Bjarnargreiði

Eins og ég hef minnst á í mínum fyrri pistlum er ekkert ókeypis í Þýskalandi. Eitt af því sem er ekki ókeypis er bankaþjónusta. Flestir minni spámenn þurfa að punga út á bilinu 2-4 evrum fyrir að hafa reikning í banka. Bankarnir bjóða reyndar upp á ýmis tilboð sem felast í því að láta þjónustugjöldin falla niður, t.d. ef lágmarksupphæð í hverjum mánuði fer ekki undir 1000 evrur o.s.frv.

Ég komst hins vegar að því, mér til eðlilegrar ánægju, að stúdentar geta stofnað og rekið reikninga án þess að þurfa greiða fyrir það sérstaklega. Sá sem hugsar að um sé að ræða herbragð bankanna til að ná til sín nýjum viðskiptavinum verður þó fljótt fyrir vonbrigðum.

Í Berliner Sparkasse er mér sagt að ég muni dvelja í Þýskalandi of stutt til að það borgi sig að opna reikning fyrir mig. 12 mánuðir er lágmark. Mér er bent á að tala við Commerzbank.

Í Commerzbank er mér sagt að tími fyrir stúdenta til að sækja um reikning í bankanum sé liðinn og að ég verði að koma aftur í byrjun nóvember. Þetta var 9. október.

Í Berliner Bank segja þeir mér aftur að þeir verða að sjá staðfestingu á því að ég verði hjá þeim lengur en ár. Ég spyr hvort það sé engin leið til að stofna reikning í Berlín án þess að vilja stofna hér fjölskyldu. Síðan spyr ég hvort megi ekki stofna reikning og borga fyrir það eins og hver annar kúnni. Fulltrúinn bannar mér það en gefur um leið vinalegt ráð:

“Farðu yfir til Drezdner Bank og ljúgðu að þú verðir hér í 2 ár. Svo ferðu bara heim og þá geta þeir ekkert gert.”

Sums staðar í heiminum er venjan að festa sprengju undir bíl samkeppnisaðilans. Í Þýskalandi tíðkast að senda til hans stúdent.

Í Drezdner Bank er mér sagt að koma á morgun. Í næsta banka, sem er annað útibú af Berliner Sparkasse, nálægt Háskólanum, er mér sagt að ég verði að stofna reikning þar sem ég bý. “Það koma svo margir stúdentar hérna til okkar út af því að þetta er svo stutt frá Háskólanum.” Hver hefði getað hugsað sér… Væru stúdentar eftirsóttur hópur viðskiptavina væri eflaust fjölgað í starfsliðinu eða jafnvel annað útibú opnað nálægt skólanum. En viðskipti við stúdenta eru ekki eftirsótt.

Reglan um “ókeypis” bankareikninga fyrir stúdenta er nefnilega ekki sölubrella heldur boð að ofan. Einhver umhyggjusamur stjórmálamaður vildi með þessu móti lækka bankakostnað stúdenta. Niðurstaðan varð hins vegar sú að nemar eru óhagstæðari viðskiptavinir en annað fólk. Þeim er því hent fram og tilbaka milli banka, því viðskipti við þá borga sig ekki.

Það sem gleymdist var að bankar geta áfram meinað námsmönnum og reikning. Ef einhverjum dytti til dæmis í hug að setja efraþak á leigu námsmanna í Reykjavík mundi það hafa þau áhrif að enginn mundi vilja leigja nema íbúð. Það gleymist nefnilega oft að engin verður þröngvaður til að græða ekki á vinnu sinni.

Sama hvað allri góðmennsku stjórmálamanna líður.

Leave a Reply

Your email address will not be published.