Að moka skít fyrir ekki neitt

Sú var tíðin á fyrri hluta seinustu aldar að rætt var um að koma á þegnskylduvinnu á Íslandi. Til allrar hamingju varð ekkert úr þeim hugmyndum og í dag mundi engri alvöru stjórnmálahreyfingu detta í hug að hafa málið á stefnuskrá. En þó að hugmyndin sé sem betur fer gleymd og grafin þá færðu umræður þess tíma okkur Íslendingum einn gimstein sem án efa er einhver frægasti pólitíski kveðskapur Íslandssögunnar.

Ó, hve margur yrði sæll

og elska mundi landið heitt,

mætti hann vera í mánuð þræll

og moka skít fyrir ekki neitt.

Þessi glæsilega vísa eftir Pál J. Árdal hittir naglann á höfuðið. Að láta fólk nauðugt fórna tíma sínum í þágu ríkisins er síst til þess að efla þjóðrækni þess og trú á kerfinu. Það fer vel á því að rifja þetta upp nú þegar umræða um íslenskan her er háð af alvöru, jafnvel fullmikilli alvöru miðað við að 1. apríl 2003 er liðinn, og langt er í næsta.

Nýlega birtist hér á Deiglunni pistill um hugmyndir dómsmálaráðherra um íslenskt herlið. Skömmu síðar birti Deiglan athugasemd við pistilinn sem lesa má hér. Þó að svo virðist sem blaðamaður AP hafi notað gamla ræðu Björns Bjarnarsonar í frétt sinni, veit undirritaður þó ekki til þess að dómsmálaráðherra hafi skipt um skoðun síðan 1995. Það eina sem hefur breyst er að Björn er nú í mun betri aðstöðu til að framkvæma þessar hugmyndir. Það sem eitt sinn gátu talist saklausar vangaveltur menntamálaráðherra um málefni sem honum liggja á hjarta eru nú skoðanir ráðherra sem ábyrgur er fyrir öryggi borgaranna. Ef að þjálfa ætti upp 21-28 þúsund manna varalið, væri það ekki hægt nema með almennri herskyldu því aldrei fyndist slíkur fjöldi sjálfboðaliða meðal þjóðar sem lýsir yfir neyðarástandi þegar atvinnuleysi nær 4%.

Þau dæmi sem ég þekki frá öðrum löndum, eru skýr. Ungt fólk lítur ekki á herskyldu sem göfuga þjónustu við samfélagið. Það lítur á hana sem hálfvitaskap. Fólk með stúdentspróf er látið hlaupa um í 11 mánuði til að búa sig undir stríð sem, a.m.k. að þeirra mati, mun aldrei koma. Þegar sagt er á frá því að á Íslandi sé engin her og Bandaríkin sjá um varnir landsins finnur maður fyrir öfund fólks sem neyðist til að gera sér upp sjúkdóma eða vinna þegnskyldu á geðveikrahælum fjarri heimilum sínu til að sleppa við herinn. Ekkert bull um heiður eða sæmd.

Það ber að minnast á eitt í viðbót: Líklegast mundi herskylda stangast á við íslensku stjórnarskrána. Í það minnsta hafa nágrannaríki okkar (og raunar flest lönd í heimi) séð ástæðu til að setja ákvæði um skyldu til að gegna herþjónustu inn í sín grunnlög. Það er nefnilega ljóst að án slíks aukaákvæðis mundi herskylda brjóta í bága við heilmargt í mannréttikafla flestra stjórnarskráa, s.s. bann nauðungarvinnu og réttinn til að fylgja sinni sannfæringu. Nú er ekki auðvelt að breyta Stjórnarskránni svo að telja má víst að almennir borgarar geti sofið rólegir yfir hugmyndum sumra öfgafyllri hervæðingarsinna, nema auðvitað að túlkun þeirra á þeim réttindum sem stjórnarskráin veitir sé önnur en undirritaðs.

Oft er bent á þá staðreynd að Íslendingar séu rík þjóð og finnst sumum það skjóta skökku við að þeir geti ekki séð sjálfir um sínar varnir. Einhverjum finnst herleysið eflaust skemma fyrir draumnum um hið fullkomlega fullvalda Ísland, sem í hvívetna er engum háð nema sjálfu sér. En ríkidæmi Íslands væri best varið til að kaupa unga Íslendinga undan þeirri skyldu að vera þjálfaðir til morða á öðru fólki. Slíkt eru forréttindi sem standa ber vörð um.

Slaka á!

Á baksíðu Morgunblaðins í gær (sunnudag) mátti finna athyglisverða frétt um upplýsingavef Vegagerðarinnar. Meðal nýjunga á þeim vef er síða með upplýsingum um hraða og bil milli bifreiða á nokkrum af helstu þjóðvegum landsins. Hana má skoða hér.

Það verður seint sagt að það sem fram kemur á þeirri síðu sé sláandi, því það kemur varla á óvart að stór hluti landsmanna keyri of hratt. Það sem er helst forvitnilegt er hversu mikið er um hraðakstur á leiðinni norður en í Hrútafirði, Öxnadal og Langadal er næstum því helmingur ökumanna á 100 km. hraða, eða meira.

Eflaust finnst flestum ökumönnum það ekki mikill glæpur að stíga svolítið á bensíngjöfina þegar færið er gott og fáir á veginum. „Varla getur það gert mikið skaða að gefa svolítið í þegar maður er einn á veginum í góðu veðri“, hugsa margir. En tölfræðin og eðlisfræðin eru miskunnarlaus gagnvart slíkum hugsunarhætti. Hemlunarvegalengdin vex nokkurn veginn eins og hraðinn í öðru veldi. Þetta þýðir að þegar hraði bílsins tvöfaldast, fjórfaldast hemlunarvegalengin. Bíll sem er á 120 km hraða á klst. hemlar þannig rúmlega tvöfalt lengri leið en bíll á 85 km hraða. Öll ökutækni bílstjórans er til einskis þegar lögmál eðlisfræðinnar vinna gegn honum.

Þó að ég hafi frekar harða skoðun á of hröðum akstri get ég vel ímyndað hvað fólki gengur til. Það er ekki skrýtið að fólk sem þarf að keyra sama spölinn mörgum sinnum á ári, eða viku, auki aðeins hraðann til að spara sér korter. Kannski gerir það þetta jafnvel ómeðvitað. Hægt er að hafa samúð með slíkum tilfinningum þó það minnki ekki ábyrgð þeirra sem keyra of hratt.

Til eru vegir í heiminum henta vel til þess að á þeim sé ekið yfir hundrað. Slíka vegi er hins vegar ekki að finna á Íslandi. Eftir tvöföldun Reykjanesbrautar verður kominn vegur, utan byggða, með bundnu slitlagi og aðskildum umferðastefnum. Það kæmi vel til greina að auka hámarkshraðann á slíkum veg, við bestu aðstæður. Hins vegar er akstur á 120 km hraða á veg þar sem 50 cm aðskilja bíla sem koma úr sitt hvorri áttinni algjör vitfirring. Ekkert ríki í Evrópu leyfir slíkt þótt í flestum þeirra séu bæði betri vegir og hagstæðara veðurfar en á Íslandi.

En það er ekki aðeins viðhorf einstaka bílstjóra sem ofreikna stórlega eigin aksturshæfni sem skapar hraðakstursvandann. Viðhorf almennings til hraðaksturs er einnig vægast sagt afslappað. Ímyndum okkur t.d. að við séum farþegar í bíl þar sem bílstjórinn situr óspenntur í sæti sínu og drekkur bjór. Eflaust mundu flest okkar gera athugasemd við slíka hegðun, sér í lagi ef bílstjórinn væri jafningi okkar. En mundi einhver áminna ökumann sem keyrði á 105 km hraða eftir þjóðveginum í góðu veðri? Mundi einhver biðja hann um að lækka hraðann um 15 km á klukkustund, niður í það sem löglegt er? Ég dreg það í efa. Eflaust væri slíkur farþegi álitinn „kelling“ og ummæli hans dæmd sem dónaleg afskiptasemi.

Að lokum kemur óneitanlega upp í hugann ein spurning: „Væri ekki auðveldara að takmarka hraðann í bílunum sjálfum fremur en að treysta á heiðarleika fólks?“ Eflaust eru ýmsir tæknilegir erfiðleikar við framkvæmd á þeirri hugmynd, s.s. mismunandi hámarkshraði milli landa. Ég vona þó að í framtíðinni muni bílaframleiðendur skoða þennan möguleika, t.d. í samvinnu við tryggingarfélög.

Enn sem komið er þá hafi bílaframleiðendur ekki gert sitt til að vinna gegn of hröðum akstri. Auglýsingar kynna bílana sem „kraftmikla“ og talan 220 mælaborðinu er nú síst til róa taugarnar á misvitrum hraðafíklum. Á sínum tíma voru bílaframleiðendur í Bandaríkjunum afar tregir til að setja belti í bíla sína. Ástæðan var sú að bílarnir áttu að vera tákn hins óhefta frelsis og það þótti slæm markaðsherferð að draga fram hætturnar sem fylgdu umferðinni. Frekar áttu menn að aka um frjálsir og deyja frjálsir.

Ætli 220 km hraðinn á mælaborðinu sé arfur frá þeirri tíð?

Sovétríkin og ESB

Nýlega birtist á vef Heimssýnar grein eftir Hjört J. Guðmundsson, formann Flokks framfarasinna. Greinin fjallaði um nýja stjórnarskrá Evrópusambandsins og birtist í hliðardálk sem kallast „Viðhorf“ og er væntanlega hugsaður fyrir skoðanir og viðhorf lesenda vefsins. Hingað til hefur dálkurinn hins vegar aðallega haft það hlutverk að vera grundvöllur fyrir skoðanir og viðhorf Hjartar J. Guðmundssonar, formanns Flokks framfarasinna.

Hjörtur er, sem vænta mátti, ekki alls kostar sáttur við hina nýju stjórnarskrá. Hann telur að hún muni auka enn á lýðræðishalla innan sambandsins og marka endalok hinna evrópsku þjóðríkja. Loks segir hann:

[…]Uppkastið að stjórnarskrá Evrópusambandsríksins er ennfremur miðstýrðara en stjórnarskrá Bandaríkjanna og það stjórnarfyrirkomulag, sem kveðið er á um í því, svipar í mörgu til fyrirkomulagsins sem gilti í Sovétríkjunum sálugu að mati ýmissa stjórnmálaskýrenda.[…]

Þar höfum við það! En hver er tilgangurinn með þessari tilvísun í stjórnarskrá Sovétríkjanna? Segir það einhverjum manni nokkurn skapaðan hluta að hin og þessi stjórnarskrá sé svipuð stjórnarskrá Sovétríkjanna? Varla er sovéska stjórnarskráin, eins og Biblían eða bækur Halldórs Laxness, órjúfanlegur hluti af íslenskri menningararfleifð sem vísa má til án frekar skýringa. Nei, tilgangurinn er auðvitað ekki að varpa ljósi á eitt né neitt. Tilgangurinn slíkum tilvísunum er að fá fólk til að hugsa: „Sovétríkin, vond – ESB, vont.“

En hvernig er hin sovéska stjórnarskrá? Er það móðgun við Evrópusambandið að líkja stjórnarskránni þeirra við þá sovésku? Eða er það kannski móðgun við minningu Sovétríkjanna að að líkja höfuðlögum þeirra við hið „miðstýrða og andlýðræðislega plagg“ sem nú er til umræðu í Brussel?

Til að byrja með skal taka fram að Sovétríkin skiptu oft um stjórnarskrá, sú seinasta tók gildi 1977 og við hana verður stuðst við í þessari umfjöllun.

Sovéska stjórnarskráin hefst á löngum formála þar sem farið er yfir tilurð og sögu lands og verk stofnfeðra þess lofuð. Því næst er hefst hin eiginlega stjórnarskrá á skilgreiningu ríkisins sem sósíalísks ríkis með sameiginlega hagsmuni bænda, verkafólks og menntafólks í fyrirrúmi. Næst er kveðið á um, líkt og í flestum stjórnarskrám, að allt vald komi frá fólkinu en að fólkið láti fulltrúa fara með vald sitt. Sovéska þingið, Æðstaráðið, skal vera æðsta stofnun ríkisins.

Fyrsta tilbrigðið við það sem við flest þekkjum kemur í 3. grein:

3. gr.

Sovétríkin eru skipulögð og starfa á grundvelli lýðræðislegrar miðstýringar.[…]

Þetta er hið kommúníska andsvar við þrískiptingu ríkisvaldsins. Í stað þess að þrískipta valdinu er mynduð eins konar valdahringrás þar æðri stofnanir ríkisins eiga að skipa og stýra þeim sem fyrir neðan eru en lægri stofnanirnar eiga svo að veita aðhald upp á við. Neðst eru svo stofnanir sem þjóna fólkinu og njóta aðhalds frá borgurunum í formi kvartana eða vinsamlegra tilmæla. Fólkið kýs svo fulltrúa sína á þing og þannig lokast hringurinn.

Ýmislegt annað forvitnilegt er að finna í stjórnarskránni s.s. ítarlegan réttindakafla en hér gefst ekki tími til að fjalla um hann. Þó skal þess getið að ekki er fjallað um rétt til einkaeignar (útlenska: prívat) heldur talað um persónulega eign en fyrra hugtakið þótti of kapítalískt.

Sovétríkin voru samband alþýðulýðvelda sem hvert um sig hafði sína eigin stjórn og stjórnarskrá. Gert var ráð fyrir að lýðveldin gætu sagt sig úr sambandinu, svipað og er gert í nýju ESB stjórnarskránni, en ekki skýrt nánar hvernig slík úrsögn ætti að fara fram.

Æðstaráð Sovétríkjanna var æðsta stofnun ríkisins. Fulltrúar þess áttu að vera kosnir í beinum, leynilegum kosningum. Kjörtímabilið var 5 ár, líkt og verður á Evrópuþinginu (aftur augljós sovésk áhrif!). Æðstaráðið skiptist í tvær deildir. Það kom saman tvisvar sinnum ár hvert. Fulltrúar áttu að halda sínum fyrri störfum og þiggja sín venjulegu laun þann tíma sem þeim gegndu þingstörfum.

Æðstaráðið skipaði síðan ríkisstjórn, s.k. ráðherraráð sem annaðist daglega stjórn ríkisins o.s.frv. Eflaust væri það skemmtilegt að sökkva sér dýpra inn í stjórnarskrána en það er því miður til einskis. Hin raunverulega stjórnskipan Sovétríkjanna var nefnilega allt önnur en sú sem stjórnarskráin lýsir. Það var valdaskipan kommúnistaflokksins með einráðan aðalritarann fremstan í flokki.

Ég get ekki ímyndað að einhver hinna „ýmsu stjórnmálaskýrenda“ sé tilbúinn að verja af alvöru þá skoðun sína að stjórnkerfi ESB og Sovétríkjanna verði um margt svipað með tilkomu nýju stjórnarskrárinnar. Þær hliðstæður sem finna má, eins og lengd kjörtímabils, þingbindingu stjórnar og réttur til að ganga úr bandalaginu, eru ekki meiri en gengur og gerist með hvaða tvær stjórnarskrár sem er. Að auki var hinni sovésku aldrei fylgt af neinu viti svo erfitt er að meta gæði þess stjórnkerfis sem þar er lýst.

Haldi menn því hins vegar fram að stjórnkerfi ESB líkist hinu raunverulega sovéska stjórnkerfi, þ.e.a.s. flokksbundinni alræðisstjórn undir forystu vitfirrings, þá sé ég bara tvær skýringar á slíkum málflutningi. Annað hvort hafa viðkomandi aðilar náð nýjum og áður óþekktum víddum í smíði samsæriskenninga eða að þeir halda þessu fram einungis til að fara í taugarnar á Evrópusinnum sem þurfa að svara þessari vitleysu.

Sé síðari skýringin rétt skal viðurkenna að þeim tekst oft vel til.