Að kjósa ekki

Ef að kosning um framtíðarskipulag Geldinganess færi fram í dag hefði ég ýmsar ástæður til að kjósa ekki. Til dæmis gæti ég haft almenna óbeit á beinu lýðræði, eða jafnvel lýðræði almennt. Einnig gæti ég talið mig ekki neinna hagsmuna að gæta í málinu eða einfaldlega ekki hafa nógu mikla þekkingu á því til að ljá öðrum hvorum kostinum atkvæði mitt. Þyngst mundi þó eflaust vega sú staðreynd að ég er staddur í Þýskalandi og er ekki tilbúinn til að fljúga heim einungis til þess að taka þátt í slíkri kosningu.

Eflaust væru fleiri, eins og ég, sem hefðu sínar ástæður til að sitja heima. Gefum okkur nú að kjörsókn verði rétt undir 40% og fylgismenn þess að gera Geldinganesið að Manhattan norðursins, með 50 hæða háhýsum, ynnu nauman sigur á fuglagriðlandssinnum. Þá má ganga út frá því sem vísu að Hollvinir Geldinganess héldu því fram að aðeins um fimmtungur kjósenda hafi stutt þá tillögu að fremja náttúruspjöll á Nesinu. Hefðu kosningarnar svo farið á hinn veginn má ætla Samtök um betra Geldinganes héldu því fram að yfir 80% kjósenda hefði ekki haft neitt á móti því að reisa þar fjármálamiðstöð.

Eins langt aftur í tímann og evrópsk lýðræðishefð nær hafa þeir sem tapa kosningum beitt sömu talnabrellunni til að gera lítið úr kosningasigri andstæðinganna. Ef mönnum finnst til dæmis fúlt hve mörg atkvæði Ólafur Ragnar hafi fengið þá geta menn leikið sér við að reikna út að aðeins um þriðjungur kjósenda hefði í raun viljað gera hann að forseta. Ef menn hafa áhuga á nýlegri dæmum þá geta menn margfaldað saman tvær tölur úr þjóðaratkvæðagreiðslunni á Írlandi og þverstæðast síðan út í það að innan við helmingur Íra hafi samþykkt samninginn (líkt og innan við helmingur hafði fellt hann á sínum tíma).

Það ósvífnasta við þessa talnabrellu “lúseranna” er að hún gerir kjósendum upp skoðanir. Þegar sigur andstæðinganna er minnkaður með lágri kjörsókn er verið að segja að hefðu fleiri kosið hefði niðurstaðan orðið önnur og væntanlega eru menn þá ekki að segja að þeir hefðu tapað enn stærra, heldur einmitt þveröfugt.

Eins og áður sagði getur fólk haft mismunandi ástæður fyrir að kjósa ekki á sama hátt og fólk hefur ólíkar ástæður fyrir því hvað það kýs. Ekki er víst að allir kjósendur Sjálfstæðisflokksins hafi verið að mótmæla “tíföldun skulda Borgarinnar” eða að hver einasti kjósandi R-listans hafi “ekki gleypt við talnabrellum minnihlutans”.

Það er hins vegar ólíkt skárra að koma fram fyrir hönd fólks sem menn voru kosnir af heldur en að leggja orð í munn einstaklinga sem sérstaklega kusu að tjá sig ekki. Nýlega mátti lesa í Stúdentablaðinu að í Háskólanum sé einmitt allt morandi í svona þöglu félagshyggjufólki sem gleymir að kjósa. Þöglu félagshyggjufólki sem nennir samt ekki að kjósa þótt það hafi tvo daga til þess og annað félagshyggjufólk hringi í það og bjóðist til að skutla því á kjörstað.

Að ætla sér að smána sigur pólitískra andstæðinga með því að benda á lága kjörsókn er alveg einstaklega heimskulegt. Það voru, jú, þeir sem fengu yfirhöfuð flesta til að mæta á kjörstað.

Þó að öllum ætti að vera kappsmál að kjörsókn verði sem hæst á hún aldrei að hafa neina þýðingu fyrir niðurstöður kosninga. Sum ríki beita sérstökum aðgerðum til að ýta upp kjörsókn. Víða eru þjóðaratkvæðagreiðslur ekki gildar nema helmingur kjósenda taki þátt í þeim. Í Júgóslavíu á þetta jafnvel við um almennar kosningar. Það sem er slæmt við þessa reglu er að hún gerir kosningabindini raunverulegum og oft áhrifaríkum valkosti í baráttunni. Víða þar sem kosið hefur verið um fóstureyðingar hafa andstæðingar þeirra til dæmis kvatt sitt fólk til að sitja heima og tryggja þannig að kosningarnar verði ekki gildar.

Annars staðar, t.d. í Ástralíu, er fólk sem kýs ekki beitt sektum. Það er sorglegt að sumir telji lýðræðið ekki hvíla á sterkari grunni en svo að neyða verði fólk til þátttöku í kosningum.

Rétturinn til að hafa ekki skoðun hlýtur að vera jafnmikilvægur og rétturinn til að kjósa. Engin ætti að gera öðrum upp skoðanir sem hann hefur ekki tjáð. Við hljótum að ætla að þeir sem sitja heima kjósa að láta okkur hinum eftir ákvarðanirnar. Það er sjálfsögð kurteisi að virða það val.

Leave a Reply

Your email address will not be published.