Maígabb

Það er vissulega ánægjulegt að tímasetning stækkunar sé kominn á hreint. Þó að Evrópusambandið sé oft hlægileg stofnun þá þýðir innganga Austur-Evrópuþjóða í flestum tilfellum skref í átt til frjálsræðis fyrir umræddar þjóðir. Ég hef áður fjallað um ESB-andstöðuna í Póllandi í pistli mínum “Tvær hliðar ESB andstöðu” hér á Deiglunni. Þótt að andstæðingarnir komi oft vel fyrir með slagorðum á borð við “allan heiminn sem markað” eru þeir oftast bara venjulegir þjóðernissinnar. Þar sem þeir menn komast til valda er fyrsta verk þeirra að planta krossum í allar skólastofur en ekki að auka frelsi í viðskiptum. Frjálshyggjurökin gegn stækkun eru notuð á alþjóðlegum ráðstefnum, í samskiptum við almenning nota menn heldur bara gamla góða þjóðrembinginn.

Nú hafa andstæðingar ESB í Póllandi fengið vænan pakka frá framkvæmdarstjórninni. Þó að ég hafi leitað vel í dagatalinu tókst mér ekki að finna neina mögulega verri dagsetningu fyrir stækkun sambandsins. Hugsanlega hefði verið óheppilegt að stækka sambandið á Hrekkjavöku. Fyrsti apríl væri ef til vill heldur ekki besti kosturinn, því það gæti orðið uppspretta mjög lélegra brandara í fréttatímum álfunnar á þeim degi. Föstudagurinn langi gæti lagst illa í sumar kristnari þjóðir og afmæli októberbyltingarinnar mundi eflaust vekja blendnar tilfinningar. En ég held að engin dagur slái verkalýðsdeginum við.

1. maí er í Póllandi mjög sérstök götuslagsmálahátíð. Dæmigerð atburðarás dagsins er eftirfarandi: Fyrir hádegi safnast hægrisinnaðar og vinstrisinnaðar verkalýðshreyfingar hver á sínum stað. Vinstrimenn á torgum og í kröfugöngum en hægrimenn í kirkjum. Fáir vita að fyrsti maí er einnig hátíðardagur kaþólsku kirkjunnar. Þá er nefnilega “messa heilags Jósefs verndara verkamanna”. Upp úr hádegi kemur að því að ungir jaðarhægrimenn reyna að koma í veg fyrir að fyrrverandi kommúnistar geti lagt blómsveig að Leiði hins óþekkta hermanns í Varsjá. Beita þarf lögregluvaldi.

Eftir hádegi kemur til átaka milli friðarsinna og kristinnar æsku. Ungir þjóðernissinnar henda flöskum í unga sósíalista. Þeir svara fyrir sig. Og svona langt fram á nótt. Atburðarásin er síðan endurtekin á þjóðhátíðardeginum 3. maí sem orðinn svona “annar í fyrsta maí” dagur.

Nú er erfitt að sjá hvernig hægt verði að koma fyrir hátíðarhöldum í tilefni af inngöngu Póllands í ESB í jafn þéttsetna dagskrá. Það hefði auðvitað bara verið langbest að stækka sambandið 1. janúar 2004. Fólki finnst eðlilegt að stórar breytingar eigi sér stað á nýju ári. Að auki eru allir vinir á þeim degi, menn lyfta upp glösum og skála fyrir framtíðinni og það er of kalt fyrir hópslagsmál.

Ástæða frestunar er víst sú að inngöngusáttmálinn þarf að vera samþykktur í öllum núverandi ESB ríkjum og slíkt tekur tíma. Í Belgíu þarf hann til dæmis að fara í gegnum 7 mismunandi þing, meðal annars þing þýska minnihlutans. Mér finnst hins vegar skárra að láta belgíska þingmenn missa af kaffinu sökum anna heldur en að sitja upp með dagsetningu sem er umdeild og margir Austur-Evrópubúar eiga erfitt með að sætta sig við sem hátíðarstund.

Leave a Reply

Your email address will not be published.