Páfinn og ESB

Ljóst var að pólska ríkisstjórninn gerði sér miklar vonir um góðan stuðning Páfans. Það sést meðal annars á því að sjálfur Aleksander Kwasniewski forseti var mætti til að hlýða á, auk fjölmenns flokks ráðherra úr stjórninni. Það var því ljóst að ráðamenn töldu að ræðan hefði mikið vægi í umræðunni innanlands.

Pólska stjórnin stendur afar veikt. Síðan Bændaflokkurinn yfirgaf hana eftir áramót hefur Lýðræðislega vinstribandalagið setið í minnihlutastjórn. Hófsamir stjórnarandstöðuflokkar hafa varið stjórnina falli en almennt eru menn sammála um að eini tilgangur þessarar stjórnar sé að koma landinu gegnum þjóðaratkvæðagreiðsluna, að því loknu verður boðað til þingkosninga.

Það er ljóst að Páfinn hefur ekki valdið pólskum Evrópusinnum vonbrigðum. Í lok seinustu ferðar sinnar til Póllands talaði hann aðeins um að „Pólland yrði að finna sinn stað í samfélagi Evrópuþjóða“. Sá staður gæti auðvitað verið Evrópuráðið eða EFTA, enda voru alheimssinnaðir pólskir ESB-andstæðingar fljótir að túlka þetta einmitt á þann veg. Að þessu sinni var Evrópusambandið sem slíkt nefnt beint á nafn:

„Pólland og önnur lönd gömlu austurblokkarinnar sem nú ganga í Evrópusambandið hafa mikilvægu hlutverki að gegna í álfunni. Pólland þarfnast Evrópu og Evrópa þarfnast Póllands. Innganga í Evrópusambandið á skilmálum til jafns við önnur ríki er okkur og slavneskum frændþjóðum okkar tákn um sögulegt réttlæti. Enn fremur getur þetta gert Evrópu sjálfa ríkari.

Þó að orðin séu sterk og Pólverjar flestir kaþólskir þarf alls ekki að vera að orðin muni hafa það mikil áhrif. Sér í lagi er afar ólíklegt að einhverjum hörðum ESB-andstæðingum muni snúast hugur þrátt fyrir að flestir þeirra liggi einmitt á hinum þjóðerniskaþólska væng pólskra stjórnmála. Páfinn hefur jú áður lýst yfir stuðningi við aðild Póllands að ESB, m.a. í pólska þinginu árið 1997 en engu að síður héldu þeir áfram að berjast gegn aðild, þvert á orð hins „óskeikula“ leiðtoga síns. Það hefur verið bent á að pólskir jaðarhægrimenn séu mun meiri þjóðernissinnar en kaþólikkar þó að þeir noti gjarnan trúarleg rök til að ná eyrum fólks.

Það verður síðan forvitnilegt að sjá hve afgerandi afstöðu kirkjan tekur í kosningabaráttunni. Í Litháen hvöttu prestar fólk eindregið á sunnudegi til að mæta á kjörstað og kjósa „já“ og telja sumir að þannig hafi tekist að koma kjörsókninni yfir 50% sem nauðsynlegt var til að kosningin teldist gild. Sömu kröfur eru gerðar til kjörsóknar í Póllandi og í raun virðist það nú vera helsti þröskuldurinn í vegi Pólverja inn í ESB. Í Slóvakíu voru t.d. 92% kjósenda fylgjandi aðild en kjörsóknin var aðeins 52%. Það hefur því verið bent á að það á sinn hátt andstæðingar aðildar sem komu landinu í ESB, með þáttöku sinni í kosningum.

Hvort að boðskapur Páfans muni hafa áhrif á þá Pólverja sem búa hér á landi skal ósagt látið en alla vega geta þeir nú nýtt atkvæðisréttinn með því að skrá sig til kosninga hjá Pólska sendiráðinu í Osló. Heyrst hefur að áhuginn sé mikill enda mun innganga Póllands í ESB hafa veruleg áhrif á réttarstöðu Pólverja á Íslandi, sérstaklega hvað dvalar- og atvinnuleyfi varðar.

Æskudýrkun?

Mörgum er tíðrætt um svokallaða „æskudýrkun“ þjófélagsins. Hún á að felast í því að vinsælt sé að vera ungur, hvort sem er í starfi eða stjórnmálum. Ungt fólk er ráðandi á í auglýsingum, hvort sem er fyrir farsíma, bílalán eða fatnað. Andlit ungs fólks eru því jafnan tengt einhverju frísku, einhverju frumlegu.

Eins, þegar fyrirtæki ráða til sín fólk eða stjórnmálaflokkar raða saman listum þá leitast stjórnendurnir við að hafa sem flesta „unga“ innan sinna vébanda. Sumir þeirra gera þetta eflaust meðvitað, til að láta aðra tengja flokkinn eða fyrirtækið einhverju frísku og frumlegu, meðan að aðrir eru sjálfir svo djúpt sokknir í æskudýrkuninni að þeir velja bara unga óhæfa fólkið fram yfir hina eldri og reyndari.

Þetta eiga að vera birtingarmyndir hinnar svokölluðu æskudýrkunar.

Nú er það freistandi, og reyndar víðtekin venja, að þegar einhver skoðun er algeng þá leitast pistlahöfundar eins og ég við halda fram hinu gagnstæða. Þetta er svipað því þegar einhver segir að appelsínugulur sé uppáhaldsliturinn hans, eingöngu til að skapa sér sérstöðu, því allir vita að hvaða litur er flottastur og ekki er það appelsínugulur.

Spurningamerkið í lok fyrirsagnar, hæðnislegar spurningar í innganginum og “hin fíflin segja”-formáli ættu nú að gera öllum ljóst að það sé einmitt tilgangur þessa pistils að gera lítið úr æskudýrkun þjóðfélagsins. Vonandi að það takist áður en höfundur kafnar í sínum eigin formhroka.

Nú skal það að viðurkennt að eflaust eigi ungt fólk auðveldara uppdráttar á ýmsum sviðum sökum aldurs. En er það fólk í hvívetna einhverjir sérstakir boðberar æskunnar? Hver er yfirhöfuð hin íslenska æskumenning?

Til að byrja með þá gera fáranleg lög um áfengiskaupaaldur það að verkum að engin vill kannast við að vera á aldrinum 16-20 ára. Fólk á þessum aldri hefur fáa staði til að skemmta sér á löglega. Fólk leitast því við að klæða sig í fullorðinslegri föt, mála sig, lita hýunginn dökkann og sprengja bólurnar. Hvað sem er til að eldast um tvö þrjú ár.

Reyndar kemur fyrir að menntaskólakrakkar fá að fara löglega inn á skemmtistaði. Það gerist á svokölluðum „skólaböllum“. Þá klæða ungmennin sig upp jakkaföt og síðkjóla til að stíga dans við tónlist Stuðmanna. Æskudýrkuninni til dýrðar!

Þegar ungt fólk kemst á þing og í bæjarstjórnir er hagar það þá sér sem sérstakir „fulltrúar“ ungs fólks? Nei, þeir eru bara fulltrúar fyrir sinn flokk eða hreyfingu, enda engin ástæða fyrir sérstaka „fulltrúa“ hinum og þessum smáhópum til dýrðar. En samt eru þeir alltaf auglýstir þannig fyrir kosningar.

Vonandi ætlar einhver hinna nýkjörnu „ungu fulltrúa“ að berjast fyrir mesta hitamáli fólks á aldrinum 18-20 ára nái þeir kjöri. Það er samt ólíklegt að svo verði. Í KosningaAti um daginn gafst ungum kjósendum færi á að spyrja frambjóðendur spurninga. Unga fólkið spurði um menntun, skatta og fæðingarorlof sem vissulega skipta miklu máli en engin spurði þeirrar einföldu spurningar sem brennir á svo mörgum: „Hvenær ætlið þið að leyfa fullorðnu fólki að kaupa sér bjór?“

Í allri æskudýrkuninni er ungt fólk nefnilega oft hrætt við að taka þátt í umræðunni á sínum eigin forsendum. Af ótta við að vera álitið barnalegt.