Kaliningrad

Borgin Kaliningrad liggur við austurströnd Eystrasalts. Borgin hét áður Königsberg og svæðið umhverfis hana – Austur-Prússland. Héraðið tilheyrði eitt sinn Þýskalandi en er í dag hluti Rússneska sambandslýðveldisins. Þegar Pólland og Litháen ganga í Evrópusambandið mun héraðið verða landlyksa innan ESB og munu rússneskir borgarar þá þurfa vegabréfsáritanir til að ferðast „innanlands“.

Þetta finnst mörgum Kalingradbúum óþægilegt enda furðulegt að þurfa sækja um vegabréfsáritun til að heimsækja vini og ættingja sem búa í sama landi. Rússneskir stjórnmálamenn hafa fylgt eftir kvörtunum borgara sinna með ýmsum kröfum sem reifaðar verða síðar. Kröfurnar þarf hins vegar að skoða út frá ákveðnu samhengi.

Í fyrsta lagi þá geta Rússar sjálfir sér um kennt hvað staðsetninguna varðar. Landið tilheyrði og áður Þýskalandi en Rússarnir hirtu það sem stríðsfeng eftir styrjöldina, einmitt til að styrkja stöðu sína á svæðinu og skapa vandræði í framtíðinni. Þetta er gamalt bragð: að flytja slatta þjóðar til einhvers lands, tryggja sér þannig óbein pólitísk áhrif og grafa undan þjóðaranda hinna upprunalegu íbúa.

Í öðru lagi þá geta Rússar í dag heimsótt ættingja sína án þess að framvísa vegabréfi. Þeir geta til dæmis farið með flugi, eða skipi til St. Pétursborgar. Slíkt er hins vegar dýrt og kannski ekki á færi Meðal-Júrís og Meðal-Svetlönu.

Kröfur Rússa hafa verið margs konar:

  1. Að Rússar geti ferðast um Evrópu án vegabréfsáritunar.
  2. Að Rússar geti ferðast til og frá Kaliningrad svæðinu án vegabréfsáritunar.
  3. Að Rússar geti keyrt á hlutlausum hraðbrautum og lestarteinum gegnum Pólland án þess að sæta vegabréfsskoðun.
  4. Að rússneskar lestir geti brunað gegnum Litháen án þess að farþegar sæti vegabréfsskoðun en þó fái Litháar að vita hverjir séu í lestinni.

Ólíklegt er að ESB afnemi vegabréfsáritanir fyrir Rússa í náinni framtíð. Rússland er gríðarlega víðfemt ríki með löngum landmærum sem sum liggja að ríkjum sem vesturlandabúum þykja súr. T.d. Kína, Norður-Kórea og Finnland.

Sömuleiðis er óásættanlegt fyrir Pólverja að heimila áritanalausa flutninga til og frá svæðinu því slíkt útilokar aðild að Schengen. Ekki er hægt að tryggja að menn á ferð til Kaliningrad fari ekki bara til Berlínar í staðinn. Þjóðverjar mundu ekki sætta sig við slíkt og líklegast ekki afnema landamæraeftirlit á Oder-ánni við

slíkar aðstæður. Taka skal fram að Schengen-aðild er í augum Pólverja það eftirsóknarverðasta við ESB-aðild.

Hugmyndir um einhverja skrítna lestarteina og hraðbrautir eiga heima í kalda stríðinu. Fáranlegt er að ætla að þjóðir sem hafi í hálfa öld þurft að lifa við, því sem næst, hersetu Rússa láti þeim nú eftir land svo þeir gæti keyrt til og frá héraðinu sem var búið til til að halda þeim í heljargreipum.

Lestir með neglda glugga eru heldur ekki ýkja geðfeld hugmynd þó eflaust sú einfaldasta í framkvæmd. Þetta mundi þó aðeins eiga við um Litháen því Pólland liggur ekki (enn þá) að „aðalhluta“ Rússlands.

Í þessu máli er erfitt að samræma eðlilegar kröfur venjulegra íbúa Kaliningrad við jafneðlilegar kröfur ríkja um að stjórna því hver fari yfir landamæri þeirra. Hitt er svo annað mál að rússnesk yfirvöld ættu að horfa í sinn eigin barm áður en þau saka nágrannaþjóðir sínar um ósanngirni. Áætlaðar vegabréfsáritanir til Póllands munu kosta 5 dollara. Það kostar Pólverja 35 dali að fara til Rússlands. Eins hefur pólska hafnaborgin Elblag ekki haft aðgang að Eystrasaltinu í hálfa öld, vegna frekju Rússa. Eina opna sjóleiðin frá Elblag liggur einmitt gegnum Kaliningrad svæðið.

Að skilja Ríkið (og Kirkju)

Þegar ungur frjálslyndur maður ræðir við fólk í sínu nánasta umhverfi kemst hann ekki hjá því að velta því fyrir sér hvert allir þeir sem stjórna gangi ríkisins sækja sitt fylgi.

Ég hef ítrekað rætt við marga jafnaldra mína um málefni líðandi stundar. Stundum eru skoðanir skiptar, línurnar dregnar eftir stjórnmálastefnum, búsetu eða jafnvel kyni hvers og eins. En stundum eru bara allir sammála.

Eitt af þeim málum sem ég hef rætt án þess að upp úr syði nokkurn tímann er aðskilnaður Ríkis og Kirkju. Á Íslandi er eitt trúfélag skilgreint sem trúfélag Ríkisins og nýtur sérstakrar verndar þess. Mörgum finnst þetta vera brot á jafnræðisreglu. Sólveigu Pétursdóttur finnst það ekki eins og fram kemur í andsvari hennar seinast þegar málið var rætt á Alþingi.

„[…]Því langar mig til þess að geta þess að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar kemur ekki í veg fyrir ríkiskirkju í sjálfu sér. Það er viðurkennt á vettvangi alþjóðlegra mannréttinda að svo lengi sem menn missa engra borgaralegra réttinda, þótt þeir tilheyri öðrum trúfélögum, þá sé þetta í lagi.“

Gott og vel. Ég er trúleysingi. Þar sem ég hef samt rétt til að giftast, ættleiða börn, borga hluti með raðgreiðslum, stunda box og fara til útlanda þá ætti ég víst ekkert að kvarta. En það eru fleiri hliðar á þessu máli en borgaralegu réttindin. Borgararnir hafa nefnilega stundum skyldum að gegna. Ég er, til dæmis, óneitanlega verri kandídat í Kirkjumálaráðherra en aðrir þar sem hægt er að efast (réttilega) um vilja minn til að „styðja og vernda“ hina lúthersku evangelísku þjóðkirkju.

Sama á við um forsetaembættið sem er, að nafninu til, æðsta embætti Þjóðkirkjunnar. Erfitt getur verið fyrir efahyggjumann að sækjast eftir slíku embætti án þess að þurfa að svara spurningum um trú. Þetta sást best í seinustu kosningum þar sem sumir kusu að ljúga sig á ný inn í samfélag trúaðra til þess að forðast rökfræðilega stjórnsýsluflækju.

Að undanskildum ráðherra og nokkrum þingmönnum hef ég ekki hitt marga sem telja mikið vit í núverandi skipan. Ef til vill eru þeir minna áberandi eða kjósa að tjá ekki sínar miður nútímalegu skoðanir. Hins vegar er ekki að sjá að nokkur umræða eigi sér stað meðal stjórnmálamanna og búast má við að ástandið breytist ekki næstu árin.

Kannski er það ástæðan fyrir hve vel þeim líkar sambúðin. Hvort tveggja eru íhaldssamar stofnanir sem virðast lifa sínu eigin lífi áhyggjulausar af skoðunum þegna sinna.

Tvær hliðar á ESB-andstöðu

Evrópuandstæðan í Póllandi hefur tvær hliðar. Út á við koma andstæðingar Evrópusambandsins fram sem upplýstir heimsborgarar. Lausir við ksenófóbískt hatur tala þeir um frelsishamlandi skrifræðisbákn í Brussel. Hin hliðin byggist á gamaldags útlendingahatri og haftastefnu.

Af þeim flokkum sem sitja á pólska þinginu leggjast tveir gegn aðild landsins að ESB: LPR – Bandalag pólskra fjölskyldna og Samobrona – Sjálfsvörn.

LPR er kaþólskur þjóðernisflokkur. Roman Giertych úr LPR hefur skipað sér í fremstu röð pólskra ESB andstæðinga. Hann ber sig vel, er kurteis og agaður stjórnmálamaður. Dæmigerð ESB ræða hans er e-ð á þessa leið: „Hvers vegna ættum við að loka okkur innan tollabandalags? Það er barnalegt að einblína á Evrópu í stað þess að líta á allan heiminn sem markað! Landbúnaðarkerfi ESB er úrelt, stofnanir þess hægvirkar auk þess sem þær skortir lýðræðislegt aðhald. Við getum gert betur en svo!“

Þetta hljómar vel í eyrum hinna vestrænu ESB-andstæðinga – hægrimanna. Andstæðan felst, jú, augljóslega í sókn í meiri alþjóðavæðingu, meiri alþjóðavæðingu en ESB getur boðið okkur upp á.

Hinir sömu mundu reyndar verða fyrir vonbrigðum ef þeir læsu heimasíðu flokksins, www.lpr.pl, og ýmis blöð honum tengd. Síðan er aðeins til á pólsku enda ekki þar fyrir útlending að finna. Efst má finna texta andþýsks lags sem samið var fyrir um 100 árum á tímum þýskrar hersetu. Þar fyrir neðan stendur: „Nú þegar Pólverjar hafa verið arðrændir eignum sínum og þær seldar óvinalýð, jafn erlendum sem innlendum, er pólsk jörð það eina sem við eigum eftir! Við mótmælum sölu jarða til útlendinga.“ Sannkölluð nýfrjálshyggja.

Þegar póstlisti samtakanna er lesinn má finna nánari skýringar á þessu. Óvinaöflin eru Gyðingar sem, eins og allir vita, settu á svið Helförina til að afla sér samúðar. Einnig má finna „áhyggjur“ um að aðild Póllands leiði til bættrar réttarstöðu samkynhneigðra, en samkynhneigð er ónáttúra og hommar ekki fólk heldur mannhundar.

Samoobrona (Sjálfsvörn) eru öfgafull bændasamtök sem rekin eru í kringum persónudýrkun á Andrzej Lepper, stofnanda þeirra. Í kringum kosningar friðaðist Lepper. Hann gagnrýndi ESB fyrir að niðurgreiða landbúnaðarvörur og og torvelda pólskum bændum útflutning. Hann náði kjöri en er í banni frá þinginu vegna ofbeldisfullrar hegðunar og brotum á þingsköpum. (Kom með sinn eigin megafón til að framíköll hans heyrðust í sjónvarpi)

Helstu áhugamál samtakanna eru að lama samgöngur og valda skemmdum á eignum annarra. Til dæmis hafa þau ráðist á lestarvagna með innfluttu korni og skemmt það, því nóg er víst kornið í Póllandi.

Þannig er þetta víðar í Evrópu. Á alþjóðlegum ráðstefnum og í sjónvarpskappræðum er stillt upp hinum frelsislelskandi alþjóðasinnum. Þeir sjá um samskipti við útlendinga og menntafólk. Hinn hópurinn höfðar til bænda og láglaunafólks gegnum andþýskan hræðsluáróður. Þeir draga fánann að húni, syngja þjóðsönginn og hrópa kjörorð sín: „Kirkjan, þjóðin og föðurlandið.“

Samtökin Heimssýn voru stofnuð fyrir skömmu. Nafnið er í samræmi við hina ytri ímynd sem ESB andstæðan vill hafa á sér. Ég efast reyndar ekki vilja margra félagsmanna til að opnara samfélags, afnáms tolla og friðsamlegra samskipta við aðrar þjóðir. Af hverju það fólk hafi ákveðið að stofna félag með sósíalistum og þjóðernissinnum er mér torskilið.