Já og aftur já!

Pólverjar kusu um ESB aðild dagana 7.-8. júní. Kjörsókn var 58,85% og voru 77,45% þeirra sem atkvæði greiddu samþykkir inngöngu. Tékkar kusu eftir hádegi 13. júní og fyrir hádegi 14. júní. Kjörsóknin í Tékklandi var 55,21% og voru 77,33% fylgjandi aðild.

Þjóðaratkvæðagreiðslurnar tvær í Póllandi og Tékklandi voru fyrirfram álitnar þær erfiðustu, séð frá sjónarhóli Evrópusinna. Fyrir því voru tvær ástæður. Annars vegar hafa bæði ríkin búið við lága kjörsókn á undanförnum árum og hins vegar var ESB-andstaðan í þeim mun skipulagðari en í öðrum tilvonandi aðildarríkjum.

Í Póllandi var þurfti kjörsóknin að vera yfir 50% til þess að kosningin teldist gild. Mesta spennan í kringum kosningarnar fólst einmitt í því hvort þetta þrep næðist. (Til samanburðar má geta þess að í seinustu þingkosningum var kjörsóknin aðeins 46%.) Að loknum fyrsta degi, 7. júní, höfðu aðeins 17% kjósenda greitt atkvæði og voru margir þá orðnir áhyggjufullir. Sem betur fer reyndist sá grunur réttur að flestir myndu kjósa á sunnudegi, t.d. að lokinni guðsþjónustu. Einnig er ljóst að lág kjörsókn fyrri daginn hefur haft hvetjandi áhrif en vitað er til þess að fjölmargir hafi stytt fríið sitt um nokkra klukkutíma og flýtt sér í bæinn á sunnudegi til að kjósa. Slíkur borgaralegur þroski hefur hingað til þótt sjaldgæfur meðal Pólverja sem almennt eru skeptískir á stjórnmál og stjórnmálamenn.

Í Tékklandi var ekki gerð krafa um kjörsókn (þrátt fyrir að Fréttastofa Sjónvarpsins hafi ítrekað ranglega haldið því fram). Hins vegar vonuðust menn auðvitað til að sem flestir mundu kjósa. Hefði hinn hófsami meirihluti setið heima er ómögulegt að segja nema að andstæðingum ESB mundi takast að ná fram hagstæðum úrslitum. Í það minnsta gætu þeir notað lága kjörsókn til að setja spurningamerki við úrslitin eins og til dæmis er gert á vef Heimssýnar:

“Um helgina fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla í Póllandi. Kjörsókn var afar dræm en aðeins 58,85% kjósenda greiddu atkvæði.[…] Á hitt ber að líta að innan við helmingur atkvæðisbærra Pólverja greiddu því atkvæði að Pólland gengi í ESB.”

ESB-andstaðan í löndunum tveimur var mun skipulagðari en annars staðar í Austur-Evrópu, þótt hún státaði ekki af jafnfjöllyndum og framsæknum regnhlífarsamtökum og Heimssýn. Þannig lagðist Tékkneski Kommúnistaflokkurinn gegn aðild en hinn evróskeptíski forseti Vaclav Klaus gaf á endanum ekki upp afstöðu sína.

Í Póllandi var andstæðan gegn aðild mest í kringum þjóðerniskaþólska flokka á borð við LPR (Pólska fjölskyldubandalagið) og öfgasinnuð bændasamtök. Undirritaður var í Varsjá viku fyrir kosningar og fékk þar bækling frá LPR sem hét “Líf í hættu – Jörð í hættu”. Þar má m.a. lesa:

“Á tímum þegar þjóðir Evrópu eldast og deyja út hvetja ráðamenn Evrópusambandsins til enn frekari takmörkunar á náttúrulegri fólksfjölgun. Þetta mun hafa í för með sér hægfara dauða Evrópuþjóða, hnignun evrópskrar menningar og kristinna gilda. Undir yfirskyni “ábyrgðar” og “meðvitaðra áætlana” er nefnilega ekki aðeins hvatt til dráps á ófæddum börnum heldur einnig á endanum til viðurkenningar á hvers kyns kynvillu.”

Bæklingurinn fjallaði einnig um þá hættu sem stafaði af því að útlendingar (Þjóðverjar) gætu keypt sér jarðir í Póllandi, en LPR virðist næstum því viss um að þetta muni leiða til að Vestur-Pólland muni, áður en langt um líður verða að nýju innlimað í Þýskaland.

Að þessu leyti er því ákveðinn samhljómur í pólskri og íslenskri ESB-andstöðu. Í báðum löndunum er höfðað til auðlinda sem þjóðirnar hafa þurft að berjast mikið til að fá yfirráð yfir (jörð annars vegar og fiskimið hins vegar) og í þeim báðum er farið út fyrir velsæmismörk þegar mikilvægi þessara yfirráða er auglýst. Ungir Sjálfstæðismenn ákváðu til dæmis að ala sína kosningabaráttu á tortryggni í garð útlendinga. Útlendinga sem væru sjómenn.

Nú að lokum má eflaust spyrja sig hvort innganga Póllands og Tékklands, eða almennt stækkun ESB til austurs hafi einhver áhrif á stöðu Íslands. Í því samhengi er ljóst að mun þýðingameiri en atkvæðagreiðslurnar tvær er sú ákvörðun Breta á mánudaginn að halda pundinu, a.m.k. í bili. Svo lengi sem Bretar, Svíar og Danir standa utan við Evruna og Norðmenn alfarið utan ESB er ljóst að ekki verður nægjanlegur pólitískur vilji á Íslandi til að sækja um aðild.

Flestir ESB-efahyggjumenn virðast telja að EES-samningurinn tryggi stöðu Íslands. Fari svo að Noregur gangi í Evrópusambandið (sem þarf reyndar alls ekki að vera) er ljóst að samningsstaða Íslands og Liechtenstein gagnvart ESB verður afar veik og líklegast þarf að leita nýrra leiða.

Það er svo hins vegar annað mál og skrýtið að þeir sömu og hæðast mest að skriffinnskunni og “reglugerðafarganinu” frá Brussel telja það mikla gæfu fyrir Ísland að fá að kaupa stóran hluta af þessu sama fargani til afnota á Íslandi. Á sífellt hærra verði.

Leave a Reply

Your email address will not be published.