Ríkiskirkjan lifir

Á Íslandi nýtur eitt trúfélag, Þjóðkirkjan, verndar og stuðnings hins opinbera umfram önnur. Þó að trúfrelsis sé að öðru leyti oftast gætt hér á landi eru samt margar ástæður fyrir því að nauðsynlegt sé að breyta núverandi kerfi. Um þetta skrifaði ég í pistlinum „Að skilja Ríkið (og Kirkju)“ sem birtist hér á Deiglunni fyrir nokkru.

Um daginn var haldinn málfundur þar sem fulltrúar fimm flokka útskýrðu stefnu sína í þessum málum. Af þeim flokkum hafði aðeins einn þeirra, Frjálslyndi flokkurinn, tekið þá afstöðu að skilja bæri milli ríkis og trúar. Vinstriflokkarnir tveir sögðust ekki myndað sér stefnu í þessum málum. Össur Skarphéðinsson sagði að í flokknum væru margir sem vildu lögskilnað en einnig margir prestar og flokkurinn sem slíkur hafði ekki myndað sér stefnu í trúmálum. Einnig taldi hann að:

„[…]Kirkjan hefði átt erfitt uppdráttar um langt skeið en upp á síðkastið hefði hún komið inn í umræðuna og nú sæjust þess merki að hún væri að verða sá móralski viti sem væri nauðsynlegur. Hún eigi að vera uppspretta siðlegra gilda sem ríkja eigi í samfélaginu.[…]“

Sá sem þetta skrifar dregur í efa þörf á ríkisreknum mórölskum vita.

Drífa Snædal, fulltrúi VG sagði að málið væri þverpólitískt innan hreyfingarinnar og þótt Árni Steinar þingmaður hafði á sínum tíma lagt fram frumvarp þess efnis væru margir innan hennar á öðru máli. Afstaða þessara manna mótast væntanlega af almennum ótta við hvers kyns frjálslyndi og ást á ríkisreknum fyrirbærum almennt, því ekki hafa sósíalistar hingað til þótt sérstaklega trúrækið fólk.

Sólveig Pétursdóttir Dóms- og Kirjumálaráðherra fór yfir stöðu mála, útskýrði að Kirkjan væri orðin mjög sjálfstæð stofnun. Frekari aðskilnaður væri flóknara mál m.a. annars vegna þess að kirkjan ynni mikið starf erlendis. Sólveig tilgreindi síðan 62. grein Stjórnarskrárinnar (Vernd og stuðningur Ríkisins við Þjóðkirkjunu) máli sínu til stuðnings.

Það má vel vera að málið sé „flókið“. En er það flóknara en til dæmis einkavæðing bankanna? Auka þarf sjálfstæði og fjárhagslegan grundvöll Kirkjunnar smám saman og síðan skera á tengslin þegar hún er fær um að bera sig sjálf. Það hvort málið sé flókið kemur málinu ekki svo mikið við einkavæðingin var einnig flókin en samt var ráðist í hana. Það er einnig asnalegt að skýla sig bak við Stjórnarskrána því henni má breyta og það er jafnvel sú grein innan hennar sem auðveldast er að breyta. Ef spurt er um afstöðu til aðskilnaðar er þá væntanlega einnig verið að spyrja um afstöðu til þessarar tilteknu greinar.

Jónína Bjartmarz talaði loks fyrir hönd Framsóknarflokksins. Hún sagði að flokkurinn væri á móti aðskilnaði ríkis og kirkju. Síðan bætti hún við:

„Hér ríkir kristilegt siðferði. Margt í öðrum trúarbrögðum stangast á við gott siðferði, til dæmis múhameðstrú og hvernig hún skilgreinir stöðu

kvenna.“

Þetta eru athyglisverð ummæli sem vert er að athuga. Stjórnarskráin gerir einmitt ráð fyrir að heimilt sé að stofna trúfélög svo lengi sem trúin stríði ekki gegn „góðu siðferði“. Það má því skilja það svo að múslimar fengu ekki skrá trúfélag sitt á Íslandi, fengi Jónína Bjartmarz einhverju ráðið. Það er að auki er staða konunnar álíka „vel skilgreind“ í kristinni trú og Íslam, eins og lesa má í 1. Kórinþubréfi:

[1.Kor. 11:7-9] Karlmaður á ekki að hylja höfuð sitt, því að hann er ímynd og vegsemd Guðs, en konan er vegsemd mannsins. Því ekki er maðurinn af konunni kominn, heldur konan af manninum, og ekki var heldur maðurinn skapaður vegna konunnar, heldur konan vegna mannsins.

Það siðferði sem við lifum við á Vesturlöndum er samblanda af kristnum gildum og heilbrigðri skynsemi. Og ekki er nú hægt að fullyrða að kirkjan hafi verið sá aðili sem gegnum tíðina hefur dregið taum jafnréttis og umburðarlyndis. Eflaust fengju konur aldrei að vera prestar, skilnaðir væru bannaðir og samkynhneigðir væru enn álitnir glæpamenn ef ekki væri fyrir inngrip „eiganda“ trúfélagsins, þ.e. Ríkisins.

Það er oft talað um að kirkjan þurfi að veita ríkinu siðferðislegt aðhald. Í raun hefur þetta verið öfugt. Í siðferðismálum er ríkið oftast ljósárum á undan.

Súrt land

Það er nú meira hvað Bandaríkjamenn ætli sér að taka uppbyggingu Íraks alvarlega. Ruslatunnurnar í Bagdad loguðu enn þegar tilkynnt var hver yrði næsti áfangastaður á tjónleikaferðagi Bandaríkjahers um múslimaríki: Sýrland.

Hér á Íslandi höfum við kannski ekki mikið orðið vör við undirbúning ásakana á hendur Sýrlendingum enda eru íslenskir fjölmiðlar enn býsna uppteknir af nútíð og framtíð Íraks. Hins vegar kveður við annan tón þegar horft er á bandarísku fréttastöðina Foxnews.

Ég veit ekki til þess að íslenskir áhorfendur hafi enn fengist að kynnast þeirri merku fréttastöð en sjálf skilgreinir hún sig sem mótvægi við “ofurfrjálslyndar og vinstrisinnaðar” fréttastöðvar á borð við CNN. Stöðin hefur flutt nær stanslausar fréttir af “stríðinu gegn hryðjuverkum” í á annað ár, með bandaríska fánann blaktandi í skjáhorninu. Af og til brjóta fréttamenn stöðvarinnar þó upp dagskránna með því að taka fyrir nýleg morð og krefjast dauðadóms yfir hinnum grunuðu. Erlendar fréttir stöðvarinnar takmarkast nær eingöngu við ríki sem Bandaríkin hyggjast gera árás á. Já, og auðvitað Ísrael.

Það var fróðlegt að fylgjast með útsendingu stöðvarinnar í gær, páskadag. Náðu andbandarísk mótmæli í Bagdad að fanga athygli fréttamannana? Höfðu þeir áhuga á lyfjaskorti á sjúkrahúsum í Bagdad? Vatnsskorti í Basra? Eða því hvort tækist að byggja upp lýðræði í landinu með jákvæðum afleiðingum fyrir öll Mið-Austurlönd? Nei. Írak tilheyrir nefnilega fortíðinni. Framtíðin er Sýrland.

Hópur “álitsgjafa” stöðvarinnar tók að sér að búa til ásakanir á hendur Sýrlendingum. Sýrlendingar héldu hlífsskildi yfir samstarsmönnum Saddams. Sýrlendingar byggju yfir gereyðingavopnum. Stjórn Sýrlands væri ekki lýðræðislega kjörin. Sýrlendingar studdu við bakið á palestínskum hryðjuverkamönnum. Sýrlendingar hefðu með ólögleglegu hætti tryggt sér ítök í stjórn Líbanons o.fl.

Þessar ásakanir eru svipaðar þeim sem Donald Rumsfeld dómsmálaráðherra hefur verið að tína til eftir falli Bagdad. Það segir nú eitthvað um tryggð Bandaríkjamanna við heimsfriðinn að þeir skyldu hafa uppi alvarlegar hótanir við eitt ríki á meðan hernaði gegn öðru er vart lokið. Væri ekki málið að byggja upp lýðræði í Írak og vonast til að það gefi gefi nágrannaríkjum Íraka gott fordæmi?

Að lokum er ekki hægt að annað en að minnast á spilastokkinn sem gefinn var út með 55 eftirlýstum Írökum. Maður hugsar nú bara: “Krapp!” Hvaða Lukku-Láka fílingur er þetta eiginlega? Halda sumir að Miðausturlönd séu Villta-Vestrið? Ætlar Bandaríkjastjórn kannski að endurreisa íraskan efnahag með gerviperlum og glópagulli?

Einveldið Heimur

Bandaríkin eru merkilegt ríkjasamband og eðlilegt að fólk dáist að þeim. Það er eðlilegt að menn líti upp til sinna fyrirmynda og veiti þeim móralskan stuðning hver á sínum vettvangi. Það er hins vegar ótrúlegt hvað sumir eru tilbúnir að leggja á sig við hvolfa við hefðbundinni rökfræði, afneita almennum siðferðisgildum og leggjast í tímaferðalög til þess einungis að reyna að hnoða saman rökum fyrir hinum og þessum geðþóttaákvörðunum Bandaríkjastjórnar.

Það kæmi mér ekki á óvart ef Bandaríkin mundu nota kjarnorkuvopn í Írak að fram kæmu menn sem tilbúnir væru að rökstyðja þá ákvörðun. Þeir mundu halda því fram að hún hefði í raun bjargað mannslífum því miklu fleiri hefðu geta látist í „beinum“ átökum. Þetta væri nú lítil tala miðað við alla þá sem látist höfðu fyrir Saddams hendi o.s.frv.. Auðvitað mundu þessir menn harma mannfall meðal óbreyttra borgara en „slíkt fylgir nú alltaf stríði“. Og að sjálfsögðu „gera herir bandamanna allt til að lágmarka fall meðal óbreyttra borgara“ ólikt mannætuherjum Saddams sem skytu á börn sér til skemmtunar.

En komum okkur að aðalatriði málsins – stríðinu í Írak. Aðdragandi þess stríðs er ekki ósvipaður aðdraganda stríðsins í Afganistan. Í upphafi snerist stríðið í Afganistan um að koma höndum yfir Al’Kaida leiðtoga og uppræta starfsemi samtakanna. Þegar illa gekk að ná því markmiði settu menn upp málið þannig að verið væri að frelsa þjóð undan ógeðslegri harðstjórn. Það sama er að gerast nú. Í upphafi snerist stríðið um gjöreyðingavopn Íraka. Nú þegar stríðið hefur staðið í hálfan mánuð og vísbendingar um þau vopn hafa ekki fundist (eða ekki gerðar opinberar) er aftur allri athygli beint að „frelsun íraskrar þjóðar“.

Það er auðvitað gott mál að frelsa þjóð undan harðstjórn. Slíkt verður þó að gerast með löglegum hætti og ekki án þess að breiður alþjóðlegur stuðningur sé til staðar. Bandaríkjamenn tóku þá afstöðu að Sameinuðu Þjóðirnar höfðu brugðist vegna þrjósku ríkis með neitunarvald og því þyrfti að grípa til aðgerða með þessum hætti.

En hvaða þrjóska ríki er þetta sem hefur með illum ráðum ákveðið að lama alþjóðasamfélagið. Þetta er væntanlega eitthvað ríki sem hefur annarlegra hagsmuna að gæta, með stjórn sem hefur komist til valda með vafasömum hætti og hefur oft áður stofnað til vandræða með yfirgangi og leiðindum á alþjóðlegum vettvangi. Er þetta Kína? Sýrland? Sovétríkin? Nei, kæru lesendur ríkið sem um ræðir heitir Frakkland og er stjórnað af miðjuhægrimönnum. En eflaust lætur franska stjórnin stjórnast af pópúlisma í þessu máli enda aðeins 4 ár í næstu kosningar og því mikið í húfi.

Nei, það segir mér enginn að Frakkar séu einhverjir harðhausar sem ekki sé hægt að tala til ef málefnið er gott. Ég man a.m.k. ekki eftir að Frakkar verið hingað til beitt neitunarvaldi sínu hægri og vinstri til þess eins að fólk tæki eftir þeim. Ætli staðreyndin sé ekki bara sú að Frakkar höfðu rétt fyrir sér: Enn var tími til að vinna að díplómatískri lausn að málinu. Enn var tími til að láta reyna á vopnaeftirlitið.

Þó að það sé ef til vill ágætt að losa sig við Saddam má ekki gera það á kostnað trúverðuleika Sameinuðu Þjóðanna. Hafi Frakkar verið á móti vopnabeitingu áttu menn að reyna tala þá til eða í versta falli bara að láta sig hafa það. Öryggisráðið á að vera stofnun sem ríkisstjórnir taka mark á. Ef að þau ríki sem hafa mest vald innan Ráðsins kjósa sjálf að hundsa það, hvernig eiga hin ríkin þá að taka alyktanir þess alvarlega?

Sameinuðu þjóðirnar eru ef til vill ekki nein frábær stofnun. Hins vegar held ég að sú heimsregla sem SÞ bjóða upp á sé betri en engin. Einhliða ákvarðanir um stríð færa okkur skrefi nær heimsstjórnleysi. Og þá fyrst mun allt fara til fjandans.