Útflutningssjóður tónlistar

Kosningar nálgast óðfluga og með þeim skemmtilegar hugmyndir sums fólks um hvernig peningum annarra skyldi eytt. Sú nýjasta er stofnun sjóðs til aðstoða íslenska tónlistarmenn við að koma sér á framfæri erlendis.

Nú skal það viðurkennt að hugmyndin er hvorki sú dýrasta né heimskulegasta ef horft er til þess hvaða fyrirbæri sem Ríkið hefur hingað til styrkt til að vera flutt úr landi. Upphæðirnar sem um ræðir yrðu til dæmis áreiðanlega ekki háar miðað við þær krónur sem íslenskir þegnar eyða til að sannfæra sjálfa sig um að þeirra landbúnaðarvörur séu betri en aðrar. Né heldur yrði hugmyndin úr takti við þann vana opinbera stofnana starfsmanna að nota peninga almennings til að kaupa listaverk eftir kunningja sína fyrir fleiri milljónir króna.

En peningaeyðsla getur ekki talist rök fyrir meiri peningaeyðslu. Engin venjulegur maður hugsar: “Ég er búinn að eyða svo miklum peningum í áfengi að ég þyrfti að byrja reykja.” Þess vegna líst mér illa á hugmyndina. Ég geri þær kröfur að ríkið noti peninga í það sem sé nauðsynlegt. Heilbrigðisþjónusta er nauðsynleg. Sjóður sem á að styðja við bakið við útflutningi á íslenskri tónlist er það ekki.

Eða hvernig er það? Ég veit ekki betur en að íslenskum tónlistarmönnum hafi hingað til tekist að koma sér á framfæri erlendis þrátt fyrir skort á sérstökum útflutninssjóðum. Björk, Sigur Rós og Quarashi er sönnun þess. En er þessi árangur kannski aðeins skuggi af því sem hefði orðið er sjóðsins hefði notið við.

Hefði Selma kannski meikað það hefði útflutningssjóðurinn verið til staðar? Væru Mezzoforte á barmi heimsfrægðar ef sjóðsins hefði notið við? Mundu Bubbleflies fá lag í Trainspotting með stuðningi hans? Ég leyfi mér að efast…

Ég held að allir áhugamenn um umræddan sjóð geta viðurkennt að það er á engan hátt ”lífsnauðsynlegt” fyrir íslenskt samfélag að hann verði til. Það gæti hugsanlega orðið “gaman” eða “heppilegt” en ekki ómissandi. Af þeim ástæðum ætti hann ekki að vera á framfærslu hins opinbera.

Auðvitað er það kjörið að íslenskir tónlistarframleiðendur tækju höndum saman til að styrkja innlenda framleiðslu og útflutning hennar. Ef að Ríkið vill styrkja þá í þeirri viðleitni getur það gert það með afar einföldum hætti. Lækkað skatta. Þar með munu tónlistarbransinn hafa meiri pening milli handanna og getur notað hann til að styðja við bakið á þeim listamönnum sem talið er að geti náð vinsældum. Úthlutanir úr ríkisreknum sjóðum eru alltaf umdeildar enda efast margir (eðlilega) um dómgreind stjórnmálamanna. Slíkar úthlutanir eiga það því miður oft til að stjórnast af öðru en gæðum fjárfestingar, enda menn ekki að fjárfesta sínu eigin fé og geta því horft fram hjá slíkum smámunum.

Það svo annað mál að þetta nöldur mitt muni ekki skila miklu nema kannski ásökunum um skammsýni og bréfum frá fólki sem telur að “maður lifi ekki á brauðinu einu saman”. Yfirgnæfandi líkur virðast á því að útflutningssjóður tónlistarlífsins taki til starfa innan skamms alveg óháð þessum skrifum. Ég verð því að takmarka ósk mína um að þingmennirnir haldi að sér höndum við eyðsluna og fari ekki á dæmigert kosningafyllerí.

Þversögn?

Mörgum þykir skemmtilegt að benda öðrum á þverstæður í lífinu. Sögur af ósyntum sunlaugarvörðum og reykjandi læknum þykja kærkomin viðbót við raunveruleikann. Margir brandarar birtast einnig í formi þversagna t.d. þegar reykingar eru bannaðar á botni sundlaugar.

Margir sem taka til máls í máli og riti fara á sannkallaðar þverstæðuveiðar máli sínu til stuðnings. Nú má til dæmis oft heyra því fleygt fram að fáranlegt sé að Rauði kross Íslands reki spilakassa og ágóði úr þeim sé síðan notaður til að hjálpa fólki. Það sem á að vera svona fáranlegt er að sumt af þessu fólki eru spilafíklar sem telja kassana vera aðalástæðu eymdar sinnar.

Ég sé einfaldlega ekki hvað sé þversagnakennt eða slæmt við þetta. Væri betra ef að Rauði krossinn mundi passa sig á því að styrkja allt nema aðstoð við spilafíkla til að forðast það að vera sakaður um hræsni? Er það virkilega einhver þversögn fólgin í því að hjálpa fólki sem skaðast af starfsemi manns? Ég get ekki séð að svo sé.

Margir hafa að undanförnu gagnrýnt þessa starfsemi Rauða krossins og Háskólans. Fólki blöskrar til dæmis hve miklum peningum unglingar virðast eyða í kassana. Þó að RKÍ og Háskólinn hljóti að bera ábyrgð á því hvaða áhrif tækin hafa á viðskiptavini þeirra má heldur ekki gleyma ábyrgð unglinga, foreldra og eigenda söluturna. Það eru, jú, þau öll sem eru að brjóta lögin, ekki Rauði krossinn.

Í frjálsu þjóðfélagi ætti fólki að vera heimilt að eyða peningum sínum í vitleysu. En slíku frelsi verður auðvitað að fylgja ábyrgð. Ef að fólk vill koma í veg fyrir að fólk ánetjist spilakassana eins og eiturlyf er áreiðanlega hægt að gera það með öðrum hætti en þeim að banna þá. Það er til dæmis örugglega hægt að koma í veg fyrir að börn undir aldri spili í spilakössunum með öflugu átaki þeirra sem að þeim standa. Einnig ættu foreldrar að geta axlað smá ábyrgð í stað þess að velta henni sífellt yfir á aðra.

Kosningar til Alþingis

Stjórnarskrá Íslands var formlega breytt eftir seinustu kosningar og ný kosningalög voru sett. Tilgangurinn með breytingunum var, eins og svo oft áður, að jafna atkvæðavægi. (Sumir segja að á Íslandi sé eini hvatinn að baki stjórnarskrárbreytingum að minnka völd Framsóknarflokksins.)

Hin nýja 31. grein Stjórnarskrár hljóðar svo:

[…]Kjördæmi skulu vera fæst sex en flest sjö. Mörk þeirra skulu ákveðin í lögum, en þó er heimilt að fela landskjörstjórn að ákveða kjördæmamörk í Reykjavík og nágrenni. Í hverju kjördæmi skulu vera minnst sex kjördæmissæti sem úthluta skal á grundvelli kosningaúrslita í kjördæminu.[…]Öðrum þingsætum en kjördæmissætum skal ráðstafa í kjördæmi og úthluta þeim til jöfnunar milli stjórnmálasamtaka þannig að hver samtök fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu sína. Þau stjórnmálasamtök koma þó ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa minnst fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu. Ef kjósendur á kjörskrá að baki hverju þingsæti, að meðtöldum jöfnunarsætum, eru eftir alþingiskosningar helmingi færri í einu kjördæmi en einhverju öðru kjördæmi skal landskjörstjórn breyta fjölda þingsæta í kjördæmum í því skyni að draga úr þeim mun.[…]“

Um framkvæmd kosninga gilda síðan sérstök lög. Samkvæmt núgildandi kosningalögum er gert ráð fyrir 6 kjördæmum, þremur 11 manna kjördæmum á höfuðborgarsvæðinu og þremur tíu manna á landsbyggðinni. Með þessu eru þingmenn höfuðborgarsvæðisins í fyrsta skipti komnir í meirihluta á Alþingi. Það lítur reyndar allt út fyrir að færa þurfi einn þingmann frá Norðvesturkjördæmi til Suðvesturkjördæmis (sveitarfélög umhverfis Reykjavík) en menn á kjörskrá að baki hverjum þingmanni Norðvesturkjördæmi eru nú helmingi færri en í Suðvesturkjördæmi. Það er hér við hæfi að hrósa löggjafanum hér fyrir að hafa búið til tiltölulega sveigjanlegt kerfi sem getur lagað sig að breyttu búsetumynstri á skömmum tíma en ekki þarf lagabreytingu til að samþykkja umrædda tilfærslu. Eini ókosturinn sem má sjá er að ef einhvern tímann þarf að færa þingmann í annað hvort Reykjavíkurkjördæmanna þá verða kjördæmin tvö ekki lengur með jafnmarga þingmenn og munu því ekki lengur geta verið „jafnstór“ eins og gert er ráð fyrir. En úr þessu má væntanlega leysa.

En þá að úthlutun þingsæta. Fyrir breytingar var notast við svokallaða „reglu hinna stærstu leifa“. Þar var fjöldi kjósenda bak við hvert þingsæti fundinn út og þeirri tölu deilt upp í atkvæðafjölda hvers framboðs. Þau þingsæti sem upp á vantar koma í hlut framboða með stærsta afganginn af deilingunni. Oft geta það verið framboð sem hafa fengið tiltölulega fá atkvæði, sérstaklega ef margir eru í framboði. Tökum dæmi:

Í kjördæmi með 10 þingmenn fær A 8300 atkv., B 1300 og C 400 atkv. Fjöldi atkvæða á hvert þingsæti er 1000. A fær því 8, B fær 1 og C fær 0. En C er með stærstu leifina, þ.e. 400 á meðan að hinir eru báðir með leifar upp á 300 atkv. svo C fær að auki eitt þingsæti.

Aðferðin sem héðan í frá verður notast við kallast heiltöludeiling. Þar er tölunum 1,2,3… deilt í atkvæðafjölda hvers framboðs. Hæsta talan í töflunni táknar fyrsta þingmann kjördæmis, næsthæsta annan o.s.frv. Í dæminu hér að ofan fengi A því sinn níunda þingmann á kostnað C því 8300/9=922,22… sem er stærra en 1300/2=650 (annar þingmaður B) eða 400/1=400 (fyrsti þingmaður C). Almennt má því segja að heiltöludeiling henti betur stórum framboðum og minnki t.d. töluvert möguleika hvers kyns sérframboða.

Heiltöludeilingin er ekki það eina sem minnkar möguleika minni stjórnmálaflokka. Íslendingar hafa fengið að láni svo kallaða 5% reglu sem notuð er víða í Evrópu. Samkvæmt hennar íslensku útgáfu eiga framboð aðeins rétt á uppbótarþingmönnum hafi þau fengið 5% atkvæða á landsvísu. Þessu regla er oftast notuð á mjög stórum þjóðþingum sem annars myndu fyllast af hvers kyns smáframboðum en hennar er varla þörf hér. Eðlilegra væri að miða við einn kjördæmakjörinn þingmann eins og áður eða einhverja samblöndu af hvoru tveggja.

Annars er úthlutun uppbótarþingmanna ekki svo skelfilega flókin. Fyrst er farið að sem landið væri eitt kjördæmi og fundið út með heiltöludeilingu hvaða framboð eigi að fá næsta mann inn. Síðan er fundin sá einstaklingur úr því framboði sem næstur er því að komast inn og honum úthlutað þingsæti. Þá er aftur fundið hvaða framboð eigi rétt á næsta manni og svo koll af kolli. Ókosturinn er að seinustu þingmennirnir sem ná inn kunna hafa fengið fá atkvæði í sínu kjördæmi en það er engin önnur leið til jafna vægi atkvæða án þess að koma á landslistum. Einnig geta litlar breytingar á fylgi haft það för með sér að þessir öftustu menn „detti oft inn og út“ fram eftir nóttu sem fær marga til að halda að kerfið sé tilviljunum háð. Svo er hins vegar ekki. Það er til dæmis alltaf gott fyrir þingmann ef einhver kýs hann og slæmt ef einhver kýs andstæðingin. Uppbótarþingmannakerfið breytir því ekki.

Hinar nýju breytingar á kosningum til Alþingis eru upp til hópa vel unnar. Nú er bara að sjá hvort hið nýja fyrirkomulag nái að festa sig í sessi eða hvort því verður breytt aftur áður en langt um líður.

Misheppnuð skyndikynni

Útliti DV var nýlega breytt í takt við breytingarnar á íslenskum dagblaðamarkaði sem áttu sér stað með tilkomu mánudagsmoggans. Enn fremur mun blaðið hér eftir koma út um hádegi á mánudögum en ekki um morguninn eins og áður var. Það stafar af því að DV er prentað í prentsmiðjum Morgunblaðsins en ritvélarnarnar þar eru nú uppteknar við að prenta Moggann á mánudagsmorgnum. Um útlitsbreytingarnar verður ekki fjallað hér, þær eru væntanlega enn ein tilraun blaðsins til að finna sig á markaðnum eftir tilkomu Fréttablaðsins.

Hápunktur þessa tölublaðs DV, ef frá er talin fyrirsögnin „Fertugir offitusjúklingar deyja fyrr en aðrir“, er án efa skoðankönnunin þar sem Samfylkingin mælist í fyrsta skipti með meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn. Eitthvað hafa blaðamenn DV orðið æstir yfir þessum niðurstöðum og dottið í slíkan fyrirsagnaham að hæfileiki þeirra til að leggja saman heilar tölur beið skaða af.

Ef að þingmannafjöldi bak við hvert framboð er reiknaður út kemur í ljós að Samfylkingin mundi fá 26 þingmenn, Sjálfstæðisflokkurinn 24, Framsóknarflokkurinn 8, Vinstri-Grænir 5 en Frjálslyndi flokkurinn nær ekki 5% lágmarksfylgi og fær því engan. Af þessu telur DV að „ljóst sé“ að meirihlutinn sé fallinn. Stöldrum nú aðeins við. Stjórnin fær 24+8=32 en minnihlutinn fær 26+5=31. Það er því ljóst að stjórnin heldur velli þvert á ályktun DV. Það stafar af þeim dulræna eiginleika tölunnar 32 að hún er stærri en talan 31.

Það er alveg ótrúlegt að „alvörublað“ skyldi gera slík mistök. Það sem verra er að ég sá þau aldrei leiðrétt. Menn hljóta að spyrja sig hvort að fólk sem kann ekki að leggja saman tveggja stafa tölur eigi yfirleitt að sjá um að framkvæma skoðanakannanir. Svarið við slíkri spurningu hlýtur að vera nei. DV hefur greinilega ekki mannskap eða þekkingu til að framkvæma slíkar kannananir ef að stærðfræðikunnátta sem krafist er af 8 ára börnum er þeim ofviða. DV hefur oft áður gert mistök við túlkun slíkra úrslita. Fyrir skömmu reiknuðu þau Ingibjörgu Sólrúnu inn í þingsæti þrátt fyrir að hún hafi verið sú ellefta inn en aðeins 9 þingmenn eru kjördæmakjörnir. Þar fyrir utan virðist DV ekki átta sig á nú er þingsætum úthlutað eftir annarri aðferð en áður (heiltöludeiling í stað reglu hinna stærstu leifa) svo Ingibjörg hefði líklegast ekki náð inn hvort sem er.

Menn ættu að halda sig við það sem þeir hafa vit á. Stærðfræðilegir hæfileikar blaðamanna DV gefi ekki til kynna að þar á bæ hafi menn þekkingu til að framkvæma skoðanakannanir. Þessi kynni mín á DV seinustu viku voru ekki til að auka traust mitt á blaðinu. Frekar má segja að um misheppnuð skyndikynni hafi verið að ræða.

ESB-árið

Á fundi ESB ríkja í Kaupmannahöfn 13. desember var ákveðið að bjóða tíu ríkjum að ganga inn í sambandið frá 1. maí 2004. Þetta voru Eystrasaltslöndin, Eistland, Lettland og Litháen; Pólland, Tékklandland, Slóvakía, Ungverjaland, Slóvenía, Malta og Kýpur. Rúmenía og Búlgaría eru aftar í biðröðinni og almennt talið raunhæft að þau geti fengið inngöngu árið 2007 á meðan að Tyrkir þurfa að bíða enn um sinn eftir að formlegar aðildarviðræður hefjist.

Af þeim tíu tilvonandi aðildarríkjum sem geta hlotið inngöngu í fyrstu lotu stækkunar hafa hafa öll nema eitt, Kýpur, ákveðið að leggja inngöngu undir dóm þjóðarinnar. Líklegt er að Malta ríði á vaðið. Upphaflega stóð til að kjósa jafnvel í janúar en nú þykir mars líkleg dagsetning.

Ákvörðun dagsetningar er nefnilega fjarri því að vera einungis tæknileg ákvörðun heldur getur hún haft, a.m.k. að mati stjórnmálamanna, töluverð áhrif á niðurstöður kosninga. Þannig hafa þau ríki þar sem stuðningur hefur mælst hár að undanförnu reynt að setja niður atkvæðagreiðslurnar tiltölulega snemma á árinu og vonast þannig eftir stuttri kosningabaráttu með minni hættu á (óhagstæðum) fylgissveiflum. Á hinn bóginn hafa ríki þar sem stuðningur hefur mælst lágur reynt að fresta sínum þjóðaratkvæðagreiðslum fram á haust með von um að röð sigra Evrópusinna yfir vor- og sumarmánuðina gefi baráttunni heima byr undir báða vængi.

Upphaflega stóð til dæmis til að Eystrasaltsríkin myndu hafa samráð um ESB-kosningar og áttu þær að fara fram í águst. Hins vegar hefur stuðningur við ESB-aðild í Litháen verið töluvert meiri að undanförnu en í hinum tveimur og hafa Litháir af þeim ástæðum flýtt sínum kosningum til 11. maí. Eistar hyggjast kjósa 14. september, sama dag og Svíar greiða atkvæði um Evruna en Lettar munu ganga að kjörborðinu sex dögum síðar, 20. september.

Vysehrad-löndin, Pólland, Tékkland, Slóvakía og Ungverjaland höfðu ákveðið að hafa samráð um atkvæðagreiðslurnar, þ.a. fyrst sé kosið í því ríkinu með mestan ESB-stuðning og svo koll af kolli. Það samkomulag virðist ætla að halda. Ungverjar munu kjósa 12. apríl, Slóvakar 5.-6. júní, Pólland hefur ekki ákveðið dagsetninguna en 8. júní þykir líklegur og Tékkar ganga að kjörborðinu dagana 15.-16. júní.

Mestu áhyggjur stjórnvalda í Póllandi og Tékklandi felast ekki í því að ekki sé nægjanlegur stuðningur fyrir aðild heldur að kosningaþátttaka verði ekki næg. Áhugaleysi kjósenda hefur verið mikið vandamál í þeim löndum á undanförnum árum, kosningaþátttakan í Póllandi oftast rétt slefar yfir 40%. Til að auka hana hafa Tékkar ákveðið að kjósa tvo daga í röð og Pólverjar hafa verið að gæla við sömu hugmynd. Þá hefur jafnvel verið nefndur sá möguleiki að hafa kjörstaði opna í 48 tíma samfleygt til að fólk sem vinnur um helgar eigi auðveldara með að kjósa. Margir hafa þó lagst gegn þeirri hugmynd því þeir óttast að kosningasvik geti átt sér stað í skjóli nætur.

Í öllu falli er ljóst að næsta ár verður mjög spennandi fyrir álfuna alla og fróðlegt verður að fylgjast með hvaða áhrif úrslit þjóðaratkvæðagreiðslna í A-Evrópu munu hafa á Evrópuumræðuna hér á landi.