Erlent vinnuafl

Hvernig stendur yfirleitt á því að goðsögnin um útlenska atvinnuþjófinn dúkki upp meðal fólks? Alls staðar þar sem útlendingar finnast gerist það af og til að þeir fái störf sem einhverjir innfæddir sóttu einnig um. Frumbyggjarnir segja sögu sína og eftir því sem tilfellunum fjölgar er líklegra að fleiri aðhyllist kenningar um erlenda atvinnuræningjann.

En stöldrum aðeins við. Því verður ekki neitað að í ofangreindu tilfelli er útlendingur vissulega að fá starf sem Íslendingur hefði fengið ella. Er þetta þá kannski bara rétt eftir allt saman? Eru útlendingar að taka atvinnu af Íslendingum?

Ranghugmyndin felst í þeirri langlífu kreddu um að atvinna sé einhver takmörkuð auðlind. Auðvitað gerist það að útlendingar fá störf sem Íslendingar gætu verið að vinna. En það minnkar ekki möguleika Íslendinga á því að fá vinnu. Svipað og tilkoma kvenna á vinnumarkaðnum hefur minnkað möguleika karlmanna á því að fá gott starf.

Nýbúar eru ekki einhliða blóðsugur á atvinnulífið. Þeir þurfa að kaupa sér mat, gera við bílinn, fara í bíó og senda börnin í skólann. Allt þetta eykur veltuna í viðkomandi starfsgreinum og störf skapast. Það er því álíka fáranlegt að halda því fram að útlendingarnir séu að taka störf af Íslendingum og til dæmis að halda því fram að nýbúar sem spila í lottóinu séu að taka vinninga af Íslendingum eða að útlendingar sem fari út að borða á laugardagskvöldi taki borð af innfæddum. Fólk sem heldur slíku fram ætti helst ekki að eignast börn því þegar krílin vaxa úr grasi fara þau að hirða til sín öll störf eldra fólksins.

Í Steglunni í þættinum Silfur Egils er fólk gjarnan spurt: „Fleiri innflytjendur til landsins?“ Þetta er svolítið asnaleg spurnig því við getum ekki flutt fólk hingað nauðugt eða alfarið bannað því að koma. Stjórnmálamenn geta ekki ráðið því beint hve margir setjast hér að, einungis er hægt að gera það miserfitt.

Sumir hafa svarað ofangreindri Stegluspurningu á eftirfarandi hátt: „Já, ef við getum tekið vel á móti þeim.“ Skrýtið þetta „ef“ hjá fimmtu ríkustu þjóð í heimi. Eða kannski halda menn að útlendingarnir þurfi einhverja sérstaka „móttöku“? Félagslegt húsnæði, skyldunámskeið í íslensku eða persónulegan ráðgjafa frá ríkinu?

Íslenskt þjóðfélag getur hæglega bætt mörgum einstaklingum til viðbótar. Þar sem líklegt er að nýfæðingum meðal Íslendinga fækki á næstu árum líkt og gerst hefur annars staðar í V-Evrópu þurfum við ferskt blóð inn í landið. Það er nóg að fólki í heiminum sem vill lifa heiðvirðu lífi í ríku velferðarríki. Ísland er gott land til að búa í með blómstrandi atvinnulífi og skilvirkri stjórnsýslu. Það er okkar móttaka.

Maígabb

Það er vissulega ánægjulegt að tímasetning stækkunar sé kominn á hreint. Þó að Evrópusambandið sé oft hlægileg stofnun þá þýðir innganga Austur-Evrópuþjóða í flestum tilfellum skref í átt til frjálsræðis fyrir umræddar þjóðir. Ég hef áður fjallað um ESB-andstöðuna í Póllandi í pistli mínum „Tvær hliðar ESB andstöðu“ hér á Deiglunni. Þótt að andstæðingarnir komi oft vel fyrir með slagorðum á borð við „allan heiminn sem markað“ eru þeir oftast bara venjulegir þjóðernissinnar. Þar sem þeir menn komast til valda er fyrsta verk þeirra að planta krossum í allar skólastofur en ekki að auka frelsi í viðskiptum. Frjálshyggjurökin gegn stækkun eru notuð á alþjóðlegum ráðstefnum, í samskiptum við almenning nota menn heldur bara gamla góða þjóðrembinginn.

Nú hafa andstæðingar ESB í Póllandi fengið vænan pakka frá framkvæmdarstjórninni. Þó að ég hafi leitað vel í dagatalinu tókst mér ekki að finna neina mögulega verri dagsetningu fyrir stækkun sambandsins. Hugsanlega hefði verið óheppilegt að stækka sambandið á Hrekkjavöku. Fyrsti apríl væri ef til vill heldur ekki besti kosturinn, því það gæti orðið uppspretta mjög lélegra brandara í fréttatímum álfunnar á þeim degi. Föstudagurinn langi gæti lagst illa í sumar kristnari þjóðir og afmæli októberbyltingarinnar mundi eflaust vekja blendnar tilfinningar. En ég held að engin dagur slái verkalýðsdeginum við.

1. maí er í Póllandi mjög sérstök götuslagsmálahátíð. Dæmigerð atburðarás dagsins er eftirfarandi: Fyrir hádegi safnast hægrisinnaðar og vinstrisinnaðar verkalýðshreyfingar hver á sínum stað. Vinstrimenn á torgum og í kröfugöngum en hægrimenn í kirkjum. Fáir vita að fyrsti maí er einnig hátíðardagur kaþólsku kirkjunnar. Þá er nefnilega „messa heilags Jósefs verndara verkamanna“. Upp úr hádegi kemur að því að ungir jaðarhægrimenn reyna að koma í veg fyrir að fyrrverandi kommúnistar geti lagt blómsveig að Leiði hins óþekkta hermanns í Varsjá. Beita þarf lögregluvaldi.

Eftir hádegi kemur til átaka milli friðarsinna og kristinnar æsku. Ungir þjóðernissinnar henda flöskum í unga sósíalista. Þeir svara fyrir sig. Og svona langt fram á nótt. Atburðarásin er síðan endurtekin á þjóðhátíðardeginum 3. maí sem orðinn svona „annar í fyrsta maí“ dagur.

Nú er erfitt að sjá hvernig hægt verði að koma fyrir hátíðarhöldum í tilefni af inngöngu Póllands í ESB í jafn þéttsetna dagskrá. Það hefði auðvitað bara verið langbest að stækka sambandið 1. janúar 2004. Fólki finnst eðlilegt að stórar breytingar eigi sér stað á nýju ári. Að auki eru allir vinir á þeim degi, menn lyfta upp glösum og skála fyrir framtíðinni og það er of kalt fyrir hópslagsmál.

Ástæða frestunar er víst sú að inngöngusáttmálinn þarf að vera samþykktur í öllum núverandi ESB ríkjum og slíkt tekur tíma. Í Belgíu þarf hann til dæmis að fara í gegnum 7 mismunandi þing, meðal annars þing þýska minnihlutans. Mér finnst hins vegar skárra að láta belgíska þingmenn missa af kaffinu sökum anna heldur en að sitja upp með dagsetningu sem er umdeild og margir Austur-Evrópubúar eiga erfitt með að sætta sig við sem hátíðarstund.

Að kjósa ekki

Ef að kosning um framtíðarskipulag Geldinganess færi fram í dag hefði ég ýmsar ástæður til að kjósa ekki. Til dæmis gæti ég haft almenna óbeit á beinu lýðræði, eða jafnvel lýðræði almennt. Einnig gæti ég talið mig ekki neinna hagsmuna að gæta í málinu eða einfaldlega ekki hafa nógu mikla þekkingu á því til að ljá öðrum hvorum kostinum atkvæði mitt. Þyngst mundi þó eflaust vega sú staðreynd að ég er staddur í Þýskalandi og er ekki tilbúinn til að fljúga heim einungis til þess að taka þátt í slíkri kosningu.

Eflaust væru fleiri, eins og ég, sem hefðu sínar ástæður til að sitja heima. Gefum okkur nú að kjörsókn verði rétt undir 40% og fylgismenn þess að gera Geldinganesið að Manhattan norðursins, með 50 hæða háhýsum, ynnu nauman sigur á fuglagriðlandssinnum. Þá má ganga út frá því sem vísu að Hollvinir Geldinganess héldu því fram að aðeins um fimmtungur kjósenda hafi stutt þá tillögu að fremja náttúruspjöll á Nesinu. Hefðu kosningarnar svo farið á hinn veginn má ætla Samtök um betra Geldinganes héldu því fram að yfir 80% kjósenda hefði ekki haft neitt á móti því að reisa þar fjármálamiðstöð.

Eins langt aftur í tímann og evrópsk lýðræðishefð nær hafa þeir sem tapa kosningum beitt sömu talnabrellunni til að gera lítið úr kosningasigri andstæðinganna. Ef mönnum finnst til dæmis fúlt hve mörg atkvæði Ólafur Ragnar hafi fengið þá geta menn leikið sér við að reikna út að aðeins um þriðjungur kjósenda hefði í raun viljað gera hann að forseta. Ef menn hafa áhuga á nýlegri dæmum þá geta menn margfaldað saman tvær tölur úr þjóðaratkvæðagreiðslunni á Írlandi og þverstæðast síðan út í það að innan við helmingur Íra hafi samþykkt samninginn (líkt og innan við helmingur hafði fellt hann á sínum tíma).

Það ósvífnasta við þessa talnabrellu „lúseranna“ er að hún gerir kjósendum upp skoðanir. Þegar sigur andstæðinganna er minnkaður með lágri kjörsókn er verið að segja að hefðu fleiri kosið hefði niðurstaðan orðið önnur og væntanlega eru menn þá ekki að segja að þeir hefðu tapað enn stærra, heldur einmitt þveröfugt.

Eins og áður sagði getur fólk haft mismunandi ástæður fyrir að kjósa ekki á sama hátt og fólk hefur ólíkar ástæður fyrir því hvað það kýs. Ekki er víst að allir kjósendur Sjálfstæðisflokksins hafi verið að mótmæla „tíföldun skulda Borgarinnar“ eða að hver einasti kjósandi R-listans hafi „ekki gleypt við talnabrellum minnihlutans“.

Það er hins vegar ólíkt skárra að koma fram fyrir hönd fólks sem menn voru kosnir af heldur en að leggja orð í munn einstaklinga sem sérstaklega kusu að tjá sig ekki. Nýlega mátti lesa í Stúdentablaðinu að í Háskólanum sé einmitt allt morandi í svona þöglu félagshyggjufólki sem gleymir að kjósa. Þöglu félagshyggjufólki sem nennir samt ekki að kjósa þótt það hafi tvo daga til þess og annað félagshyggjufólk hringi í það og bjóðist til að skutla því á kjörstað.

Að ætla sér að smána sigur pólitískra andstæðinga með því að benda á lága kjörsókn er alveg einstaklega heimskulegt. Það voru, jú, þeir sem fengu yfirhöfuð flesta til að mæta á kjörstað.

Þó að öllum ætti að vera kappsmál að kjörsókn verði sem hæst á hún aldrei að hafa neina þýðingu fyrir niðurstöður kosninga. Sum ríki beita sérstökum aðgerðum til að ýta upp kjörsókn. Víða eru þjóðaratkvæðagreiðslur ekki gildar nema helmingur kjósenda taki þátt í þeim. Í Júgóslavíu á þetta jafnvel við um almennar kosningar. Það sem er slæmt við þessa reglu er að hún gerir kosningabindini raunverulegum og oft áhrifaríkum valkosti í baráttunni. Víða þar sem kosið hefur verið um fóstureyðingar hafa andstæðingar þeirra til dæmis kvatt sitt fólk til að sitja heima og tryggja þannig að kosningarnar verði ekki gildar.

Annars staðar, t.d. í Ástralíu, er fólk sem kýs ekki beitt sektum. Það er sorglegt að sumir telji lýðræðið ekki hvíla á sterkari grunni en svo að neyða verði fólk til þátttöku í kosningum.

Rétturinn til að hafa ekki skoðun hlýtur að vera jafnmikilvægur og rétturinn til að kjósa. Engin ætti að gera öðrum upp skoðanir sem hann hefur ekki tjáð. Við hljótum að ætla að þeir sem sitja heima kjósa að láta okkur hinum eftir ákvarðanirnar. Það er sjálfsögð kurteisi að virða það val.