sem hlaupið er.

Nafnið maraþonshlaup á rætur sínar að rekja til ársins 490 f.k. Grískur hermaður, Feidippídes (stafsetning á ábyrgð höfundar og líklegast röng), hljóp þá tæpa 40 km. frá bænum Maraþon til Aþenu til að bera fréttirnar af sigri Grikkja á Persum. Sagan segir að hann hafi hrópað „Niki!“ (sigur) áður en hann hné niður og dó.

Við endurreisn Ólympíuleikanna í Aþenu árið 1896 var nýju lífi blásið í goðsögnina og keppendur látnir hlaupa 40 km leið milli bæjanna. Bandarísku þátttakendunum í leikunum fannst hugmyndin að slíku langhlaupi svo skemmtileg að strax á leiðinni heim fóru þeir að leggja á ráðin um sambærilegt hlaup í Bandaríkjunum. Þannig hófst saga Boston-Maraþonsins, elsta skipulagða borgarmaraþonsins. Vegalengdin flökti svo smávegis næstu árin uns hún var negld niður niður í 42,195 km (26 mílur, 385 stikur) á Ólympíuleikunum í London 1908. Sagan segir að aukametrarnir (eða stikurnar, sögum ber ekki saman) hafi bæst við því skipuleggjendur vildu að hlaupinu lyki á torginu fyrir framan Buckingamhöll, svo konungsfjölskyldan gæti fylgst með endasprettinum.

Fæstir þeirra sem hlaupa eftir tvær vikur munu reyna við heilt maraþon. Í fámennari hlaupum, eins og Reykjavíkurmaraþon óneitanlega er, reyna aðstandendur að auka þátttökuna með því að bjóða upp á aðgengilegri vegalengdir. Í Reykjavíkurmaraþoni er þannig hægt að hlaupa heilt maraþon, hálfmaraþon og 10 km, auk 7 og 3 km skemmtiskokks. Maraþon krefst töluverðs undirbúnings, hálfmaraþon einnig en flestir menn í góðri þjálfun ættu að geta hlaupið 10 km án mikils undirbúnings. Þá eru 3 km skemmtileg vegalengd fyrir fólk sem leggur ekki almennt stund á hlaup en vill skokka eða ganga smá spöl í góðu veðri.

Undirritaður skorar á fólk til að velja sér vegalengd við sitt hæfi og taka þátt í að skapa skemmtilegan viðburð. Vonandi þó að enginn þurfi að deila örlögum áðurnefnds Feidippídesar því þótt nafn hans sé nú sveipað dýrðarljóma fékk hann lítið að njóta frægðarinnar, látinn um aldur fram. Það má einnig segja að sá sé nú ekki mikill íþróttamaður sem deyr þegar þrautin er á enda. Við megum þó ekki gleyma því þegar við hlaupum eftir Lækjargötunni að Feidippídes var flytja hernaðarlega mikilvægar upplýsingar og eflaust þess vegna sem hann flýtti sér svona mikið. Við nútímahlauparar flýtum okkur aðeins vegna þess að okkur langar til þess. Markmiðið er heldur ekki sigur í orrustu. Okkur langar að ljúka áfanga sem fær aðra til að spurja: „Af hverju?“ Ekki skemmir fyrir ef áfanginn er jafn kjánalegur og raun ber vitni. Að hafa hlaupið í hring.