MR getur best

Nei, sigur MR í Gettu betur kemur ekki mikið á óvart. Þessi sigur er víst sá tólfti í röð og er því ekki langt í að MR nái því þeim merka áfánga að geta sett lið sitt saman einungis af mönnum sem fæddir voru eftir að sigurgangan hófst.

Að sama skapi og maður gleðst með sigri síns gamla skóla og óskar hinum hárprúðu ungu möngum góðrar, heilbrigðrarskemmtunar í heitu sumarlandi kemst maður ekki hjá því að taka svolítið undir með hinum almenna áhorfanda. Þessi langa sigurganga hefur komið niður á skemmtanagildi keppninnar.

Einhver staðar heyrði ég að teigurinn í NBA deildinni hafi verið stækkaður á sínum tíma til að minnka yfirburði Jabbars. Á sama hátt hafa komið fram ýmsar hugmyndir um hvernig minnka mætti sigurlíkur MR og auka skemmtanagildi keppninnar. Einhvern tímann voru spurningarnar gerðar einfaldari í von um að hin liðin yrðu stundum fyrir tilviljun fljótari en MR til að hringja bjöllunni og ef það gerist oft í einni keppni getur jafnvel farið svo að MR verði undir. Síðan hafa stundum komið fram hugmyndir um að skeyta saman Gettu betur og Morfís en MR hefur ekki unnið seinni keppnina í mörg ár. Einhvern tímann voru hraðaspurningarnar færðar aftur fyrir til að MR mundi ekki gera út um keppnina á fyrsta korterinu og að lokum má ekki gleyma þeirri skondnu hugmynd sem fram kom á FF þingi í fyrra um að banna þeim skóla sem vinna þrjú ár í röð að taka þátt á komandi ári.

Öllum sem sáu úrslitin var ljóst að yfirburðir MR voru miklir. En að baki þeim yfirburðum liggur gríðarmikil vinna. Tveir í MR-liðinu höfðu verið í þjálfun í 2 ár áður en þátttaka þeirra í keppninni hófst. Það má því fullyrða að keppnin verður ekki spennandi fyrr en hinir skólarnir taka sér tak og fara skipuleggja sína þátttöku betur að keppnin geti orðið spennandi á ný.

MR-hefur að undanförnu komið sér upp öflugu kerfi við val og þjálfun keppenda. Í upphafi árs er haldin skrifleg undankeppni sem gamlir keppendur skipuleggja. Þeim fyrsta árs nemum sem lenda ofarlega er boðið að gerast liðstjórar. Þeir sjá þá um að semja spurningar fyrir aðaliðið í eitt eða tvö ár og afla sér þannig gríðarlegrar þekkingar áður en þeir taka sjálfir sæti. Reynt er að koma því þannig fyrir að liðsmenn komi ekki úr sama árgangi til að alltaf séu einhverjir með reynslu innan liðsins. Einn gamall keppandi tekur að sér að þjálfa liðið.

Að auki sér liðið um spurningakeppni bekkjardeilda innan skólans þar sem þeir notast væntanlega að einhverju leiti við spurningar úr þjálfuninni. Þessi litla spurningakeppni er með mjög svipuðu sniði og Gettu betur. Hugmyndin með henni er að gefa bekkjum færi á að meta visku sína og að halda uppi almennum áhuga á stóru keppninni.

Af og til koma upp lið úr öðrum skólum sem geta skákað MR, t.d. Borgarholtsskóli fyrir 2 árum og MH fyrir nokkrum árum áður. Þeim skólum hefur ekki tekist að fylgja eftir þeim árangri enda oft um að ræða fólk af sama árgangi sem hættir allt á einu bretti og nær ekki að skapa hefð. Það er því mín tillaga um að aðrir skólar komi sér upp þjálfara- og inntökukerfi að fordæmi MR. Aðeins þannig verður MR-veldinu ógnað.

Talið vitlaust

Yfir 300 þúsund kjósendur voru á kjörskrá fyrir atkvæðagreiðsluna á laugardaginn. Þar af kusu 91%. Af þeim sem afstöðu tóku voru 53,6% með aðild en 46,4% á móti.

Maltnesk stjórnmál undanfarin ár hafa að miklu leyti snúist um ESB-aðild. Tveir stórir flokkar eru á Möltu. Verkamannaflokkurinn hefur undanfarin ár barist gegn aðild en Þjóðernisflokkurinn verið fylgjandi. Þannig er töluvert langt síðan að landið sótti um inngöngu í ESB en hins vegar var aðildarumsóknin „fryst“ þann tíma sem Verkamannaflokkurinn var við völd. Það er því engin vafi á að úrslitin séu sigur fyrir Þjóðernisflokkinn og Eddie Fenech Adami forsætisráðherra þó að hinn eiginlegu úrslit ráðist í þingkosningum sem fara fram í næsta mánuði.

Verkamannaflokkurinn tók furðulega afstöðu til atkvæðagreiðslunnar. Um tíma stóð til að hvetja fólk til að ógilda seðilinn með því að rita á hann „Viva Malta“ en undir lokin hvatti flokkkurinn kjósendur sína til að gera eitt af þrennu: Að kjósa „nei“, ógilda atkvæði sitt, eða að sniðganga kosningarnar. Það var einmitt hið síðastnefnda sem formaður flokksins gerði en hann mætti þó á kjörstað til að taka þátt í sveitarstjórnarkosningum sem fóru fram á sama tíma.

Þegar talið var upp úr kjörkössunum og ljóst var hvernig atkvæðin lágu lýsti Verkamannaflokkurinn yfir sigri enda var fjöldi þeirra sem “farið höfðu að þeirra ráðum” hærri um 7 þús. en fjöldi þeirra sem kosið höfðu „já“. Þ.e.a.s þeir sem kusu, „nei“, ógiltu atkvæðin eða kusu ekki voru sem sagt fleiri en þeir sem kusu „já“.

Í greininni „Að kjósa ekki“ sem birtist hér á Deiglunni fyrir nokkru síðan var fjallað um þá algengu talnabrellu þeirra sem tapa í kosningum að túlka lága kosningaþátttöku sér í hag og er ofangreint tilfelli frá Möltu einmitt dæmi um slíkt.

Það er þó sem betur fer þannig ofangreindar ranghugmyndir maltneskrar stjórnarandstöðu geta ekki talist ógn við lýðræðið enda hafa þær engar afleiðingar í för með sér. Verra er þegar ákveðið er að láta kosningaþátttöku eða auð atkvæði hafa áhrif á úrslit kosninga, eins og til dæmis þegar 50% þátttöku er krafist. Það er grundvallaratriði að kosningar skulu leynilegar til þess að ekki sé hægt að kaupa atkvæði fólks. Þess vegna ógilda menn atkvæði sitt með því að krota kennitölu og bankareikning aftan á seðilinn. Um leið og ógild atkvæði fara að hafa áhrif á niðurstöðuna er komin hætta á að flokkar greiði mönnum fé fyrir að ógilda seðilinn eða einfaldlega að sitja heima.

Möltubúar ganga aftur að kjörborðinu eftir mánuð til að kjósa sér nýtt þing. Þær kosningar skipta öllu um það hvort landið gangi inn í ESB eða ekki. Það er því von að stjórnarandstaðan einbeiti sér að því að fá fólk á sitt band með hefðbundnum aðferðum í stað að þess reikna óákveðna kjósendur til liðs við sig með vafasömum talnabrellum.

Kristíanía

Nýlegir tilburðir dönsku stjórnarinnar eru síður enn svo nýir af nálinni. Íbúar Kristíaníu hafa oft þurft að berjast fyrir tilveru sinni og hafa áður verið gerðar fjórar tilraunir til að bera út íbúana í 30 ára sögu Fríríkisins. Þær hafa allar mistekist.

Það má segja að það sé misgott milli ára að vera Kristíaníubúi. Afstaða framkvæmdavaldsins til “tilraunarinnar” breytist með hverri stjórn svo framtíðin er ávallt óráðin. Frá því að ný stjórn hægriflokka tók við í Danmörku hefur hallað undan fæti. Lögreglan fjölgað heimsóknum sínum verulega.

Slíkar heimsóknir eru alltaf eins. Lögreglumennirnir ryðjast inn í Kristíaníu og til stimpinga kemur milli lögreglumanna og íbúa (og hunda) Fríríkisins. Lögreglan er á staðnum í um klukkutíma og gerir upptækt eitthvað magn af kannabisefnum. Korteri eftir að hún er farin eru hasskökurnar farnar að seljast að nýju.

Það er skiljanlegt að fólk skulu hafa horn í síðu manna sem gera það atvinnu sinni og lífsspeki brjóta lög samfélagsins. Það má hins vegar ekki gleyma þeim margsagða sannleik að menn eigi að vera frjálsir til að gera það sem þeim sýnist svo lengi sem það skaðar ekki aðra. Kristíaníubúar hafa ekki ákveðið að sniðganga öll lög og siðferðisviðmið danska samfélagsins. Þau sniðganga bara mjög afmarkaðan hluta þeirra og um þennan afmarkaða hluta eru allir íbúar Kristíaníu sammála. Ræðukeppnarökin, “Eigum við þá ekki bara að leyfa þjófnað?” ganga því ekki upp.

Munurinn á sósíalísku alræðissamfélagi og frjálslyndu markaðsamfélagi á víst að vera sá að fólk í kapitalísku samfélagi eigi að geta tekið sig saman og stofnað kommúnu ef því svo sýnist en það gildir ekki öfugt fyrir markaðsinnað fólk sem býr í kommúnistaríki. Þetta hafa Kristíaníubúar einmitt gert.

Hitt er svo annað mál að stofnendur Kristíaníu voru margir hverjir hústökufólk og núverandi íbúar eiga því ekki húsin sem þeir búa í. Í því samhengi tel ég að Danska Ríkið hafi með aðgerðaleysi sínu í 30 ár í raun lagt blessun sína yfir eignatökuna. Gera þarf þær kröfur til ríkisvaldsins að réttarkerfið virki hratt svo fólk geti haldið áfram að lifa lífinu. Þess vegna firnast glæpir og þess vegna þykir það kappsmál að menn fá að afplána dóma sem fyrst. Það sama ætti að gilda um eignatöku á borð við þessa sem átti sér stað í Kristíaníu. Þrjátíu ára aðgerðaleysi ætti að vera nóg til að fólk vissi að Ríkið hygðist ekki vísa þeim á dyr.

Ég kom til Kristíaníu seinasta sumar. Mér fannst hún bara vera frekar notalegur staður, jafnvel á mörkum þess að vera fjölskylduvænn. Danskir krakkar hjóluðu um á fjallahjólum með Faxe Kondí í hönd. Húsin voru litskrúðug og snyrtileg og göturnar mátulega hreinar. Stemningin var afslöppuð og yfirþyrmandi ofbeldislaus. Þetta voru ekki bara útúrreyktir hippar og Jamaicabúar með dredda. Að mörgu leyti er Kristíanía einmitt eitthvað aldanskasta sem til er í Danmörku.

Ég óska henni að svo verði áfram.