Fordómafull trúfélagaskráning

Það er algeng skemmtileg iðja að skrifa út frá persónulegri reynslu. Rökin styrkjast og greinarnar verða oft léttari yfirferðar þegar reynslusögum er skeytt inn lesendum til skemmtunar. Ef að þessi pistill bæri titilinn “Dónalegir leigubílstjórar” væri það sterkur leikur hjá mér sem höfundi að láta fylgja með létta dæmisögu bílstjóra sem kallaði mig feitan, bað mig um að sitja í aftursætinu og neitaði að fara upp í Breiðholt því þar byggju bara útlendingar og annað pakk. (Það gerðist aldrei.)

Það ber þó ávallt að hafa í huga þegar slíkar frásagnir eru lesnar að varasamt getur verið að draga ályktanir út frá þeim, enda aðeins er verið að ræða um einstök atvik en ekki velframsettar og vísindalega sannaðar tilraunir. Umræddur bílstjóri getur til dæmis seint talist “marktækur úrtakshópur”, meðal annars af þeirri ástæðu að hann var aldrei til.

Að þessum tilgerðarlega formála loknum er ekki úr vegi að vinda sér yfir í dæmisöguna sem heldur pistlinum saman.

Seinasta sumar brá ég mér í Hagstofuna til að athuga skráningarstöðu mína. Foreldrar mínir komu hingað til lands 1988 og minntust þess ekki að hafa skráð sig í neitt trúfélag. Ég hafði grun um að eflaust hefðu þau verið skráð í Þjóðkirkjuna eins og mikill meirihluti Íslendinga. Börn eru skráð í trúfélag móður sem þýddi að ég væri hugsanlega einnig skráður í Ríkistrúfélagið og þótti mér tilefni til að breyta því, enda efahyggjumaður.

Ég las upp kennitöluna og sýndi skilríkin. Síðan spurði ég þjónustustúlkuna í hvaða trúfélag ég væri skráður. Mér brá nú heldur betur í brún þegar ég heyrði að ég væri skráður í kaþólsku kirkjuna enda ekki einu sinni skírður og hef kannski einu sinni stigið fæti í Landakotskirkju.

Ég spurði starfsmann Hagstofunnar í tölvupósti um hvernig á þessu gæti staðið. Mér var svarað eftirfarandi:

Mér er sagt að þetta hafi verið vinnulag þess tíma er þú komst hingað, hafi einstaklingur gleymt að fylla út reit er varðarði trúfélag var viðkomandi skráður í ríkjandi trúfélag þess lands er hann kom frá. Þetta vinnulag hefur löngu verið aflagt hjá okkur. Leiðrétting hefur verið framkvæmd nú samk. beiðni þinni.

Magnað. Það eru því í mesta lagi fimmtán ár síðan að Ríkið gerði fólki upp skoðanir eftir uppruna. Pólverji – kaþólikki. Svisslendingur – kalvínisti. Tyrki – múslimi. Svíi – sósíaldemókrati. Menn voru virkilega með lista og skráðu fólk í trúfélag eftir því hvaðan það kæmi. Ef menn skildu reitinn “trúfélag” eftir auðan þá voru þeir ekki að lýsa að þeir vildu ekki skrá sig í trúfélag. Nei. Það hlýtur að vera að þeir hafi gleymt hvað trúarbrögðin þeirra heita. Skráum þau bara í það trúfélag sem fellur best að okkar heimsmynd að þeir séu í.

Það er ánægjulegt að Hagstofan hafi nú hætt við að notast við þessa reglu. Hins vegar er en ljóst að margir innflytjendur eru eflaust enn skráðir í trúfélagið sem þeir voru skráðir í við komuna, þ.e.a.s. “Ríkjandi trúfélag þess lands sem þeir komu frá”.

Það er kannski fullgróft að krefjast þess að Hagstofan hringi í alla íbúa sem fluttu til Íslands á 40 ára tímabili og krefji þá um að gefa upp trú sína vegna eigin mistaka. Hins vegar vona ég að þessi dæmisaga fái fólk til að skoða skráningu sína og ganga úr skugga um að hún sé rétt. Þótt það geti verið óþægilegt að vita af nafninu sínu við hliðina á einhverri trúarstefnu í gagnagrunni á vegum Ríkisins er það örugglega skárra en að styðja fjárhagslega við bakið á einhverju sem menn trúa ekki á.

Leave a Reply

Your email address will not be published.