Kjósum samstarf

Kosningar til Stúdentaráðs standa nú yfir. Að þessu sinni eru þrír listar í framboði og ættu því flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Þó lítur fyrir að um helmingur stúdenta muni sitja heima. Hvers vegna telja þau að atkvæði þeirra skipti ekki máli? Og hvers vegna er það rangt hjá þeim?

Fólk getur haft ýmsar ástæður fyrir að kjósa ekki. Tvær þeirra eru helstar:

1.Það er fullt af öðru fólki að fara kjósa. Hvers vegna skiptir máli hvað ég geri?

2.Allir frambjóðendur eru eins svo það skiptir ekki máli hvað ég kýs.

Í seinustu Stúdentaráðskosningum munaði aðeins 4 atkvæðum á Vöku og Röskvu. Það hefði sem sagt verið nóg ef að einu vina- eða kærustupari hefði snúist hugur til að farið hefði á hinn veginn. Einnig var fjöldi þeirra sem gerði atkvæði sitt ógilt með því að strika menn út af öðrum listum eða breyta röð þeirra stærri en fjórir svo það má sannarlega segja að að orðin “að kjósa rétt” hafi orðast beinskeyttari merkingu þann dag.

Þá er að velta fyrir sér þeirri spurningu hvort að niðurstaða kosninganna skipti máli. Mörgum kjósendum virðist sem fylkingarnar séu mjög svipaðar, málefnin keimlík og jafnvel litasamsetning plakatanna stæluð hvor frá öðrum. Margir eru enn fremur þeirrar skoðunar að: “Flokkadrættir eigi ekki við í háskólapólitík sem sé sérhagsmunagæsla í eðli sínu. Stúdentar ættu að starfa saman í stað þess að karpa innbyrðis.”

Ýmislegt er til í áðurnefndri tilvitnun. En í því samhengi verður að skoðast hvor fylkingin eigi sér betri fortíð varðandi samstarf í Stúdentaráði. Þegar Röskva sigraði mjög naumlega í kosningunum fyrir tveimur árum var engu að síður ákveðið að ALLIR nefndarformenn skyldu koma úr röðum Röskvu. Tillögur Vöku í Stúdentaráði og nefndum þess voru allar kosnar niður. Skoðanir næstum helmings kjósenda voru virtar að vettugi.

Í ár hefur meirihluti Vöku meðal annars boðið Röskvu formennsku í nefndum, fjölgað fulltrúum minnihlutans í stjórn Stúdentaráðs auk þess sem margar tillögur Röskvu voru samþykktar í Stúdentaráði og nefndum þess.

Því miður hafnaði minnihlutinn boði Vöku um formennsku í nefndum. Röskva svaraði því til að þau vildu “skýra ábyrgð”. Með öðrum orðum vildi Röskva einfaldlega ekki koma á fordæmi í þessum efnum. Það skipti engu máli að formannsembættin hefði mátt nýta til að vinna í þágu kjósenda sinna, Röskva vildi ekki koma á slíku fordæmi og þurfa þar með hugsanlega að afsala sér völdum í framtíðinni.

Þegar þetta er skrifað eru um 4 klukkustundir þar til að kjörstöðum lokar. Ég vil nýta tækifærið til að hvetja alla sem hafa kosningarétt til að nýta sér hann. Kjósum markvissa stefnu í stað nöldurs. Kjósum samstarf í Stúdentaráði. Kjósum betri Háskóla. Áfram Vaka!

Fyrirkomulag kosninga til Stúdentaráðs

Til stúdentaráðs eru kosnir 18 einstaklingar. Að nafninu til eiga þeir að vera kosnir til tveggja ára í senn. Hugmyndin með því er að nýta þá reynslu sem eldri stúdentaráðsliðar hafa aflað sér. Sá hængur er hins vegar á að upp gæti komið sú staða að tvær fylkingar hafi jafn mörg sæti í ráðinu og ómögulegt sé að mynda meirihluta.

Sú staða kom seinast upp í árdaga Röskvu og var upp frá því ákveðið að úrslit kosninga myndu hafa áhrif aftur í tímann. Þ.e. fái fylking fjóra menn kjörna árið 2003 fara fjórir efstu menn á listanum frá 2002 einnig inn. Sannleikurinn er því sá að stúdentaráðsliðar eru því ekki kosnir til tveggja ára heldur eru í framboði tvö ár í röð. Margir gallar eru á því fyrirkomulagi. Til dæmis skapast ákveðið ójafnvægi milli nýrra og eldri framboða. Nái Háskólalistinn, þriðja framboð til stúdentaráðs, manni inn fer næsti maður á listanum einnig inn vegna þess að listinn bauð ekki fram í fyrra.

Heppilegra kerfi væri að láta alla stúdentaráðsliða vera kosna til tveggja ára nema seinasta mann inn á hverju ári. Hann sæti aðeins í eitt ár og dytti síðan út. Fjöldi stúdentaráðsliða yrði þá oddatala og minni hætta á stjórnarkreppu. Önnur hugmynd væri að láta menn vera kosna til eins árs í senn og vilji menn síðan virkja kraft hinna eldri og reyndari geta þeir einfaldlega boðið sig fram aftur.

Sumum finnst það slæmt hve lítil áhrif þeir hafa á hvaða einstaklingar séu kosnir til ráðsins. Framboðin leggja fram tilbúna lista sem erfitt er að hafa áhrif. „Einstaklingskosning“ mun því alltaf vera mikið tískuorð. Vandi við einstaklingskosningar er að þær eru erfiðar í framkvæmd. Erfitt er að finna aðferð sem kemur í veg fyrir hvers kyns slys. Tökum sem dæmi tillögu Háskólalistans:

Háskólalistinn leggur til að fólk númeri frambjóðendur á seðlum sínum. Sá sem flest flest atkvæði hlýtur í 1.sæti verður Stúdentaráðsliði nr. 1. Sá sem flest flest atkvæði hlýtur í 1-2.sæti verður Stúdentaráðsliði nr. 2. o.s.frv..

Vægast sagt skelfileg hugmynd. Þetta kerfi, sem vinsælt er í prófkjörum hentar mjög illa til kosninga þar sem fólk skiptist í fylkingar. Gerum ráð fyrir að tveir listar séu í framboði. X-listi fær um 1500 atkvæði en Y-listi 1400. Kjósendur listanna hafa langflestir ákveðið fylgja fyrirframgefinni röð á listunum sínum þ.a. fyrsti maður á X-lista fékk 1500 atkv. í 1. sæti, annar maður fékk 1500 atkv í 2. sæti o.s.frv.

Nú er 1. maður á X-lista með flest atkv. í 1. sæti og hann kemst inn. Annar maður á X-lista er með 1500 atkvæði í 1.-2. sæti en 1. maður á Y-lista með 1400. Næsti maður inn kemur þá líka frá X-listanum. Svona gengur þetta koll af kolli og X-listinn fær alla menn inn þrátt fyrir aðeins 100 atkvæða mun.

Ég veit ekki hvað fólk í Háskólalistanum var að hugsa þegar það setti fram þessar tillögur. Það er ljóst að þær munu ekki auka persónukosningu því um sannkallað „Winner takes til all“ kerfi er að ræða. Lesendum er látið eftir að ákveða hvort um sé að ræða stórkostlega vanhugsun eða djöfullegt plott.

Hitt er svo annað mál að ég hef saknað tillagna frá Vöku og Röskvu um þetta mál. Til stendur að endurskoða lögin strax eftir kosningar og hefði verið forvitnilegt að sjá hvaða afstöðu fylkingarnar tvær hefðu til málsins.

Fordómafull trúfélagaskráning

Það er algeng skemmtileg iðja að skrifa út frá persónulegri reynslu. Rökin styrkjast og greinarnar verða oft léttari yfirferðar þegar reynslusögum er skeytt inn lesendum til skemmtunar. Ef að þessi pistill bæri titilinn “Dónalegir leigubílstjórar” væri það sterkur leikur hjá mér sem höfundi að láta fylgja með létta dæmisögu bílstjóra sem kallaði mig feitan, bað mig um að sitja í aftursætinu og neitaði að fara upp í Breiðholt því þar byggju bara útlendingar og annað pakk. (Það gerðist aldrei.)

Það ber þó ávallt að hafa í huga þegar slíkar frásagnir eru lesnar að varasamt getur verið að draga ályktanir út frá þeim, enda aðeins er verið að ræða um einstök atvik en ekki velframsettar og vísindalega sannaðar tilraunir. Umræddur bílstjóri getur til dæmis seint talist “marktækur úrtakshópur”, meðal annars af þeirri ástæðu að hann var aldrei til.

Að þessum tilgerðarlega formála loknum er ekki úr vegi að vinda sér yfir í dæmisöguna sem heldur pistlinum saman.

Seinasta sumar brá ég mér í Hagstofuna til að athuga skráningarstöðu mína. Foreldrar mínir komu hingað til lands 1988 og minntust þess ekki að hafa skráð sig í neitt trúfélag. Ég hafði grun um að eflaust hefðu þau verið skráð í Þjóðkirkjuna eins og mikill meirihluti Íslendinga. Börn eru skráð í trúfélag móður sem þýddi að ég væri hugsanlega einnig skráður í Ríkistrúfélagið og þótti mér tilefni til að breyta því, enda efahyggjumaður.

Ég las upp kennitöluna og sýndi skilríkin. Síðan spurði ég þjónustustúlkuna í hvaða trúfélag ég væri skráður. Mér brá nú heldur betur í brún þegar ég heyrði að ég væri skráður í kaþólsku kirkjuna enda ekki einu sinni skírður og hef kannski einu sinni stigið fæti í Landakotskirkju.

Ég spurði starfsmann Hagstofunnar í tölvupósti um hvernig á þessu gæti staðið. Mér var svarað eftirfarandi:

Mér er sagt að þetta hafi verið vinnulag þess tíma er þú komst hingað, hafi einstaklingur gleymt að fylla út reit er varðarði trúfélag var viðkomandi skráður í ríkjandi trúfélag þess lands er hann kom frá. Þetta vinnulag hefur löngu verið aflagt hjá okkur. Leiðrétting hefur verið framkvæmd nú samk. beiðni þinni.

Magnað. Það eru því í mesta lagi fimmtán ár síðan að Ríkið gerði fólki upp skoðanir eftir uppruna. Pólverji – kaþólikki. Svisslendingur – kalvínisti. Tyrki – múslimi. Svíi – sósíaldemókrati. Menn voru virkilega með lista og skráðu fólk í trúfélag eftir því hvaðan það kæmi. Ef menn skildu reitinn “trúfélag” eftir auðan þá voru þeir ekki að lýsa að þeir vildu ekki skrá sig í trúfélag. Nei. Það hlýtur að vera að þeir hafi gleymt hvað trúarbrögðin þeirra heita. Skráum þau bara í það trúfélag sem fellur best að okkar heimsmynd að þeir séu í.

Það er ánægjulegt að Hagstofan hafi nú hætt við að notast við þessa reglu. Hins vegar er en ljóst að margir innflytjendur eru eflaust enn skráðir í trúfélagið sem þeir voru skráðir í við komuna, þ.e.a.s. “Ríkjandi trúfélag þess lands sem þeir komu frá”.

Það er kannski fullgróft að krefjast þess að Hagstofan hringi í alla íbúa sem fluttu til Íslands á 40 ára tímabili og krefji þá um að gefa upp trú sína vegna eigin mistaka. Hins vegar vona ég að þessi dæmisaga fái fólk til að skoða skráningu sína og ganga úr skugga um að hún sé rétt. Þótt það geti verið óþægilegt að vita af nafninu sínu við hliðina á einhverri trúarstefnu í gagnagrunni á vegum Ríkisins er það örugglega skárra en að styðja fjárhagslega við bakið á einhverju sem menn trúa ekki á.

Fullur átján

Umræður um hugsanlega lækkun aldurs til áfengiskaupa hafa legið niðri um tíma og í raun hefur sú umræða aldrei náð neinum skriðþunga. Málið eðlilega stórmál í framhaldsskólum en um leið og fólk skríður yfir tvítugt virðist áhuginn á málinu dala. Um leið og vandamálið leysist hætta menn, eðlilega, að hugsa um það og muna ekki hve reiðir þeir eitt sinn voru út í kerfið fyrir fá ekki að kaupa bjór sem sjálfráða, bílráða og fjárráða einstaklingar.

Frumvarp þess efnis að lækka áfengiskaupaaldur úr 20 árum niður í 18 var lagt fram af nokkrum þingmönnum árið 1995 og náði í gegnum eina umræðu í þinginu áður en það dó líkt og svo mörg þingmannafrumvörp gera. Þeir lesendur sem vilja kynna sér þá umræðu geta gert það með því smella á slóðina hér fyrir ofan. Líkt og oft þegar umræðan snýst um siðferðismál liggja skotgrafirnar þvert á flokkslínur en flutningsmenn frumvarpsins voru Jóhanna Sigurðardóttir, Geir H. Haarde, Siv Friðleifsdóttir og Lúðvík Bergvinsson.

Því miður kom aldrei til þess að greidd yrðu atkvæði um málið því þá hefði verið hægt að kynnast afstöðu margra þingmanna sem fara fögrum orðum um hinn kosningabæra ungvið en vilja samt ekki beita sér fyrir því máli sem helst brennir á hugum þess.

Umræðan varð þó til að sett yrði á fót nefnd á vegum Dómsmálaráðuneytis til að rannsaka hvort lækka ætti áfengiskaupaaldur niður í 18 ár. Niðurstöður nefndarinnar voru birtar 1999 og voru eftirfarandi:

1.Áfengiskaupaaldur skyldi vera óbreyttur. Rök nefndarinnar voru þau að hugsanleg hækkun í slysatíðni vegna ölvunaraksturs vægi meira en réttindi fólks á aldrinum 18-20 og var litið til reynslu Bandaríkjamanna. Það mat er huglægt og verður ekki á deilt á. Undirritaður er þó þeirrar skoðunar að töluvert sterk rök þurfi til að takmarka réttindi fólks. Auðvitað fækkar slysum vegna ölvunaraksturs ef áfengi er bannað, en er sanngjarnt að refsa meirihlutanum með frelsisskerðingu fyrir glæpi sem lítill minnihluti fremur?

2.Verði áfengiskaupaldur lækkaður skal það aðeins eiga við bjór og léttvín. Ekki er að finna neinn rökstuðning fyrir þessu í skýrslu nefndarinnar. Nefndin stjórnaðist eflaust af almenni þörf fyrir íhaldssemi. Slík aðgerð yrði þó eflaust skref í rétta átt og gæti stuðlað að því að fæla ungt fólk frá sterkari vínum.

3.Bílprófsaldur verði hækkaður upp í 18 ár. Hér hafa nefndarmenn farið fram úr sér því þeir áttu aðeins að skoða hvort slík hækkun ætti ekki að fara fram samhliða lækkun áfengiskaupaaldurs. Nefndin mælir gegn því og þessi tillaga um bílprófsaldur því fremur skrýtin.

4.Leyfilegt áfengismagn í blóði 17-20 ára ökumanna verði 0,00%. Léttbjór inniheldur áfengi. Einn léttbjór er nóg til að áfengi mælist í blóði. Það þyrfti því að banna léttbjór innan 20 ára eða banna ungu fólki að keyra degi eftir að það drekkur. Slíkt yrði reyndar í takt við stemningu innan nefndarinnar.

Jónína Bjatmarz Framsóknarkona og formaður samtaka Heimilis og skóla fór fyrir nefndinni.

Kosningar nálgast. Ungt fólk ætti að nota tímann til að spyrja frambjóðendur um afstöðu til þessa máls. Það er auðvitað hætt við að menn sem eru andvígir svari í frösum á borð við ”það verður að skoða málið vel og taka skynsamlega ákvörðun en ég er opinn fyrir öllu” til að fæla ekki frá unga kjósendur. Staðreyndin er hins vegar sú að málið hefur nú þegar verið skoðað. Kostir og gallar liggja fyrir. Málið snýst um réttindi einstaklinga gegn réttindum fjöldans.

Krefjið þau svara.