Gaman að drepa?

Það var eitt sem sló mig þegar ég fylgdist með fréttamyndum úr Afganistanstríðinu. Sýnd var upptaka innan úr bandarískri sprengjuþotu. Allar sprengjurnar voru útkrotaðar með myndum og skilaboðum hermanna. Við sem í einfeldni okkar viljum oft trúa að Vesturveldin hái stríð á einhvern göfuglyndari hátt en „villimennirnir“ hljótum að hugsa okkar gang þegar við sjáum slíkar myndir.

Sá sem telur að skilaboð á borð við „DIE SUCKERS“ séu nauðsynlegt skraut á Daisy Cutter sprengju er ekki bara smekklaus. Hann er ógeðslegur. Skilaboðin sýna að manndráp eru ekki aðeins atvinna hans, þau eru hans yndi. Hann hefur unun af þeim. Þess vegna persónugerir hann manndrápin með því að bæta við stuttri orðsendingu ofan á öll megatonnin.

Annað atriði er að menn bera aldrei virðingu fyrir lífi óvinahermanna. Ljósið beinist alltaf að falli meðal óbreyttra borgara eingöngu. Ég veit ekki einu sinni hve margir júgóslavneskir hermenn dóu í seinasta stríði. Menn í herbúningi virðast ekki hafa neinn rétt til lífs. Þegar Júgóslavía gafst upp í kjölfar mikils mannfalls innan hersins sagði Jamie Shea að NATO hafi „burstað þá“.

Vissulega eru hermenn á einhvern hátt „lögmætari“ skotmörk en varnarlaust fólk. En sem talsmaður einstaklingsfrelsis get ég ekki fallist á það að maður sem önnur ríkisstjórn hefur þvingað til að berjast sé sjálfkrafa orðinn réttindalaus skotskífa og fráfall hans orðið eitthvað til gorta sig af og hæðast.

Skilaboðin eru skýr. Stríð eru „kúl“. Það er ekki bara ill nauðsyn að drepa fólk. Það er gaman. Nýlega sá ég myndir frá hernaðaræfingum Bandaríkjahers í Kúveit. Þar hafði einhver málað „ALL THE WAY TO BAGDAD“ á hlaupið og eflaust fundist það gríðarlega kúl.

Í hernum heyrir fólk undir annað fólk. Þeir yfirmenn sem leyfa hermönnum sínum að skemmta sér við morð eru sjálfir að skemmta sér við morð. Sömuleiðis yfirmenn þeirra sem láta slíkt viðgangast. Svona má reka sig upp eftir öllum tignum og stöðum hersins – alla leið til Forsetans.

Allt þetta fólk virðist sem sagt hafa gaman að því að drepa.

Stríðsástandið í Póllandi

Allt árið 1980 höfðu stjórnvöld Póllands smám saman verið að missa tökin á ástandinu í landinu. Pólskur efnahagur var í molum og verðhækkanir í júnímánuði vöktu af sér mikla öldu óánægju og verkfalla. Starfsfólkið krafðist krafðist afnáms ritskoðunar, leyfis til að stofna frjáls verkalýðsfélög, launahækkana, verðlækkana o.fl.

Stjórnin ákvað að koma til móts við margar af kröfum fólksins. Þannig var óháða verkalýðsfélagið „Samstaðan“ skráð formlega þá um haustið og samnefnt vikublað hóf göngu sína á svipuðum tíma. Margir verkalýðsforingjar litu á þetta sem veikleikamerki af hálfu ríkisstjórnarinnar og fóru að setja fram nýjar kröfur.

Hins vegar hvöttu margir menntamenn úr hópi stjórnarandstöðunnar fólk til að sýna skynsemi. Þá þegar voru stjórnvöld í Moskvu farin að krefjast þess af Pólverjum að komið yrði lögum yfir „andbyltingarsinna“ í landinu. Þá hófu ríki Varsjárbandalagsins hafið undirbúning að innrás inn í landið. Frekari tilslakanir stjórnvalda mundu aðeins auka líkur á sovéskri innrás, en slíkt væri engum til góðs.

Þann 13. desember 1981 var lýst yfir stríðsástandi í landinu þrátt fyrir að engin hafði ráðist inn í það. „Neyðarástand“ var nefnilega ekki skilgreint í Stjórnarskránni. Verkföll voru laminn niður með valdi, um 70 manns létu lífið og 50 þús. voru fangelsuð. Sjónvarpið flutti aðeins fréttir og þjóðrernissinnaðar stríðsmyndir. Slökkt var á símum. Óheimilt var að ferðast út fyrir bæjarmörk án leyfis. Öll miðstjórn Samstöðunnar var fangelsuð.

Stríðsástandið varði í eitt og hálft ár en margar frelsisskerðandi tilskipanir voru ekki afnumdar fyrr en mörgum árum síðar.

Í heildina mörkuðu stríðslögin þó upphaf á enda kommúnismans. Flestir forustumenn Samstöðunnar héldu áfram að berjast gegn alræðinu þegar þeim var sleppt. Engin þeirra var t.d. tekinn af lífi fyrir landráð eða neitt svoleiðis. Samstaðan var jafnvel fyrir formlega skráningu komin með um 3 milljónir félagsmanna. Mest urðu þeir 10 milljónir þar af 1 milljón sem einnig voru félagar í Kommúnistaflokknum. Hún var einfaldlega of sterk fyrir stjórnvöld til að ráða við.

Í lok níunda áratugarins fóru svo fram hringborðsumræður milli stjórnar og stjórnarandstöðu sem leiddu af sér frjálsar kosningar, umbætur í átt til frjáls markaðskerfið og langþráð lýðréttindi. Pólska alþýðulýðveldið hætti að vera til og í staðinn varð til Lýðveldið Pólland.

Hið pólitíska svið Póllands mótast enn í dag að stórum hluta af atburðunum fyrir tveimur áratugum síðan. Vinstrimenn koma flestir úr röðum fyrrverandi kommúnista en hægrimenn úr röðum Samstöðunnar. Það eru auðvitað frekar skrýtnir hægrimenn sem eiga rætur sínar að rekja til verkalýðsfélags. Pólska stjórnmálasviðið er því skipt eftir sögulegum forsendum og því miður er enn sjaldgæft að menn úr fylkingunum tveimur geti starfað saman. Vonandi styttist þó í það að á sviðið stigi menn sem geti starfað með öðru fólki á málefnalegum forsendum en ekki eftir pólitískum víglínum vonds ríkis sem sem betur fer er hætt að vera til.

Strákarnir í Heimdalli

Af Söguvef Heimdallar á Frelsi.isÞað er ekki skoðun undirritaðs að það eigi vera takmark með jafnréttisbaráttu að hlutföll milli kynjanna séu alls staðar og ávallt jöfn. Hlutföllin eru fyrst og fremst mælikvarði á framgang jafnréttisbaráttunnar. Ef við göngum út frá því að kynin séu jafnhæf til að gegna ákveðnu starfi þá má rökstyðja að þegar ráðið er í störf eftir hæfni eingöngu eru mestar líkur á að hlutföll milli kynjanna verði jöfn. Þetta virkar hins vegar ekki í hina áttina, jöfn hlutföll tryggja okkur ekki sjálfkrafa hæfasta starfsliðið. Þar liggur villan hjá þeim sem hallast að hvers kyns kynjakvótum. Kynjakvótar ráðast á mælikvarðann en ekki á vandamálið sjálft. Þetta er svipað og maður með hita mundi fikta við hitamælinn í stað þess að leggjast í rúmið.

Í prófkjörinu tóku þátt sjö einstaklingar sem talist geta til ungliða. Þar af voru fjórir karlmenn og þrjár konur. Allir ungu karlmennirnir lentu á undan ungu konunum þremur. Allir. Nú segi ég ekki að óhugsandi sé að þeir hafi allir verið hæfari til þingsetu en konurnar en það er hins vegar ólíklegt út frá tölfræðilegu sjónarhorni.

Maður á auðvitað erfitt með að trúa því að einhver hafi verið að kjósa Sigurð Kára vegna þess að hann sé karlmaður. Hins vegar er hægt að fullyrða að allir karlmennirnir hafi verið þekktari andlit, ef svo má segja, og t.d. of komið fram fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í fjölmiðlum. Vandamálið snýst því ekki endilega um hvort menn hafi verið að kjósa besta fólkið á kjördag heldur almennt um hver staða ungra kvenna innan Heimdallar sé.

Málgagn Heimdallar heitir frelsi.is. Hve margar konur eru taldar upp sem „frelsispennar“ á því vefriti? Ein! Síðast birti hún grein í júní 2001. Ef til vill er listi yfir pennana ekki tæmandi en í öllu falli er liðið eitt og hálft ár síðan að kona fékk að birta pistil á vefriti ungmennafélags stærsta stjórnmálaflokksins í stærstu borg landsins.

Hins vegar er ekki svo að hægristefna höfði almennt illa til ungra kvenna. Fjölmargar konur starfa til dæmis innan Vöku, sem er hægra megin við andstæðinga sína, samtök félagshyggjufólks, í stúdentapólitíkinni, og einnig eru nokkrar stelpur sem halda uppi vefritinu Tíkinni. Það er því ekki eins og það almennt vanti hægrisinnaðar konur á Íslandi. Vandamálið er að kraftar þeirra eru ekki nýttir. Konur skrifa ekki á Frelsi, konur eru ekki sendar í fjölmiðla sem málsvarar félagsins.

Það er ágætt að hægrisinnaðar konur haldi uppi eigin vefriti. Í stórum flokki er eðlilegt að til verði minni fylkingar, hver með sínar áherslur. En þá er það hlutverk móðurfélagsins að hafa breiðari skírskotun og höfða til allra félagsmanna. Heimdallur virkar hins vegar eins og ein slíkra minni fylkinga en ekki félag allra ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Ég bendi til dæmis á grein eftir Sigurð Guðmundsson sem birtist á Frelsinu stuttu fyrir prófkjörið:

Við þurfum meira af ungu fólki á Alþingi enda treysti ég engum betur til að gera vel við námsmenn. Birgir Ármanns fer í 6. sæti, Sigurður Kári Kristjánsson í 7. sæti, og Ingvi Hrafn í 8. sæti. Allt toppmenn.

Það er ótrúlegt að málgagn Heimdellinga skuli lýsa stuðningi við „strákana sína“ svona stuttu fyrir kjördag. Ekki var minnst á ungu konurnar sem einnig tóku þátt í prófkjörinu.

Vandamálið er að Heimdallur virkar sem frekar lokaður klúbbur fólks með sérstakan áhuga á frjálshyggju, ESB-andstöðu og velferð Repúblikanaflokksins. Aðrar skoðanir rúmast ekki þar inni eins og sjá má á Frelsisgreinum undanfarinna missera sem hafa verið með eindæmum einhæfar. Félagið skortir breiðari skírskotun en í dag virkar það eins og hálfgert leynifélag. Bág staða ungra kvenna er ein birtingarmynd þess.

***Athugasemd***
Deiglunni hefur borist athugasemd er varðar efni þessa pistils. Í pistlinum er sagt að einungis einn pistill hafi birst eftir konu á síðustu átján mánuðum. Hið rétta mun vera að þeir séu þrír.

Ritstj.

Hrun kommúnismans

Það er gaman að ræða við róttæka vinstrimenn um líf mitt hinum megin við Járntjaldið. „Þetta hlýtur að hafa verið ömurlegt,“ segja þeir skilningsríkir. „En hvernig lýðræði búum við við hér á Vesturlöndum?“ spyrja þeir svo heimspekilega og hella sér út í auðhringaeintalið. Þetta er svipað og maður sem situr að snæðingi á Hótel Borg og útskýrir að hungur sé afstætt, það sé hugarástandið sem ráði hvort okkur finnist við svöng. Aðrir vinstrimenn kunna betur að meta okkar vestræna lýðræði en misskilja þá í staðinn ástæður hrunsins. Í grein eftir Sverri Jakobsson sem birtist á Múrnum þann 19.11 síðastliðinn má meðal annars finna þessa setningu:

[…]“Hrun kommúnismans“ í Austur-Evrópu var fyrst og fremst gjaldþrot lögregluríkis sem byggt var á flokksræði.[…]

Þetta er frekar algeng skoðun meðal sósíalista á Vesturlöndum. Það má skilja sem svo að ástæðan fyrir því að „sósíalisminn“ gekk ekki upp sé sú að ríkisstjórnir landanna hafi verið verið harðstjórnir sem virtu ekki mannréttindi. „Það sem gerðist í A-Evrópu var ekki sósíalismi, þetta var fasismi,“ segja menn gjarnan við mig.

Hvað var það nákvæmlega sem var svona gríðarlega „ósósíalískt“ við þessi ríki? Tökum Pólland sem dæmi. Öll menntun var ókeypis. Öll læknisþjónusta var ókeypis. Launamunur var ekki mikill. „Hvort hann stendur eða hvílir, þúsund zloty á hann skilið,“ var gjarnan sagt. Fólk borgaði ekki tekjuskatt því ríkið var hvort sem er næstum því eini vinnuveitandinn. Rafmagn var framleitt í ríkisreknum raforkuverum. Bílar voru framleiddir í ríkisreknum bílaverksmiðjum. Víða um sveitir var komið upp ríkisreknum samyrkjubúum. Þessar stofnanir áttu að sjá um að framleiða nauðsynjavörur fyrir almenning og greiða arð til ríkissjóðs.

Nú er það vissulega rétt að hluti hrunsins skrifast á hið áðurnefnda lögregluríki. Það er hins vegar ekki rétt að segja að skortur á málfrelsi og félagafrelsi hafi verið aðalástæðan. Það er sér í lagi afar villandi að halda því fram að umrætt hrun hafi „fyrst og fremst“ snúist um þessi lýðréttindi, eða skort á þeim.

Það sem hinn dæmigerða Pólverja dreymdi um á tímum kommúnismans var að klæðast gallabuxum, drekka kók, aka um á vestrænum bíl, eiga gervihnattadisk og geta keypt Lego-kubba handa börnunum. Það er fyrst og fremst þetta sem hinu miðstýrða markaðshagkerfi láðist að uppfylla. Bann við umfjöllum um einstaka þætti þjóðlífsins er kannski íþyngjandi fyrir blaðamenn og sögukennara en snertir ekki svo mikið hinn venjulega verkamann.

Þeir Pólverjar sem flúðu til Bandaríkjanna gerðu það sjaldnast til að gerast dálkahöfundar eða skáld. Flestir urðu „bara“ venjulegir launamenn og gátu farið að drekka kók og ganga í Levi’s buxum. Ég get nefnilega fullyrt af minni eigin reynslu að það sem Pólverjum fannst best við Vesturlönd og kapítalisma var það hversu miklu flottara allt var fyrir vestan. Flottari flugvellir, flottari búðir, flottari bílar.

Það sem orsakaði hrunið var því „fyrst og fremst“ einmitt hið miðstýrða markaðshagkerfi sem gat ekki tryggt fólki sama vöruúrval og í ríkjum kapítalismans. Hjá okkur voru allir bakpokar rauðir, öll tjöld gul, allar lestir brúnar og öll húsin grá. Skortur á lýðréttindum átti auðvitað líka sinn þátt en hann var ekki aðalatriðið.

Það er hins vegar skiljanlegt að sósíalistar á Vesturlöndum eigi erfitt að sætta sig við þessar staðreyndir. Þeir eiga erfitt með að sætta sig við að Hrunið sannaði einmitt óskilvirkni miðstýrðs markaðar. Slíkt væri erfiður biti að kyngja fyrir fólk sem telur enn að Ríkið sé á mörgum sviðum færara en einstaklingarnir til að veita þjónustu, ekki bara menntun og heilbrigðisþjónustu, heldur einnig verslun og bankaþjónustu.

Því beina þeir athyglinni frá þeim efnahagslega boðskap atburðanna fyrir 13 árum síðan og gera aðalástæður hrunsins aðrar en þær sem fólkið í þessum löndum hafði. Ég er, enn og aftur, ekki að segja að mannréttindi hafi ekki skipt neinu máli í baráttunni við kommúnismann en þær voru ekki aðalástæðan fyrir hruninu. Það var hið miðstýrða markaðshagkerfi sem gat ekki uppfyllt væntingar neytenda.