Skyldunámskeið í íslensku

Nýlega var lögum um útlendinga breytt hér á landi. Sumar breytingar voru til hins betra en aðrar síðri. Ein verstu hugmyndanna birtist í eftirfarandi grein.

[…]Veita má útlendingi, sem dvalist hefur hér á landi samfellt síðustu þrjú ár samkvæmt dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum og sótt hefur námskeið í íslensku fyrir útlendinga, búsetuleyfi samkvæmt umsókn […] [Lög um útlendinga]

Þarna hefur lögjafanum tekist að fylgja eftir barnalegum hugmyndum margra Íslendinga um að „eitthvað verði að gera“, því „þetta fólk bara skilur ekki neitt og vill ekki læra.“ Lögin taka gildi í upphafi næsta árs.

Fljótt á litið virðist það ekki vera nein hræðileg hugmynd að skylda fólk til að læra íslensku ætli það sér að búa hér. Við Íslendingar þurfum, jú, að læra málið 10 ár í grunnskóla. Af hverju ætti það að vera svo slæmt að þurfa sækja nokkur kvöldnámskeið? Það er heldur ekki eins og það sé eitthvað böl að kunna nýtt tungumál. Íslenskukunnátta mundi auðvelda nýbúunum lífið í íslensku samfélagi, þýðingarkostnaður mundi lækka, fordómar minnka og fleira í þeim dúr.

Einnig hefur einhver veifað fram könnun þar meirihluti nýbúa lýsti sig fylgjandi hugmyndinni. „Fyrst að þau sjálf vilja það, hvað er fólk þá að væla?“ gæti einhver spurt.

Í fyrsta lagi þá var umrædd könnun framkvæmd meðal útlendinga á námskeiði hjá Fræðslumiðstöð Reykjavíkur. Útlendingar sem hafa ótilneyddir skráð sig í íslenskunámskeið eru auðvitað ömurlega ómarktækur úrtakshópur, á sama hátt og fólk á sjálfsvarnarnámskeiði er ekki góður úrtakshópur fyrir könnum á nauðsyn þess að kunna verja sig.

Í öðru lagi má ekki gleyma því að margir, sérstaklega í A-Evrópu, setja samasemmerki milli þess sem er skylda og þess sem er ókeypis. Einhverjir hafa því skilið spurninguna sem: „Mundirðu vilja sleppa borga fyrir námskeiðið sem þú ert á núna?“ Hins vegar hefur aldrei staðið til að hálfu löggjafans að námskeiðin yrðu ókeypis. Aðeins skylda.

En skoðun útlendinganna er auðvitað ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er hvort umrædd lög muni yfirleitt skila einhverjum árangri. Það er því miður ólíklegt.

Það vita það allir allir sem það hafa prófað að ekki er hægt að læra tungumál á einu kvöldnámskeiði. Hvað þá íslensku. Þar sem frumvarpið gerir ekki ráð fyrir að menn þurfi að þreyta neitt próf þá er hætt við að námskeiðin verði aðeins skriffinnska og formlegheit sem muni engu skila. Þeir sem eru neyddir til að læra e-ð sem þeir hafa ekki áhuga á verða sjaldnast góðir nemendur.

Einnig verður að skoða hverjir það munu verða sem þurfi að sækja þessi námskeið. Norðurlandabúar eru undanþegnir þeim því þeir þurfa ekki að sækja um dvalarleyfi. Sama á við alla ESB-borgara en EES samningurinn tryggir frjálsa fólksflutninga milli landa. Innan tveggja ára mun gamla austurblokkin ganga í Evrópusambandið og þá munu t.d. Pólverjar, stærsti minnihlutahópurinn, „sleppa“. Stærsti hópur útlendinga sem munu þurfa sitja íslenskunámskeið verða þá… Bandaríkjamenn. Einhvern veginn leyfi ég mér að efast um að það hafi verið ætlun þeirra sem settu hugmyndina fram. Vegna þrýstings að vestan munu USA-borgarar áreiðanlega einnig sleppa við námskeiðin svo loks mun það lenda á Asíubúum einum að þurfa sitja námskeiðin góðu.

Það er því ekki nóg með að hugmyndin sé vafasöm frá sjónarhóli mannréttinda og ólíkleg til að skila árangri heldur einnig mun hún ná til hlutfallslega þröngs hóps nýbúa. Það má því segja að hún sé þegar úreld.

Mun betri hugmynd felst í því að búa til stöðluð íslenskupróf fyrir útlendinga, líkt og þekkjast í öðrum löndum. Þeir sem lokið hefðu samræmdu prófi í íslensku (eða hærri prófum) þyrftu ekki á þeim að halda, en hinir gætu þreytt þau ef þeim sýndist. Vinnuveitendur og hið opinbera gætu síðan umbunað þeim sem lokið prófunum með hærri launum o.s.frv.

Ríkið eða einhver stofnun þess, t.d. Háskólinn, sæi um samningu og yfirferð prófanna en aðrir gætu tekið að sér kennslu fyrir þau, líkt og er gert með bílpróf í dag. Ef þess yrði gætt í kjarasamningum að umbuna þeim sem staðist hefðu prófin er tryggt að margir tækju þau sjálfviljugir. Þannig losna námskeiðshaldarar við fólk sem þarf bara mætingarstimpil í kladdann. Að auki mundi slík próf eiga við alla sem vildu sanna kunnáttu sína, jafnt Dana sem Tælending.

Það er nefnilega skrýtinn krafa að skylda aðeins gult fólk til að læra íslensku. Betra er að leyfa öllum að sýna fram á getu sína í íslensku og uppskera svo laun erfiðis sín.

Öllum sem vilja.

Bjarnargreiði

Eins og ég hef minnst á í mínum fyrri pistlum er ekkert ókeypis í Þýskalandi. Eitt af því sem er ekki ókeypis er bankaþjónusta. Flestir minni spámenn þurfa að punga út á bilinu 2-4 evrum fyrir að hafa reikning í banka. Bankarnir bjóða reyndar upp á ýmis tilboð sem felast í því að láta þjónustugjöldin falla niður, t.d. ef lágmarksupphæð í hverjum mánuði fer ekki undir 1000 evrur o.s.frv.

Ég komst hins vegar að því, mér til eðlilegrar ánægju, að stúdentar geta stofnað og rekið reikninga án þess að þurfa greiða fyrir það sérstaklega. Sá sem hugsar að um sé að ræða herbragð bankanna til að ná til sín nýjum viðskiptavinum verður þó fljótt fyrir vonbrigðum.

Í Berliner Sparkasse er mér sagt að ég muni dvelja í Þýskalandi of stutt til að það borgi sig að opna reikning fyrir mig. 12 mánuðir er lágmark. Mér er bent á að tala við Commerzbank.

Í Commerzbank er mér sagt að tími fyrir stúdenta til að sækja um reikning í bankanum sé liðinn og að ég verði að koma aftur í byrjun nóvember. Þetta var 9. október.

Í Berliner Bank segja þeir mér aftur að þeir verða að sjá staðfestingu á því að ég verði hjá þeim lengur en ár. Ég spyr hvort það sé engin leið til að stofna reikning í Berlín án þess að vilja stofna hér fjölskyldu. Síðan spyr ég hvort megi ekki stofna reikning og borga fyrir það eins og hver annar kúnni. Fulltrúinn bannar mér það en gefur um leið vinalegt ráð:

„Farðu yfir til Drezdner Bank og ljúgðu að þú verðir hér í 2 ár. Svo ferðu bara heim og þá geta þeir ekkert gert.“

Sums staðar í heiminum er venjan að festa sprengju undir bíl samkeppnisaðilans. Í Þýskalandi tíðkast að senda til hans stúdent.

Í Drezdner Bank er mér sagt að koma á morgun. Í næsta banka, sem er annað útibú af Berliner Sparkasse, nálægt Háskólanum, er mér sagt að ég verði að stofna reikning þar sem ég bý. „Það koma svo margir stúdentar hérna til okkar út af því að þetta er svo stutt frá Háskólanum.“ Hver hefði getað hugsað sér… Væru stúdentar eftirsóttur hópur viðskiptavina væri eflaust fjölgað í starfsliðinu eða jafnvel annað útibú opnað nálægt skólanum. En viðskipti við stúdenta eru ekki eftirsótt.

Reglan um „ókeypis“ bankareikninga fyrir stúdenta er nefnilega ekki sölubrella heldur boð að ofan. Einhver umhyggjusamur stjórmálamaður vildi með þessu móti lækka bankakostnað stúdenta. Niðurstaðan varð hins vegar sú að nemar eru óhagstæðari viðskiptavinir en annað fólk. Þeim er því hent fram og tilbaka milli banka, því viðskipti við þá borga sig ekki.

Það sem gleymdist var að bankar geta áfram meinað námsmönnum og reikning. Ef einhverjum dytti til dæmis í hug að setja efraþak á leigu námsmanna í Reykjavík mundi það hafa þau áhrif að enginn mundi vilja leigja nema íbúð. Það gleymist nefnilega oft að engin verður þröngvaður til að græða ekki á vinnu sinni.

Sama hvað allri góðmennsku stjórmálamanna líður.

Á degi þýskrar einingar

Það fyrsta sem tekið er eftir þegar komið er til Lichtenberg hverfisins í Berlín er fólk að taka til. Slá grasið, þvo glugga og raka saman laufin. Klukkan er eina mínutu í sjö um morguninn. Biðröð hefur myndast fyrir framan Sparmarkt. Sumir líta óþolinmóðir á úrið sitt. „Er hún ekki orðin?“ spyr einhver.

Sumar goðsagnir eru einfaldlega sannar.

Ég dingla bjöllunni að stúdentaskrifstofunni. Miðaldra þýsk kona segir mér að bíða. Síðan hleypir hún mér inn til sín og býður sæti. Þegar hún heyrir að þýskan mín er eitthvað ryðguð og skiptir hún yfir í ensku. Án þess að vera fúl.

Sumar goðsagnir eru bara goðsagnir.

Ég bý í austurþýsku blokkahverfi. Sumar blokkirnar eru stúdentagarðar en aðrar ætlaðar venjulegum íbúum. Margar þeirra hafa verið fegraðrar upp – grái liturinn látinn víkja fyrir litskrúðugu handklæðamynstri, en aðrar, þar á meðal mín, eru í þann mund að ganga gegnum hamskiptin.

Engin hamskipti eru hins vegar sjáanleg innandyra í íbúðinni. „Kannskihvítir“ veggir. Skökk „kannskigræn“ gólf. Rispaðir gluggar. Ryðguð málmstykki standa út úr veggjum.

Væri ég pistlahöfundur á þverstæðuveiðum væri ég kominn með bráð: Hús sem er fagurt að utan en ljótt að innan! Dæmigert fyrir þróun mála í Austur-Evrópu eftir hrun kommúnismans! En ég er bara námsmaður, gestur í öðru landi. Herbergið er stórt og leigan ódýr: 130 evrur á mánuði og allt innifalið.

Almennt má segja að í Þýskalandi sé allt ódýrt en ekkert ókeypis. Það kostar að nota kerru í stórmarkaði. Það kostar að fá poka. Menn geta gleymt því að fá gefins penna á stöðum þar sem þeir eru nauðsynlegir eins og til dæmis á hagstofum. „Gæti ég fengið lánaðan penna?“ spyr ég en fæ hvorki penna né svar.

Þegar farið er austur yfir landamærin til Póllands eru hlutirnir ódýrari en áfram kosta þeir alltaf. „Þverstæðurnar“ eru einnig áfram til staðar. En þverstæðurnar stafa af því að þróunin til hins frjálsa markaðar er lýðræðisleg og óþvinguð. Auðvelt er að mála göturnar, laga gangstéttirnar og setja upp flott umferðarmerki. Erfiðara er hins vegar banna fólki að keyra um þær á gömlu, ljótu bílunum sínum. Auðvelt er að búa til flottar verslanir en erfiðara að skylda fólk til að klæðast flottum fötum þegar það verslar í þeim.

Ekki ber svo að skilja að einstaklingarnir séu alltaf á eftir stofnunum og fyrirtækjum. Til dæmis hefur farsímavæðing hjá venjulegum Austur-Evrópubúum orðið mun hraðari en tölvuvæðing ríkisstjórna þeirra. Margir pólskir dómstólar notast enn við ritvélar. Auðveldara er fyrir mann að kaupa sér síma en fyrir ríkisstjórn að kaupa 20 þús. tölvur með hugbúnaði.

Í hvert sinn sem ég kem til Póllands finnst mér hlutirnir betri. Auðvitað eru sumir ekki sáttir við sinn hlut. Þó að lýðræði sé komið á og ritfrelsi og skoðanakúgun heyra sögunni til má ekki gleyma að flestir litu til kapítalismans í leit að bættum lífsgæðum. Sumir eiga eftir að uppskera sitt.

En almennt held ég að þróunin sé góð.

Þessi pistill er í persónulegri kantinum en vænta mætti af sögulegu uppgjöri á afmælisdegi sameinaðs Þýskalands. Ég hef reynt sleppt háfleygum yfirlýsingum og afgerandi skoðunum. Á milli hátíðsdaga er A-Evrópa nefnilega að taka ósköp venjulegum breytingum. Veruleikinn er oftast hvorki háfleygur né verulega afgerandi.