Sovétríkin og ESB

Nýlega birtist á vef Heimssýnar grein eftir Hjört J. Guðmundsson, formann Flokks framfarasinna. Greinin fjallaði um nýja stjórnarskrá Evrópusambandsins og birtist í hliðardálk sem kallast “Viðhorf” og er væntanlega hugsaður fyrir skoðanir og viðhorf lesenda vefsins. Hingað til hefur dálkurinn hins vegar aðallega haft það hlutverk að vera grundvöllur fyrir skoðanir og viðhorf Hjartar J. Guðmundssonar, formanns Flokks framfarasinna.

Hjörtur er, sem vænta mátti, ekki alls kostar sáttur við hina nýju stjórnarskrá. Hann telur að hún muni auka enn á lýðræðishalla innan sambandsins og marka endalok hinna evrópsku þjóðríkja. Loks segir hann:

[…]Uppkastið að stjórnarskrá Evrópusambandsríksins er ennfremur miðstýrðara en stjórnarskrá Bandaríkjanna og það stjórnarfyrirkomulag, sem kveðið er á um í því, svipar í mörgu til fyrirkomulagsins sem gilti í Sovétríkjunum sálugu að mati ýmissa stjórnmálaskýrenda.[…]

Þar höfum við það! En hver er tilgangurinn með þessari tilvísun í stjórnarskrá Sovétríkjanna? Segir það einhverjum manni nokkurn skapaðan hluta að hin og þessi stjórnarskrá sé svipuð stjórnarskrá Sovétríkjanna? Varla er sovéska stjórnarskráin, eins og Biblían eða bækur Halldórs Laxness, órjúfanlegur hluti af íslenskri menningararfleifð sem vísa má til án frekar skýringa. Nei, tilgangurinn er auðvitað ekki að varpa ljósi á eitt né neitt. Tilgangurinn slíkum tilvísunum er að fá fólk til að hugsa: “Sovétríkin, vond – ESB, vont.”

En hvernig er hin sovéska stjórnarskrá? Er það móðgun við Evrópusambandið að líkja stjórnarskránni þeirra við þá sovésku? Eða er það kannski móðgun við minningu Sovétríkjanna að að líkja höfuðlögum þeirra við hið “miðstýrða og andlýðræðislega plagg” sem nú er til umræðu í Brussel?

Til að byrja með skal taka fram að Sovétríkin skiptu oft um stjórnarskrá, sú seinasta tók gildi 1977 og við hana verður stuðst við í þessari umfjöllun.

Sovéska stjórnarskráin hefst á löngum formála þar sem farið er yfir tilurð og sögu lands og verk stofnfeðra þess lofuð. Því næst er hefst hin eiginlega stjórnarskrá á skilgreiningu ríkisins sem sósíalísks ríkis með sameiginlega hagsmuni bænda, verkafólks og menntafólks í fyrirrúmi. Næst er kveðið á um, líkt og í flestum stjórnarskrám, að allt vald komi frá fólkinu en að fólkið láti fulltrúa fara með vald sitt. Sovéska þingið, Æðstaráðið, skal vera æðsta stofnun ríkisins.

Fyrsta tilbrigðið við það sem við flest þekkjum kemur í 3. grein:

3. gr.

Sovétríkin eru skipulögð og starfa á grundvelli lýðræðislegrar miðstýringar.[…]

Þetta er hið kommúníska andsvar við þrískiptingu ríkisvaldsins. Í stað þess að þrískipta valdinu er mynduð eins konar valdahringrás þar æðri stofnanir ríkisins eiga að skipa og stýra þeim sem fyrir neðan eru en lægri stofnanirnar eiga svo að veita aðhald upp á við. Neðst eru svo stofnanir sem þjóna fólkinu og njóta aðhalds frá borgurunum í formi kvartana eða vinsamlegra tilmæla. Fólkið kýs svo fulltrúa sína á þing og þannig lokast hringurinn.

Ýmislegt annað forvitnilegt er að finna í stjórnarskránni s.s. ítarlegan réttindakafla en hér gefst ekki tími til að fjalla um hann. Þó skal þess getið að ekki er fjallað um rétt til einkaeignar (útlenska: prívat) heldur talað um persónulega eign en fyrra hugtakið þótti of kapítalískt.

Sovétríkin voru samband alþýðulýðvelda sem hvert um sig hafði sína eigin stjórn og stjórnarskrá. Gert var ráð fyrir að lýðveldin gætu sagt sig úr sambandinu, svipað og er gert í nýju ESB stjórnarskránni, en ekki skýrt nánar hvernig slík úrsögn ætti að fara fram.

Æðstaráð Sovétríkjanna var æðsta stofnun ríkisins. Fulltrúar þess áttu að vera kosnir í beinum, leynilegum kosningum. Kjörtímabilið var 5 ár, líkt og verður á Evrópuþinginu (aftur augljós sovésk áhrif!). Æðstaráðið skiptist í tvær deildir. Það kom saman tvisvar sinnum ár hvert. Fulltrúar áttu að halda sínum fyrri störfum og þiggja sín venjulegu laun þann tíma sem þeim gegndu þingstörfum.

Æðstaráðið skipaði síðan ríkisstjórn, s.k. ráðherraráð sem annaðist daglega stjórn ríkisins o.s.frv. Eflaust væri það skemmtilegt að sökkva sér dýpra inn í stjórnarskrána en það er því miður til einskis. Hin raunverulega stjórnskipan Sovétríkjanna var nefnilega allt önnur en sú sem stjórnarskráin lýsir. Það var valdaskipan kommúnistaflokksins með einráðan aðalritarann fremstan í flokki.

Ég get ekki ímyndað að einhver hinna “ýmsu stjórnmálaskýrenda” sé tilbúinn að verja af alvöru þá skoðun sína að stjórnkerfi ESB og Sovétríkjanna verði um margt svipað með tilkomu nýju stjórnarskrárinnar. Þær hliðstæður sem finna má, eins og lengd kjörtímabils, þingbindingu stjórnar og réttur til að ganga úr bandalaginu, eru ekki meiri en gengur og gerist með hvaða tvær stjórnarskrár sem er. Að auki var hinni sovésku aldrei fylgt af neinu viti svo erfitt er að meta gæði þess stjórnkerfis sem þar er lýst.

Haldi menn því hins vegar fram að stjórnkerfi ESB líkist hinu raunverulega sovéska stjórnkerfi, þ.e.a.s. flokksbundinni alræðisstjórn undir forystu vitfirrings, þá sé ég bara tvær skýringar á slíkum málflutningi. Annað hvort hafa viðkomandi aðilar náð nýjum og áður óþekktum víddum í smíði samsæriskenninga eða að þeir halda þessu fram einungis til að fara í taugarnar á Evrópusinnum sem þurfa að svara þessari vitleysu.

Sé síðari skýringin rétt skal viðurkenna að þeim tekst oft vel til.

Leave a Reply

Your email address will not be published.